Vísinda- og tækniráð

Fimmtudaginn 28. febrúar 2002, kl. 12:29:15 (5358)

2002-02-28 12:29:15# 127. lþ. 85.2 fundur 539. mál: #A Vísinda- og tækniráð# frv., 549. mál: #A opinber stuðningur við vísindarannsóknir# frv., 553. mál: #A opinber stuðningur við tækniþróun og nýsköpun# frv., menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 127. lþ.

[12:29]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Ég geri mér ekki grein fyrir því að þessar tillögur um fagráðin hafi í för með sér aukinn kostnað. Þá verða menn að bera saman kostnað við úthlutun styrkja núna á vegum Rannsóknarráðs Íslands, hvernig þau fagráð starfa og hvaða kostnaður þar er. Ég held að umgjörðin í þessu sé ekki þess eðlis að menn séu að stefna að því að stórauka kostnaðinn.

Hins vegar eru ákvæðin um fagráðin ákaflega mikilvæg í ljósi allra þeirra umræðna sem fram hafa farið um þessi mál og uppbyggingu þeirra því að hér er lagt til að fagráðin verði öflug og að vísindamenn komi þar að einmitt til þess að styrkja hina faglegu hlið við úthlutun á styrkjunum þar sem, eins og segir í 2. gr. þessa frv., eru gerðar mjög strangar kröfur og lögð höfuðáhersla á að lagt sé mat á einstaklinga. Og þessir einstaklingar, fullyrði ég, starfa í meira samkeppnisumhverfi en nokkrir aðrir í íslensku þjóðfélagi, samkeppnisumhverfi innan lands og alþjóðlegu samkeppnisumhverfi. Það er mjög mikilvægt að búa þannig um hnúta að þeir séu öruggir um að fjallað sé faglega, vel og skipulega um þeirra mál til þess að komast að niðurstöðu.