Útræðisréttur strandjarða

Miðvikudaginn 27. febrúar 2002, kl. 15:32:59 (5309)

2002-02-27 15:32:59# 127. lþ. 84.13 fundur 486. mál: #A útræðisréttur strandjarða# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., sjútvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 127. lþ.

[15:32]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen):

Herra forseti. Ég hef átt fundi með fulltrúum eigenda strandjarða og lögmanni þeirra, Má Péturssyni. Við höfum fengið álitsgerð þeirra, hún er til athugunar í ráðuneytinu og tillit hefur verið tekið til hennar við undirbúning þessa svars. Þeir munu fá formlegt svar frá ráðuneytinu á næstunni.

Það er hins vegar talsvert erfitt fyrir ráðuneytið þegar nefndir sem starfa á vegum þess hafa leitað til lögfræðinga um álit í máli sem þessu, og þeir hafa komið með skýr og greinargóð svör, og ef ráðuneytinu líkar ekki svörin sé annaðhvort leitað til einhverra annarra lögfræðinga til þess að fá einhver önnur svör eða þá svörin einfaldlega hunsuð og farið gegn þeim í tillögum á hinu háa Alþingi. Þess vegna held ég að það verði að leita einhverra annarra leiða en að snúa sér til ráðuneytisins í þessu máli. Niðurstaða Skúla Magnússonar er mjög skýr, af hálfu ráðuneytisins hefur ekki verið talin ástæða til að vefengja þá niðurstöðu og því verða þeir aðilar sem hér um ræðir, ef þeir vilja halda áfram með málið, að leita að niðurstöðu eða leita réttar síns, eins og það er kallað, á annan hátt.