Tilraunaveiðar með gildrum

Miðvikudaginn 27. febrúar 2002, kl. 15:06:29 (5296)

2002-02-27 15:06:29# 127. lþ. 84.11 fundur 401. mál: #A tilraunaveiðar með gildrum# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., Fyrirspyrjandi SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 127. lþ.

[15:06]

Fyrirspyrjandi (Svanfríður Jónasdóttir):

Herra forseti. Ég rakti í fyrirspurn minni forsögu þessa máls sem var einmitt sú að aðilar sem eru með krókaaflahámarksbát höfðu áhuga á því að reyna gildruveiðar, reyndar í samráði við Hafrannsóknastofnun þannig að öllu væri til skila haldið og ekki var í sjálfu sér verið að biðja um neina umbun af neinu tagi aðra en þá að fá að gera þessa tilraun, m.a. til þess að forðast smáfisk.

Nú kemur það fram í annars ágætu svari hæstv. sjútvrh. að einmitt það sem er forsenda fyrir því neikvæða svari sem þeir fengu frá ráðuneytinu, þ.e. að um krókaaflamarksbát er að ræða, ræður úrslitum.

En spurningin er þessi: Jafnvel þó að hér eigi í hlut krókaaflamarksbátur sem bundinn er að jafnaði línu- og krókaveiðum væri samt ekki möguleiki að veita undanþágu af því að hér er um tilraun að ræða þar sem menn vilja gjarnan kanna heimaslóð sína betur með þessum hætti og þar sem þetta veiðarfæri sem menn eru sammála um að fari vel með botninn og sé vistfræðilega jákvætt, gæti skilað öðrum árangri, jafnvel óvæntum árangri? Hér eru aðilar ekki að biðja um að fá að stunda þessar veiðar að jafnaði heldur einungis sem tilraun. Spurningin er hvort hæstv. ráðherra væri tilbúinn til að beita sér fyrir slíku.