Grænmeti og kjöt

Miðvikudaginn 27. febrúar 2002, kl. 15:43:17 (5312)

2002-02-27 15:43:17# 127. lþ. 84.16 fundur 497. mál: #A grænmeti og kjöt# fsp. (til munnl.) frá landbrh., GE
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 127. lþ.

[15:43]

Gísli S. Einarsson:

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda fyrir að vekja athygli á skorti á upprunamerkingum matvæla af erlendum uppruna. Ég vil taka undir með hæstv. landbrh. að hér er að fara af stað matvælaveislan mikla. Verið er að kynna með sennilega öflugasta hætti íslenskar landbúnaðarafurðir, ekki bara kjöt heldur mjólkurafurðir og hvers konar íslenskar landbúnaðarafurðir, á næstu dögum og verður hátindur veislunnar innan fárra daga í Smáralind.

En það er að verða meira knýjandi að upprunamerkingar matvæla, eiginlegar merkingar matvæla frá haga í maga, séu aðgengilegar og auðskiljanlegar fyrir neytendur. Þetta á að mínu viti við um öll matvæli. Gæðavottun og upprunamerking íslenskra matvæla er svo það sem ber að koma sem fyrst á hér á landi hvort sem um er að ræða matvöru til útflutnings eða sem ætluð er á innanlandsmarkað. Því vil ég nota þetta tækifæri til að hvetja hæstv. landbrh. og reyndar sjútvrh. og iðnrh. til að hraða þessum þarfamálum, herra forseti.