Innkaup ríkisspítala

Miðvikudaginn 27. febrúar 2002, kl. 16:07:21 (5324)

2002-02-27 16:07:21# 127. lþ. 84.18 fundur 541. mál: #A innkaup ríkisspítala# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., Fyrirspyrjandi LB
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 127. lþ.

[16:07]

Fyrirspyrjandi (Lúðvík Bergvinsson):

Virðulegi forseti. Það þarf svo sem ekkert að hafa um það mörg orð að innkaup ríkisins á því sem það þarf að kaupa eru mikil og miklu máli skiptir að vel sé með farið í þeim efnum. Hlutur Ríkisspítalanna er ekki lítill í þessum efnum.

Eins og lögum er nú háttað er skylt að bjóða út öll innkaup nema þau séu undir 5 millj. og kaup á þjónustu og verkum yfir 10 millj. skal bjóða sérstaklega út. Það eru því ákveðnar reglur um hvað skuli bjóða út þótt það í sjálfu sér takmarki ekki á neinn hátt að önnur innkaup séu einnig boðin út.

Ég hef því leyft mér að beina fyrirspurn til hæstv. fjmrh. þar sem ég spyr:

Hversu hátt hlutfall, tiltekið í prósentum eða krónum af heildarfjárhæð, af innkaupum Ríkisspítalanna er samkvæmt útboði?