Meðferð við vímuvanda fanga

Miðvikudaginn 27. febrúar 2002, kl. 15:54:25 (5318)

2002-02-27 15:54:25# 127. lþ. 84.17 fundur 434. mál: #A meðferð við vímuvanda fanga# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 127. lþ.

[15:54]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Herra forseti. Hv. fyrirspyrjandi hreyfir hér mikilsverðu máli og spyr í fyrsta lagi:

,,Hve stór hluti fanga sem afplána dóm á Litla-Hrauni er talinn háður áfengi eða ólöglegum vímuefnum?``

Því er til að svara að árið 1996 gerðu dr. Jón Friðrik Sigurðsson og dr. Gísli Guðjónsson rannsókn á áfengis- og fíkniefnaneyslu fanga og gaf hún til kynna að stór hluti fanga ætti við neysluvandamál að stríða. Rannsóknin náði til 359 íslenskra fanga. Þar af sögðust 17% hafa verið í daglegri neyslu áfengis eða einhverra fíkniefna síðasta hálfa árið fyrir afplánun, og tæplega fjórðungur eða 23% sagðist einhvern tíma hafa sprautað sig með fíkniefnum. Aðspurðir töldu 29% fanga sig eiga við áfengis- og/eða fíkniefnavandamál að stríða. Þess má einnig geta að 57% aðspurðra fanga sögðust einhvern tíma hafa farið í vímuefnameðferð. Þessar tölur ná til allra fangelsa landsins en vænta má að niðurstöður fyrir Litla-Hraun séu ekki betri.

Frá því að niðurstöður úr rannsókninni voru birtar hefur ekki verið formlega kannað hversu stór hluti fanga er háður áfengi og/eða ólöglegum vímuefnum. Eins má geta þess að þegar vímuefnaneysla er könnuð er það gert á þeirri forsendu að fanginn sjálfur meti hvort hann eigi við vandamál að stríða en ekki rannsakandinn.

Í öðru lagi er spurt: ,,Hve stór hluti fanga fær meðferð við vímuvanda sínum fyrir lok afplánunar?``

Frá árinu 1990 hefur Fangelsismálastofnun í samstarfi við SÁÁ gefið föngum kost á að ljúka afplánun í meðferð og á árunum 1990--2001 fóru 246 fangar í áfengis- og/eða fíkniefnameðferð á vegum SÁÁ. Árið 2001 fóru fjórir fangar í vímuefnameðferð á meðferðarstofnunina Hlaðgerðarkot og frá áramótum 2002 hafa þrír fangar hafið meðferð í afplánun þar. Að öllu jöfnu eiga fangar kost á því að ljúka síðustu sex vikum afplánunar í vímuefnameðferð. Í sumum tilvikum hafa vímuefnameðferðarstofnanir sem Fangelsismálastofnun á í samstarfi við talið að ákveðnir fangar þurfi langtímameðferð og hefur Fangelsismálastofnun veitt leyfi til þess að fangar sæki slíka meðferð meðan á afplánun stendur.

Fangar í fangelsinu á Litla-Hrauni eiga kost á því að sækja vímuefnameðferð á öllum stigum afplánunar. Sálfræðingur fangelsisins sem og aðrir heilbrigðisstarfsmenn sem starfa þar hafa veitt föngum með vímuefnavanda meðferð meðan þeir eru í afplánun. Þess má einnig geta að haustið 2001 fóru þrír fangaverðir frá fangelsinu Litla-Hrauni í starfsþjálfun til þriggja viðurkenndra áfengis- og/eða vímuefnameðferðarstofnana á höfuðborgarsvæðinu gagngert til að læra hvernig best má styðja og hvetja einstaklinga sem vilja hætta í vímuefnaneyslu.

Erfitt er að gefa upplýsingar um hlutfall þeirra fanga sem fá meðferð við vímuefnavanda sínum þar sem sumir fangar vilja ekki þiggja neina meðferð. Hins vegar má að öllu jöfnu segja að þeir fangar sem vilja aðstoð við að hætta í vímuefnaneyslu eiga kost á því að fá meðferð meðan á afplánun stendur. Þá má geta þess að reglulegir AA-fundir eru haldnir í fangelsinu á Litla-Hrauni og hjálpar það mörgum föngum að styrkja sig og efla.

Í þriðja lagi er spurt: ,,Hvað kostar slík meðferð og hver ber kostnaðinn af henni?``

Kostnaður af meðferð sem fram fer inni í fangelsum er borinn sem hver annar kostnaður af fangelsismálakerfinu sjálfu. Ekki hefur verið um gjaldtöku að ræða fyrir þá fanga sem fara í Hlaðgerðarkot. Samkvæmt samningi sem hefur verið í gildi við SÁÁ greiddi Fangelsismálastofnun ríkisins ákveðna fjárhæð, kr. 10 þús. fyrir hvern fanga sem fór í meðferð hjá SÁÁ, óháð því hvort um lengri eða skemmri dvöl, allt upp í sex vikur, væri að ræða. Þessi samningur er nú til endurskoðunar. SÁÁ fær greitt fyrir hvern vistmann sem kemur til meðferðar samkvæmt sérstökum samningum við heilbrigðisyfirvöld og er dóms- og kirkjumrn. ekki kunnugt um hvað kveðið er á um í þeim samningi.

Í fjórða lagi er spurt: ,,Kemur til greina að bjóða upp á slíka meðferð í upphafi fangelsisvistar í stað þess að bíða þar til henni er að ljúka?``

Undirbúningsvinna að meðferð í fangelsinu að Litla-Hrauni hefur miðað að því að fangar geti byrjað í meðferð hvenær sem er á afplánunartímanum, líka í upphafi fangavistar. Í meðferðaráætlun í fangelsinu er ekki aðeins miðað við áfengis- og fíkniefnameðferð samkvæmt 12 spora kerfinu sem notað er hjá SÁÁ. Áætlanirnar í fangelsinu ná líka til þess að fangar geti unnið bug á ýmsum öðrum vandamálum sem margir eiga við að stríða, svo sem kenna þeim reiðihömlun o.fl.

Af fjárhagsástæðum hefur ekki enn tekist að skipuleggja fulla meðferð í fangelsinu og raunar hefur því miður orðið að fresta henni. Vonandi tekst þó að bæta þar úr áður en langt um líður og mun ég leggja áherslu á að málið nái fram að ganga

Í ýmsum nágrannalöndum hafa fangelsin á undanförnum árum skipulagt meðferð innan veggja fangelsanna sem hafa gefið góða raun og við undirbúninginn á Litla-Hrauni er tekið mið af svipaðri eða sams konar meðferð.