Vísinda- og tækniráð

Fimmtudaginn 28. febrúar 2002, kl. 12:36:17 (5360)

2002-02-28 12:36:17# 127. lþ. 85.2 fundur 539. mál: #A Vísinda- og tækniráð# frv., 549. mál: #A opinber stuðningur við vísindarannsóknir# frv., 553. mál: #A opinber stuðningur við tækniþróun og nýsköpun# frv., SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 127. lþ.

[12:36]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Með þessum þremur frumvörpum sem nú hefur verið mælt fyrir er verið að leggja drög að nokkurri breytingu á því stjórnkerfi og rannsóknarumhverfi sem verið hefur og við hljótum að spyrja: Hver er ástæða þess? Við veltum því fyrir okkur af hverju nú er verið að breyta því umhverfi? Er það vegna þess að sú staða sem við höfum haft, sá uppbyggingarstrúktur sem verið hefur hefur ekki gagnast okkur? Höfum við ekki náð nægjanlega langt vegna þess að Rannís hefur ekki staðið sig? Hefur verið óánægja í vísindaheiminum með það fyrirkomulag sem við búum nú við? Hefur verið óánægja hjá atvinnulífinu með þetta fyrirkomulag eða af hverju er verið að breyta?

Herra forseti. Viðhorf til starfsemi Rannsóknarráðs Íslands hefur verið kannað, ekki bara einu sinni heldur í tvígang. Bæði hefur vísindasamfélagið verið spurt, svo og atvinnulífið og stjórnvaldsstofnanir hafa líka verið spurðar hvernig þessir aðilar telja að ráðið hafi sinnt hlutverki sínu nú á síðari árum og jafnframt hversu trúverðugt það er í störfum sínum.

Herra forseti. Viðhorfin hafa verið mjög jákvæð og mál flestra að ráðinu hafi farið fram, ef má orða það þannig, og menn séu sífellt að gera betur. Hins vegar hefur það verið harðlega gagnrýnt að það fjármagn sem ráðið hafi til að styrkja vísindastarf sé allt of lítið. Þar hefur gagnrýnin legið. Gagnrýnin hefur sem sé ekki verið á fyrirkomulagið, hvorki hjá vísindasamfélaginu, atvinnulífinu eða þeim stjórnvaldsstofnunum sem hefur verið rætt við. Gagnrýnin hefur verið á það að fjármagn sé of lítið. Þess vegna veltir maður því fyrir sér, af hverju er verið að breyta? Hver er ástæða þeirra breytinga sem hæstv. menntmrh. eignar sér hugmyndina að vegna þess að eins og segir á heimasíðu hæstv. ráðherra þar sem hann fjallar um Tækni- og vísindaráð, þá er nú um eitt og hálft ár liðið síðan hann sagðist hafa hreyft því fyrst á fundi með Rannsóknarráði Íslands að nauðsynlegt væri að skapa vísinda- og tæknistarfsemi í landinu nýjan lagaramma.

Ástæða hans var sú að hann vildi auka hlut vísinda og tækni við mótun almennrar efnahags- og atvinnustefnu þjóðarinnar. Þá hljótum við að leita þar að ástæðunni. Er þá ástæðan sú að áherslur Rannís hafi ekki fylgt nægjanlega eftir almennri efnahags- og atvinnustefnu þjóðarinnar eða ekki verið nægjanlegur hluti atvinnu- og efnahagsstefnu þjóðarinnar.

Herra forseti. Þegar farið er yfir greinargerð þess frv. sem hæstv. iðnrh. mælti fyrir áðan, þá segir, með leyfi forseta:

,,Eitt helsta inntak þessarar nýskipunar er að stefnumótun í vísindarannsóknum og tækniþróun byggist á stefnu ríkisstjórnarinnar í efnahags- og atvinnumálum á hverjum tíma.``

Þegar við skoðum þetta allt og leggjum saman, þá blasir það einfaldlega við að hæstv. ríkisstjórn vill breyta uppbyggingu þessara mála vegna þess að hún vill að vísindarannsóknir í landinu séu í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar í efnahags- og atvinnumálum á hverjum tíma.

Ég spyr, herra forseti: Er þetta nútímaleg nálgun? Er þetta sú nálgun sem við teljum rétta og eðlilega á 21. öldinni, að stjórnmálamenn taki að sér að segja vísindunum hvað þau eigi að rannsaka vegna þess að það er einfaldlega það sem hér liggur fyrir, herra forseti? Þetta er ekki flóknara. Hér liggja fyrir þrjú frumvörp hverra tilgangur er að breyta hlutunum á þann veg að stjórnmálamenn geti haft áhrif á það langt umfram það sem verið hefur í hvaða farvegi vísindarannsóknir á Íslandi eiga að vera.

Ég verð að segja, herra forseti, að það fer um mig léttur hrollur þegar ég les setningar eins og þá sem hér er að finna í greinargerð frv. hæstv. iðnrh. vegna þess líka að eins og ég gat um áðan og margoft hefur komið fram, þá er það ekki hvað síst fjárskortur sem menn hafa kvartað um og enn þá hefur ekkert það komið fram sem segir okkur að þessi breyting leiði til þess að stjórnvöld setji meiri peninga til þessara hluta. Það sem ég óttast, herra forseti, er að þær breytingar sem hér er verið að leggja til leiði einfaldlega til þess að þeim fjármunum sem til ráðstöfunar verða --- og ég óttast að muni ekki aukast að ráði --- verði beint til svokallaðra hagnýtra rannsókna, rannsókna sem koma að beinu gagni, hverra sést beinn árangur fljótlega í samræmi við efnahags- og atvinnustefnu ríkisstjórnar á hverjum tíma en að grunnrannsóknir verði útundan.

Af því að hæstv. menntmrh. sagði áðan að stundum væri erfitt að greina á milli grunnrannsókna og hagnýtra rannsókna, þá er það út af fyrir alveg rétt og auðvitað geta rannsóknir sem menn töldu að ættu að vera hagnýtar orðið grunnrannsóknir af því að þær eru kannski fyrst og fremst að afla nýrrar þekkingar sem nýtist ekki augljóslega og svo öfugt. En það er samt ein aðferð sem er líklega óbrigðul þegar menn vilja greina á milli grunnrannsókna og hagnýtra rannsókna og hún er sú að markaðurinn er tilbúinn að fjármagna hagnýtar rannsóknir. Það er alveg ljóst. Þess vegna hefur það auðvitað verið hlutskipti hins opinbera að sjá um grunnrannsóknir í stærra mæli en hagnýtar. Og ég spyr, herra forseti: Hvernig verður umhverfið hér eftir einhver ár ef sú stefna sem verið er að boða að vísindasamfélagið eigi að beygja sig undir efnahags- og atvinnustefnu ríkisstjórnarinnar á hverjum tíma og þar með verði áherslan á hagnýtar rannsóknir í fyrirrúmi, hvernig verður ástandið þá ef við horfum á rannsóknir sem við köllum grunnrannsóknir, rannsóknir sem leita þekkingar, ef við horfum á þær þorna upp? Hvert stefnum við þá í nútímanum þegar menn eru á einu máli um það, flestir, sem koma að þessari umræðu að rannsóknir séu alfa og ómega hagvaxtar. Að hagvöxtur byggi fyrst og fremst á mannauði, þ.e. fólki sem hefur aflað sér nýrrar þekkingar.

[12:45]

Herra forseti. Þessar áhyggjur mínar varð ég að láta í ljósi. Ég vona að hæstv. ráðherrar geti komið hér og bætt um betur frá því sem verið hefur í morgun og sannfært mig og aðra sem ég veit að hafa nákvæmlega þessar sömu áhyggjur um það að þær séu ekki á rökum reistar, að það sem hér stendur sé klaufalega orðað, auðvitað eigi þetta að vera allt öðruvísi, og þó að stjórnmálamenn, ráðherrar hæstv. ríkisstjórnar, ætli sér að ráða meiri hluta í hinu nýja Vísinda- og tækniráði ætli þeir sér samt sem áður ekki að beita þeim meiri hluta með þeim hætti sem hér er þó því miður sagt að eigi að gera. Ég ætla að vona, herra forseti, að þeir sannfæri okkur um eitthvað annað í dag.

En af því að ég er farin að tala um það sem er ástæða til að hafa áhyggjur af ætla ég að nefna annað. Ég tók eftir því fyrst þegar farið var að reifa þessar hugmyndir að ýmsir fulltrúar vísindasamfélagsins, ef má orða það þannig, létu í ljósi nokkrar áhyggjur. Síðan hefur orðið ákveðin þöggun, og ég hef áhyggjur af því, herra forseti, að einhverjir þeir aðilar sem gagnrýna þessa hluti, gagnrýna það sem þeir óttast að hér sé að gerast, komi gagnrýni sinni ekki opinskátt á framfæri eins og vera bæri í frjálsu samfélagi. Ég hef áhyggjur af því ef þetta er að gerast, sem virðist vera, vegna þess að það segir mér að vísindamenn á Íslandi hafa áhyggjur af stöðu sinni, þeir hafa áhyggjur af því í þessu þrönga samfélagi sem við búum í að ef þeir beita sér gegn stjórnvöldum muni það segja til sín einhvers staðar síðar. Þetta varð ég að segja, herra forseti, af því að það verður að koma fram í þessari umræðu, einfaldlega vegna þess að þetta er skýring mjög margra á því hvers vegna umræðan um þessi mál er í þeim farvegi sem hún er.

Eðlilega hafa menn áhyggjur af þeim breytingum sem hér standa fyrir dyrum. Menn hafa áhyggjur af því þegar stjórnmálamenn telja sig til þess bæra að mynda meiri hluta í Vísinda- og tækniráði þegar tilgangurinn er sá sem ég hef rakið að efnahags- og atvinnustefna ríkisstjórnar ráði síðan ferðinni. En eins og ég sagði áðan, herra forseti, vænti ég þess að hæstv. ráðherrar vindi ofan af þeim áhyggjum sem ég hef viðrað, ekki bara fyrir mig heldur fyrir býsna marga sem eru tilbúnir til að ræða þessi mál einhvers staðar annars staðar en opinberlega einhverra hluta vegna.

Ég fór aðeins yfir það áðan, herra forseti, hver staða okkar er í rannsóknaheiminum. Á undanförnum árum hefur fé til rannsókna á Íslandi verið að stóraukast, ekki vegna þess að opinberir aðilar hafi verið að setja svo mikið fé til rannsókna heldur hafa einkafyrirtæki, ekki síst líftæknifyrirtæki, sett mjög mikla peninga til rannsókna. Hins vegar leiðir það líka hugann að því hvernig staðan væri hér í menntamálum ef málum hefði verið stýrt eftir þeirri efnahags- og atvinnustefnu sem ríkisstjórnir á hverjum tíma fylgdu. Ég er alveg handviss um það að ef þeir sem hafa viljað stýra því hversu margir fá að stunda tiltekið nám hefðu fengið að ráða hefðum við ekki menntað eins marga líffræðinga og við gerðum fyrir svona einum til tveimur áratugum. Þá ættum við heldur ekki þá vísindamenn sem við eigum á þessu sviði í dag og þá hefðum við heldur ekki stöðu til þess að byggja upp líftækniiðnað með þeim hætti sem við höfum gert. Þetta nefni ég í þessu samhengi vegna þess að ég held að okkur sé öllum hollt --- og þegar ég segi okkur öllum er ég að tala um okkur stjórnmálamenn --- að átta okkur á því að það er okkar að móta hinar breiðu línur en við erum ekki miklir sjáendur á öllum sviðum. Það er ekki hollt fyrir samfélag okkar ef stjórnmálamenn og stjórnmálaflokkar, ríkisstjórnir, taka utan um þróunina og gefa sér að nokkrir sterkir aðilar innan þeirra vébanda hafi réttast fyrir sér og hafi þá forsagnargáfu að geta séð fyrir hvernig samfélag okkar muni þróast. Þar eiga og þurfa miklu fleiri að koma að á hverjum tíma.

Í því tilfelli sem við ræðum hér er afar farsælt, herra forseti, að vísindin fái að vera sem frjálsust, að menn fái að leita þekkingar þekkingarinnar vegna, að menn fái svigrúm til þess að komast að hinum óvæntu niðurstöðum. Með þessu er ég ekki að kasta rýrð á hagnýtar rannsóknir. Þær eru vissulega mjög nauðsynlegar en eins og ég gat um áðan sýnist mér að því miður teikni allt til þess í þessum frv. að þeim verði veittur óeðlilegur forgangur vegna þess, herra forseti, að það sem hefur verið helsta umkvörtunarefnið hingað til, þ.e. fjárskortur, hefur ekki verið ræddur af hálfu hæstvirtra ráðherra sem vandi heldur virðist fyrst og fremst sá vandi sem þeir vilja takast á við vera að stjórnmálamenn hafi ekki haft hér næg áhrif.

Herra forseti. Þetta er stórt mál og ég veit að það verður rætt fram eftir degi. Ég vænti þess að geta komið inn í umræðuna aftur síðar þegar hæstv. ráðherrar hafa skýrt nokkuð það sem fyrir mér vefst sem, eins og ég sagði áðan, ég er svo bjartsýn að trúa að hljóti að liggja einhvern veginn öðruvísi. Ég ræddi í upphafi þessa fundar í andsvari við hæstv. forsrh. um skil milli atvinnugreina sem eru alls ekki eins og áður, og það finnum við í þinginu þegar nýjar atvinnugreinar koma inn. Það kom fram í máli hæstv. forsrh. að verið er að endurskoða reglugerð Stjórnarráðsins þannig að þær hugmyndir að breyttu fyrirkomulagi ættu að liggja fyrir við lok kjörtímabilsins. Það er mjög praktískt og gott og mér finnst því að hæstv. ríkisstjórn ætti að vinna að því. Það er óþolandi með öllu fyrir þá sem vinna hér í málum að atvinnugreinar sem við lítum á sem vaxtarsprota séu hér sem eins konar munaðarleysingjar í kerfinu en þyrftu ekki að vera það ef við ríghéldum ekki í hina gömlu atvinnuvegaskiptingu.

Herra forseti. Hér er hæstv. menntmrh. mættur sem er, ef marka má orð á heimasíðu hans, hugmyndasmiðurinn á bak við þessi frv. og ég vænti að hann muni þá sannfæra okkur um að hér sé ekki einungis um það að ræða að vilji ríkisstjórnar á hverjum tíma í efnahags- og atvinnumálum nái fram að ganga með atbeina meiri hluta stjórnmálamanna í Vísinda- og tækniráði. Ég vænti þess jafnframt að hann hafi meðtekið þau stærstu umkvörtunarefni sem hafa verið á undanförnum árum varðandi umhverfið sem við búum við, sem er ekki Rannís eða faglegir möguleikar þess, heldur fyrst og fremst fjárskortur og að við fáum að heyra eitthvað frekar um það á eftir.