Vísinda- og tækniráð

Fimmtudaginn 28. febrúar 2002, kl. 12:24:51 (5355)

2002-02-28 12:24:51# 127. lþ. 85.2 fundur 539. mál: #A Vísinda- og tækniráð# frv., 549. mál: #A opinber stuðningur við vísindarannsóknir# frv., 553. mál: #A opinber stuðningur við tækniþróun og nýsköpun# frv., KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 127. lþ.

[12:24]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Hér er um afskaplega viðamikið mál að ræða. Áður en eiginlegar umræður um þau hefjast í þingsal að loknum framsöguerindum sem hæstv. ráðherrar flytja nú, er rétt að óska eftir því við hæstv. menntmrh. að hann varpi ljósi á eitt efnisatriði úr frv. því er hann fylgdi úr hlaði í ræðu sinni. Það varðar 5. gr., herra forseti, sem fjallar um fagráð Rannsóknasjóðs. Það kemur ekki fram í greininni hversu mörg fagráð er gert ráð fyrir að stofnuð verði, en upphaf greinarinnar hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Stjórn Rannsóknasjóðs skipar fagráð til tveggja ára í senn á helstu sviðum vísinda sem skulu hafa það hlutverk að vera ráðgefandi fyrir stjórn Rannsóknasjóðs ...``

Það kemur sömuleiðis fram í greinargerð með frv., eða réttara sagt fylgiskjali, þ.e. umsögn fjárlagaskrifstofu fjmrn., að ekki sé hægt að lesa af frv. hversu mörg þessi fagráð séu en þau eigi greinilega að vera nokkur.

Ég tel nauðsynlegt, herra forseti, áður en almennar umræður um þetta mál hefjast að hæstv. ráðherra varpi ljósi á hversu mörg fagráð hann sér fyrir sér.