Skipan matvælaeftirlits

Miðvikudaginn 27. febrúar 2002, kl. 16:11:40 (5327)

2002-02-27 16:11:40# 127. lþ. 84.19 fundur 514. mál: #A skipan matvælaeftirlits# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., umhvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 127. lþ.

[16:11]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Því er til að svara að mér er ekki kunnugt um að skoðuð hafi verið hagkvæmni þess að flytja allt matvælaeftirlit til stofnana sveitarfélaganna, þ.e. þá eftirlit yfirdýralæknis og Fiskistofu, vegna þess að mikill hluti af þessu eftirliti er nú þegar hjá sveitarfélögunum. Mér er ekki kunnugt um að slík athugun hafi verið gerð og mun ekki beita mér fyrir því að hún verði gerð á þessu stigi. Ekki hefur komið fram ósk um það sérstaklega. Ef hún kæmi þyrfti að skoða þá ósk --- hún kæmi þá væntanlega frá sveitarfélögunum --- og gera það þá í samræmi við aðra ráðherra.

Hins vegar er það rétt að nefnd á vegum forsrn. hefur skoðað, eftir að umhvrh. flutti tillögu um það í ríkisstjórn, að einfalda matvælaeftirlit í landinu. Þetta var nefnd um opinberar eftirlitsreglur og hún komst að þeirri niðurstöðu að eðlilegt væri að sameina allt matvælaeftirlit í landinu undir eina stofnun, Matvælastofu.

Í dag er það þannig að samkvæmt matvælalögum er yfirstjórn matvælamála í höndum þriggja ráðuneyta, umhvrn., landbrn. og sjútvrn. Umhvrn. fer með yfirstjórn mála að svo miklu leyti sem hún er ekki falin öðrum ráðuneytum, þ.e. landbrn. eða sjútvrn. Því heyrir hið almenna matvælaeftirlit undir umhvrn. en sérhæft matvælaeftirlit, annars vegar mál er varða meðferð, flutning, geymslu og vinnslu sjávarafurða vegna útflutnings undir sjútvrn., og mál er varða eftirlitsstörf dýralækna, innflutning og útflutning búfjárafurða, smitsjúkdóma búfjár, meðferð og skoðun og mat á sláturafurðum og heilbrigðisskoðun eldisfisks undir landbrn. Þessu eftirliti er skipt þannig að hið hefðbundna matvælaeftirlit sem fellur undir verksvið umhvrn. er rekið á vegum heilbrigðisnefnda sveitarfélaganna að frátöldu innflutningseftirliti með matvælum sem er í höndum Hollustuverndar ríkisins.

Það eftirlit sem fellur undir landbrn. annars vegar og sjútvrn. hins vegar er því í höndum ríkisins og annast stofnanir þessara ráðuneyta það, annars vegar yfirdýralæknir og hins vegar Fiskistofa. Samkvæmt þessu er matvælaeftirlitinu í reynd skipt á milli sveitarfélaganna og ríkisins eftir því um hvers konar eftirlit er að ræða.

Mér er kunnugt um þá óánægju sem endurspeglaðist hér í málflutningi hv. fyrirspyrjanda, þ.e. að sveitarfélögin hafa ekki stutt þær tillögur sem hafa verið í umræðunni. Það er alveg ljóst að ef farið verður í að hrinda þeim í framkvæmd þá þarf auðvitað samráð við sveitarfélögin. Það hefur alltaf komið fram. Ég tel að það sé mun einfaldara að taka skref hjá ríkinu, þ.e. að sameina hjá ríkinu annaðhvort undir eina eða tvær stofnanir. Í dag er þetta undir þremur stofnunum. En engin ákvörðun hefur verið tekin um það hvort fara eigi út í slíkt og þá hvenær. Málið er því óljóst eins og stendur.

Miðað við þær umræður sem hafa orðið tel ég að flestir séu sammála því að æskilegt væri að taka skref í þessu, m.a. vegna þróunar sem á sér stað í Evrópu þar sem er verið að koma upp matvælastofnun Evrópu. Hins vegar er ekki ljóst hvað sé skynsamlegast að gera og með hvaða aðferð. Málið stendur þannig í dag að á meðan ekki verða tekin önnur skref verður matvælaeftirlitið í óbreyttum farvegi.

Ekki hafa komið fram neinar óskir um þessa skoðun sem hv. fyrirspyrjandi spurði hér um. En ef slík ósk kemur fram þarf að skoða hana.