Málefni Ísraels og Palestínu

Fimmtudaginn 28. febrúar 2002, kl. 11:18:11 (5331)

2002-02-28 11:18:11# 127. lþ. 85.91 fundur 365#B málefni Ísraels og Palestínu# (aths. um störf þingsins), ÞSveinb
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 127. lþ.

[11:18]

Þórunn Sveinbjarnardóttir:

Hæstv. forseti. Nú hefur það borið til tíðinda í Austurlöndum nær að Sádi-Arabar hafa lagt fram tillögu til að reyna að stuðla að friði á milli Ísraela og Palestínumanna. Ástæða er til þess að fagna þessum málatilbúnaði, ekki síst vegna þess að með honum er reynt að fylkja nágrannaríkjum Ísraels á bak við hugmyndir sem gætu leitt til sátta og friðar fyrir botni Miðjarðarhafs.

Í Fréttablaðinu í morgun mátti lesa um jákvæð viðbrögð utanrrh. við þessum tíðindum. Mig fýsir að vita, herra forseti, hvort hæstv. utanrrh. hyggist beita sér í þessu máli og þá hvernig. Þingflokkur Samfylkingarinnar skoraði í gær á ríkisstjórn Íslands að leggja sitt af mörkum til að tillögurnar fái nauðsynlega umfjöllun á alþjóðlegum vettvangi. Það skiptir miklu máli að við, jafnt sem aðrir á Vesturlöndum, beitum okkur af alefli fyrir friði í Ísrael og Palestínu. En eins og alkunna er þá er brottkvaðning herliðs frá hernumdu svæðunum forsenda þess að friður komist á fyrir botni Miðjarðarhafs.

Ég spyr hæstv. utanrrh. hvort hann muni beita sér í þessu máli og til hvaða ráðstafana hann muni grípa.