Vísinda- og tækniráð

Fimmtudaginn 28. febrúar 2002, kl. 12:05:26 (5349)

2002-02-28 12:05:26# 127. lþ. 85.2 fundur 539. mál: #A Vísinda- og tækniráð# frv., 549. mál: #A opinber stuðningur við vísindarannsóknir# frv., 553. mál: #A opinber stuðningur við tækniþróun og nýsköpun# frv., SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 127. lþ.

[12:05]

Svanfríður Jónasdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég sé ástæðu til að fagna þeim svörum sem hér hafa komið fram, að menn horfi á þetta í þessu stóra samhengi. Ég held að það sé algerlega nauðsynlegt að við horfum til þess hvernig við skipum málum okkar á vegum Stjórnarráðsins, í ráðuneyti og stjórnarstofnanir með tilliti til þeirra breytinga sem eru að verða. Eins og ég sagði áðan hefur það margoft verið rætt hér hver skörun er gjarnan á milli atvinnuvegaráðuneytanna ekki síst, þar sem nýjar atvinnugreinar eru nánast heimilislausar og menn eru að vandræðast með þær og verkefni nefnda þingsins skarast líka.

Þó að ég tali svona um uppstokkun ráðuneytanna, herra forseti, sem mér hefur lengi þótt brýn, þá er ekki þar með sagt að ég sé að leggja blessun mína yfir þær breytingar á vísinda- og rannsóknasamfélaginu sem hér á að fara að ræða. Ég rak einfaldlega augun í það að þessi rök eru notuð en ég er ekki viss um að sú niðurstaða sé rétt sem hæstv. ríkisstjórn virðist hafa komist að en það ræðum við síðar í umræðunni.