Meðferð við vímuvanda fanga

Miðvikudaginn 27. febrúar 2002, kl. 16:03:50 (5322)

2002-02-27 16:03:50# 127. lþ. 84.17 fundur 434. mál: #A meðferð við vímuvanda fanga# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi KF
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 127. lþ.

[16:03]

Fyrirspyrjandi (Katrín Fjeldsted):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þessar umræður.

Talið er að um 9 milljón manns sitji í fangelsum um veröld víða, þar af eru 2 milljónir í Bandaríkjunum og um 70 þúsund í Bretlandi. Við erum náttúrlega dvergríki hvað þetta varðar til allar hamingju og ættum þess vegna að geta náð vel utan um málið og mér sýnist allt stefna í að það sé gert.

Í nýlegri yfirlitsgrein í tímaritinu Lancet kom fram að geðraskanir eru mjög algengar meðal fanga. Persónuleikatruflanir eru þar líklega efst á blaði en þunglyndi og ýmsir aðrir sjúkdómar hrjá þennan hóp manna sömuleiðis. Miklu skiptir að meðferðarsjónarmið og refsisjónarmið fari sem mest saman. Meðferð við áfengis- og vímuefnavanda skilar sér ekki í öllum tilvikum eins og kunnugt er og því þarf að velja vel þá sem meðferð er talin geta gagnast.

Lengið hefur verið rætt um að koma á fót meðferðardeild við fangelsið og þar er talið að alla vega þurfi að vera um tíu pláss. Meðferðin gæti tekið um þrjá mánuði, alla vega mætti leggja upp með það. Fangar sem vistast á Litla-Hrauni eru margir hverjir háðir áfengi og/eða vímuefnum og gætu útskrifast sem heilbrigðari menn ef þeim tækist að losna úr þeim viðjum. Markmiðið með því að menn taki út refsingu fyrir brot sín er að þeir geti orðið nýtir þjóðfélagsþegnar að henni lokinni. Meðferð við sjúkdómum sem í mörgum tilvikum eru liður í því að brot var framið, þar með talin fíkn þótt fleira komi til, skiptir þar miklu máli.

Ég skil hæstv. dómsmrh. svo að hún vilji að meðferðardeild verði komið á við Litla-Hraun hið fyrsta og ég styð hana eindregið í því. Einnig þarf markviss langvarandi eftirmeðferð að vera fyrir hendi til þess að fylgja hlutunum eftir. En ég held að af því að við erum lítil þjóð eigum við möguleika á að gera enn betur í þessum efnum en flestir aðrir og ég veit að hæstv. ráðherra ætlar sér það.