Hafsbotninn við Ísland

Miðvikudaginn 27. febrúar 2002, kl. 15:12:31 (5299)

2002-02-27 15:12:31# 127. lþ. 84.12 fundur 436. mál: #A hafsbotninn við Ísland# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., sjútvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 127. lþ.

[15:12]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen):

Herra forseti. Hv. þm. Katrín Fjeldsted spyr:

,,1. Hvaða rannsóknir hafa verið gerðar á ástandi hafsbotnsins umhverfis landið?``

Hafrannsóknastofnunin hefur á undanförnum árum unnið að margvíslegum rannsóknum er tengjast hafsbotninum umhverfis Ísland. Þótt þessar rannsóknir hafi ekki verið sérstaklega skipulagðar með tilliti til þess að veita upplýsingar um ástand hafsbotns er í þeim að finna niðurstöður sem varpað geta þar nokkru ljósi á.

Meðal fyrri rannsókna eru athuganir á botngerð á hrygningarstöðvum síldar og loðnu fyrir sunnan og vestan land. Einnig hefur stofnunin unnið að endurvarpsmælingum í þeim tilgangi að kortleggja útbreiðslu og þykkt setlaga og fá upplýsingar um harðan botn. Mælingarnar voru umfangsmestar á Faxaflóasvæðinu, í Breiðamerkurdýpi, við Vestmannaeyjar og í Ísafjarðardjúpi, en einnig voru gerðar rannsóknir á afmörkuðum svæðum á grunnsævi í flestum öðrum landshlutum.

Með nýjum tækjabúnaði í RS Árna Friðrikssyni hefur aðstaða til hafsbotnsrannsókna gerbreyst og nú er unnið eftir viðamikilli áætlun um kortlagningu hafsbotnsins umhverfis landið með svonefndum fjölgeisladýptarmæli. Lokið hefur verið kortlagningu u.þ.b. 12 þúsund km2.

Á undanförnum árum hefur verið unnið að ýmsum rannsóknum sem varða vistfræði botnlífvera sem jafnframt gefa upplýsingar um ástand hafsbotnsins. Þar má m.a. nefna hið umfangsmikla verkefni Botndýr á Íslandsmiðum. Þá hafa einnig verið stundaðar langtímarannsóknir á landnámi lífríkis við Surtsey og afmarkaðar rannsóknir á lífríki á hörðum botni í öllum landshlutum. Rannsóknir á áhrifum botnvörpuveiða á samfélag botndýra hófust fyrir nokkrum árum og í því sambandi hefur m.a. verið kannað umfang og dreifing botnvörpuveiða á Íslandsmiðum. Jafnframt er Hafrannsóknastofnun um þessar mundir að vinna að verkefni innan norrænu umhverfis- og fiskveiðiáætlunarinnar. Meginmarkmið þess er að afla þekkingar á áhrifum veiða með botnvörpu og skelplóg á lífríki og gera yfirlit yfir þekkta útbreiðslu kóralla, stórsvampa, kalkþörunga og neðansjávarhvera á Íslandsmiðum.

,,2. Hafa verið unnin umhverfisspjöll á hafsbotni? Er vitað hvaða skemmdir hafa orðið á hafsbotni af völdum veiðarfæra?``

Með orðinu umhverfisspjöll er væntanlega átt við sýnileg ummerki um skemmdir og/eða eyðileggingu á náttúru hafsbotnsins. Hafrannsóknastofnunin hefur ekki fram til þessa stundað sérstakar rannsóknir sem beinlínis lúta að umhverfisspjöllum á hafsbotni. Því er til að svara að erfitt er um vik að bera saman núverandi ástand og svo eitthvað sem var t.d. áður en togveiðar hófust og tækni til rannsókna var ekki tiltæk. Togveiðar hafa verið stundaðar á Íslandsmiðum um langt skeið en erfitt er um vik að sýna fram á spjöll sem kunna að hafa verið unnin á hafsbotni þeirra vegna og meta hugsanleg áhrif til langs tíma.

[15:15]

Eldri sjómenn hafa fullyrt að á Halamiðum og kóralsvæðum undan suðurströndinni hafi veiðislóð verið sléttuð með togveiðum en mjög erfitt er að meta í hve miklum mæli þetta hafi átt sér stað. Þetta hefur hins vegar ekki verið staðfest með rannsóknum.

Kortlagning sjávarbotns við Ísland sem Hafrannsóknastofnun hóf nýlega með svonefndum fjölgeislamæli mun hins vegar gefa nákvæmari mynd af landslagi sjávarbotns. Slík kort munu því mynda mikilvægan grunn sem gera mun kleift að fylgjast með breytingum á landslagi sjávarbotns og hugsanlegum áhrifum togveiða í því sambandi.

,,3. Hvaða áhrif geta skemmdir á hafsbotni haft á klak og uppvaxtarskilyrði lífvera í sjónum?``

Flestar sjávarlífverur við Ísland hrygna miðsævis eða við yfirborð og hrogn þeirra rekur þar með straumum. Þó hrygna nytjastofnar eins og síld, loðna og steinbítur við botn og líma hrogn við hann. Togveiðar þær sem róta upp seti kunna því að hamla eðlilegri framvindu klaksins. Af þessum sökum hafa nokkur hrygningarsvæði síldar verið lokuð fyrir togveiðum meðan á hrygningu stendur og nýlega hefur Hafrannsóknastofnunin gert tillögur til sjútvrn. um bann við öllum veiðum á hrygningartíma á Látragrunni, aðalhrygningarsvæði steinbíts. Almennt eru botndýr, fiskar og hryggleysingjar, á ákveðnum búsvæðum og útbreiðsla þeirra endurspeglar oft og tíðum tilvist slíkra búsvæða.

Veiðarfæri sem dregin eru eftir sjávarbotni geta brotið niður lífsform sem sem vaxa upp á botninum. Jafnframt geta veiðarfæri rótað upp botnseti og velt stórgrýti. Með tíð og tíma breytist botninn og slíkar breytingar geta leitt til þess að búsvæði henti ekki lengur dýrum sem þar þrífast. Af þessum sökum hefur Hafrannsóknastofnunin lagt á það áherslu að mikilvægt sé að efla eins og kostur er allar þær rannsóknir er tengjast áhrifum veiðarfæra á sjávarbotn og botndýralíf.