Málefni Ísraels og Palestínu

Fimmtudaginn 28. febrúar 2002, kl. 11:28:44 (5337)

2002-02-28 11:28:44# 127. lþ. 85.91 fundur 365#B málefni Ísraels og Palestínu# (aths. um störf þingsins), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 127. lþ.

[11:28]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Málið sem við ræðum hér er svo alvarlegt að við eigum ekki að draga það niður á plan hártogana eins og hæstv. forsrh. var með hér áðan. Það er honum ekki sæmandi að koma með þessum hætti inn í umræðuna þar sem menn eru á málefnalegum grunni og hafa málefnaleg rök að vopni, eins og hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir, við að reyna að glöggva sig á því með hvaða hætti Íslendingar geti lagt sitt lóð á vogarskálarnar. Forsendan er auðvitað sú sem kemur fram í tillögu krónprinsins frá Sádi-Arabíu, um að hinn óboðni gestur dragi sig brott frá hernumdu svæðunum. Sumir hafa kallað þetta land fyrir frið.

Herra forseti. Okkur rennur blóðið til skyldunnar vegna þess að Ísland, hið litla ríki, kom að upphafi þessa máls. Íslendingar áttu stóran hlut að máli þegar Ísraelsríki var stofnað eins og við munum eftir. Við höfum þess vegna sögulegan rétt en líka sögulegar skyldur.

Mér hefur þótt hæstv. utanrrh. tala af nokkrum skörungsskap í þessu máli og ég hef yfirleitt verið ánægður með málflutning hans varðandi Palestínu. Mér hefur fundist hann taka nokkuð skýrt á því með hvaða hætti þeir hafa verið ofurliði bornir og beittir ranglæti. Mér fannst hins vegar sem hæstv. ráðherra talaði ekki nógu skýrt í þessu máli í dag. Ég er þeirrar skoðunar að miðað við þróunina sé vel við hæfi að hið háa Alþingi tjái, eins og svo oft áður, skoðun sína með einhverjum hætti. Þess vegna mun ég kanna hvort ekki sé rétt, í fyrsta lagi, að utanrmn. verði kölluð saman til þess að ræða með hvaða hætti Ísland eigi að beita rödd sinni á alþjóðavettvangi hvað þetta mál varðar. Ég spyr í öðru lagi hvort ekki sé rétt að þingheimur sameinist um sérstaka ályktun til að styðja það frumkvæði sem komið hefur frá Sádi-Arabíu.