Vísinda- og tækniráð

Fimmtudaginn 28. febrúar 2002, kl. 12:26:11 (5356)

2002-02-28 12:26:11# 127. lþ. 85.2 fundur 539. mál: #A Vísinda- og tækniráð# frv., 549. mál: #A opinber stuðningur við vísindarannsóknir# frv., 553. mál: #A opinber stuðningur við tækniþróun og nýsköpun# frv., menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 127. lþ.

[12:26]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Ef það hefði verið vilji ráðuneytisins að binda þetta í lögum þá hefðum við lagt það til. Ég tel hins vegar mjög óskynsamlegt í lögum af þessu tagi að segja að ráðin eigi að vera fjögur, fimm eða átta eða hvað menn vilja hafa þau mörg. Ég held að það sé lykilatriði þegar menn fjalla um þessi mál að hafa löggjöfina almenna sem síðan verði hægt að móta betur þegar menn standa frammi fyrir því að taka afstöðu til þess með hliðsjón af þróun vísindanna í landinu hvað ráðin eigi að vera mörg. Í upphafi athugsemda um 5. gr. segir, með leyfi hæstv. forseta:

,,Stjórn Rannsóknasjóðs er ætlað að skipa 5--7 manna fagráð til tveggja ára á helstu sviðum vísinda. Fagráðum er ætlað að veita faglega ráðgjöf og meta umsóknir um styrki. Skipan í fagráð til tveggja ára veitir möguleika á að endurnýja þau reglulega. Þau fagráð sem vænta má að stjórn Rannsóknasjóðs skipi fjalla um hug- og félagsvísindi, líf- og læknisfræði, raunvísindi og verkfræði. Stjórn Rannsóknasjóðs setur fagráðum erindisbréf.``

Þarna er markaður rammi en það á ekki að setja það endanlega inn í löggjöfina hvað þessi fagráð eiga að vera mörg, enda á það náttúrlega að fara eftir því hvernig vísindin þróast og hvaða fagsviðum menn telji að sérstök ráð þurfi að sinna. Ég held að nálgast verði málið frekar með þeim opna huga en ætla með löggjöf að loka sig inni í einhverjum ramma sem kannski dugar ekki nema til skamms tíma.