Skipan matvælaeftirlits

Miðvikudaginn 27. febrúar 2002, kl. 16:09:08 (5326)

2002-02-27 16:09:08# 127. lþ. 84.19 fundur 514. mál: #A skipan matvælaeftirlits# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi MF
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 127. lþ.

[16:09]

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir):

Virðulegi forseti. Nýlega var gerð opinber skýrsla ráðgjafarnefndar um framtíðarskipan opinbers matvælaeftirlits. Mér skilst að skýrslan og niðurstöður nefndarinnar hafi legið fyrir um nokkurn tíma áður en hún var birt opinberlega, en í niðurstöðunum er m.a. lagt til að ýmis svið matvælaeftirlits sem dreifist á nokkrar stofnanir verði sameinuð í eina stofnun, Matvælastofu, og að hugmyndin sé jafnvel sú að stofnunin heyri undir sjútvrn. Hér er ekki eingöngu um að ræða að sameina verkefni sem unnin eru af hálfu ríkisstofnana heldur einnig eftirlit sem framkvæmt er af heilbrigðiseftirliti sveitarfélaga.

Á fundi þingmanna með fulltrúum sveitarfélaga á Suðurlandi og fulltrúa Heilbrigðiseftirlits Suðurlands kom fram veruleg óánægja með niðurstöður skýrslunnar og þeirra tillagna sem þar eru. Ef þau verkefni sem unnin eru í dag af heilbrigðiseftirliti sveitarfélaga og sem í tillögunum er gert ráð fyrir að verði tekin frá þeim og færð undir nýja ríkisstofnun þá er ljóst að á eftir standa aðeins óburðugar einingar sem gera það að verkum að erfitt verður fyrir sveitarfélögin að halda úti öflugu, faglegu eftirliti eins og þau gera nú. Það er einkennilegt í ljósi allrar þeirrar umræðu sem átt hefur sér stað um að efla sveitarfélögin og verkefni þeirra að þarna eru á ferðinni tillögur um að taka frá þeim mikilvæg verkefni sem hlýtur að vera betur sinnt af fagfólki sem hefur sérþekkingu á aðstæðum á hverjum stað, auk þess sem sveitarfélögin hafa eflt þennan þátt í starfsemi sinni verulega á undanförnum árum.

Því er með öllu óskiljanlegt að þegar skýrsla nefndarinnar var samin var ekkert samráð haft við þá aðila sem framkvæma matvælaeftirlit á vegum sveitarfélaganna eða við samtök sveitarstjórnarmanna til þess að afla upplýsinga um starfsemi þeirra eða skoða hvort sveitarfélögin væru til í að taka að sér stærri þátt en nú er. Þó fór stjórn samtaka heilbrigðiseftirlitssvæða sveitarfélaganna á fund formanns nefndarinnar og vakti athygli hans á nauðsyn þessa samráðs. Því var ekki sinnt en þess í stað voru settar fram órökstuddar fullyrðingar um framkvæmd þessa þáttar eftirlitsins. Þetta eru slæm vinnubrögð því ég tel að hér sé um að ræða verkefni sem eru vel til þess fallin að færa enn frekar verkefni til sveitarfélaganna.

Því spyr ég: Hefur verið skoðuð sérstaklega og metin hagkvæmni þess að flytja allt matvælaeftirlit á vettvangi til stofnana sveitarfélaganna en sameina stjórnsýsluþátt málaflokksins í eina Matvælastofu? Ef svo er, hver var niðurstaða þeirrar athugunar? Ef ekki, mun hæstv. ráðherra í samstarfi við sveitarfélögin beita sér fyrir því að hagkvæmni slíks fyrirkomulags verði athuguð?