Vísinda- og tækniráð

Fimmtudaginn 28. febrúar 2002, kl. 12:54:46 (5361)

2002-02-28 12:54:46# 127. lþ. 85.2 fundur 539. mál: #A Vísinda- og tækniráð# frv., 549. mál: #A opinber stuðningur við vísindarannsóknir# frv., 553. mál: #A opinber stuðningur við tækniþróun og nýsköpun# frv., KolH
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 127. lþ.

[12:54]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Virðulegi forseti. Í upphafi þessarar umræðu um hin mjög svo merku frv. sem hér liggja fyrir vil ég fagna því að stefnumörkun skuli nú eiga að fara fram því að það er sannarlega alveg tímabært að stefnumörkun í þessu vísinda- og rannsóknastarfi okkar öllu saman sé komið á. Ég fagna sömuleiðis fyrirheitum hæstv. ríkisstjórnar um eflingu rannsókna á ýmsum sviðum, hvort sem er á sviði grunnrannsókna eða hagnýtra rannsókna. Hér er greinilega í orði kveðnu um það að ræða að ríkisstjórnin vill efla rannsóknirnar. Á hinn bóginn tek ég undir þau orð sem hér féllu hjá fyrri ræðumanni, hv. þm. Svanfríði Jónasdóttur, og ítreka sömuleiðis mín eigin orð í andsvari við hæstv. menntmrh. áðan, að það er eðlilegt að við beinum sjónum okkar að fjármununum því að eflingin getur varla farið fram án þess að fjármálin komi þar aðeins við sögu.

Í annan stað vil ég segja, herra forseti, að forskrift sú sem ríkisstjórnin gefur Alþingi og vísindasamfélaginu er sannarlega afar varhugaverð. Ég tek undir þau orð hv. þm. Svanfríðar Jónasdóttur sem talaði á undan mér að það er alveg eðlilegt að tortryggni okkar vakni þegar þessi efling er beinlínis tengd efnahags- og atvinnustefnu ríkisstjórnarinnar á hverjum tíma, herra forseti, því að það má til sanns vegar færa að vísindin efli alla dáð að því tilskildu að þau séu frjáls og óháð. Allir sem um slík mál fjalla vita að vísindin mega aldrei vera bundin á klafa pólitískra hagsmuna eða vera ofurseld velvilja einkarekinna fyrirtækja úti á markaði. Vissulega eru ákveðnir tónar í þeim greinargerðum sem fylgja þessum frv. og þeir segja okkur að þarna sé hætta fólgin. Þess vegna er algerlega nauðsynlegt að þingmenn stigi varlega til jarðar, hafi hugann opinn, láti ferska vinda blása en skoði jafnframt inn í öll þau skúmaskot sem hér geta leynst.

Herra forseti. Varðandi fjármálin er það alveg vitað að gagnrýni þeirra sem hafa talað um þessa málaflokka síðustu missirin hefur fyrst og fremst beinst að því að Rannsóknarráð Íslands og úthlutunarnefnd hefur ekki haft þá fjármuni sem eðlilegt gæti talist miðað við þann mikla vilja sem greinilegur er í vísindasamfélaginu og miðað við þá miklu ásókn sem er í þetta fé, miðað við þær öflugu umsóknir sem berast á hverju einasta ári. Þessi gagnrýni hefur verið hávær og málefnaleg. Það er auðvitað alveg ljóst að við fjöllum ekki um þennan málaflokk án þess að ræða af alvöru hvað hæstv. ríkisstjórn er tilbúin til að fara út í mikla aukningu á fjárframlögum til þessarar starfsemi. Einhvers konar viljayfirlýsing verður að liggja fyrir frá hæstv. ríkisstjórn varðandi þau mál. Ekki er hægt að una við það að umsagnir fjmrn. sem fylgja frumvörpunum skuli vera með þeim hætti sem þar gefur að líta. Fjmrn. telur ónógar upplýsingar liggja fyrir til þess að hægt sé að segja fyrir um hvort þau hafi yfir höfuð í för með sér aukningu á útgjöldum ríkissjóðs eða ekki. Við vitum öll að Írar og Finnar hafa eflt mjög rannsóknir og þess er getið í greinargerðum frumvarpanna. Við vitum jafnframt að það hafa Finnar og Írar ekki gert án þess að setja í rannsóknirnar aukið fé. Eða hyggst ríkisstjórnin varpa af sér ábyrgðinni á því að vísindarannsóknir séu efldar með auknum fjármunum frá hinu opinbera yfir á einkaaðila úti á atvinnumarkaði? Er það ábyrg stefna, herra forseti?

Ég vil að lokum segja það, herra forseti, að í þessum frv. sem eru þrjú talsins tengjast hlutirnir auðvitað nánast órjúfandi böndum þannig að það er algerlega eðlilegt eins og hér hefur verið gert að spyrða þau saman. Nú hefur framsaga farið fram um þau öll þrjú og ég tel þess vegna eðlilegt og vil leggja það til, herra forseti, að þau fái áfram að halda þessum tengslum, verði bundin í þessa kippu þannig að þær nefndir þrjár, sem nefndar hafa verið til sögu og fá þessi frv. til umfjöllunar, fjalli um þau öll jafnt, það verði ekki þannig að það frv. sem hæstv. forsrh. fjallaði um og talaði fyrir og óskaði eftir að beint yrði til hv. allshn. fái ekki jafnframt umfjöllun í hv. menntmn. heldur fái þau að halda þessum tengslum. Frv. eru bundin nánast órjúfanlegum böndum og ég tel eðlilegt að þau fái að halda þeim tengslum í umfjöllun nefndanna.

Að öðru leyti vil ég einungis segja það að umræðan í dag verður að öllum líkindum efnismikil og kemur til með að verða gott veganesti inn í störf nefndanna. Ég treysti því að hæstv. ráðherrar komi til með að varpa frekara ljósi á þau gagnrýnisorð sem koma til með að falla og hafa þegar fallið.