Útræðisréttur strandjarða

Miðvikudaginn 27. febrúar 2002, kl. 15:27:19 (5305)

2002-02-27 15:27:19# 127. lþ. 84.13 fundur 486. mál: #A útræðisréttur strandjarða# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., GE
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 127. lþ.

[15:27]

Gísli S. Einarsson:

Virðulegur forseti. Nauðsynlegt er að fá niðurstöðu um hvort hið gamla útræði frá strandjörðum skapi rétt til hlutdeildar í veiðum úr fiskstofnum. Þess vegna vil ég þakka hv. fyrirspyrjendum þessa fyrirspurn.

En ekki er síður ástæða til þess að huga að efnistöku af hafsbotni þar sem hún hefur áhrif á landgrunnið 115 metrum frá stórstraumsfjöruborði. Þetta held ég að hafi ekkert komið upp í umræðunni og er mikil ástæða til þess að athuga það.

Það má minna á að keypt voru laxveiðiréttindi jarða, m.a. í Hvalfirði, fyrir fáum árum. Þar fer nú sums staðar fram efnistaka.

Herra forseti. Í mínum huga er alveg skýrt að réttindi strandjarða verður að skilgreina að nýju út frá sögulegri hefð varðandi veiðar og ekki síst hvað varðar efnistöku miðað við það sem var fyrr á tímum.