Vísinda- og tækniráð

Fimmtudaginn 28. febrúar 2002, kl. 14:07:01 (5368)

2002-02-28 14:07:01# 127. lþ. 85.2 fundur 539. mál: #A Vísinda- og tækniráð# frv., 549. mál: #A opinber stuðningur við vísindarannsóknir# frv., 553. mál: #A opinber stuðningur við tækniþróun og nýsköpun# frv., ÞSveinb
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 127. lþ.

[14:07]

Þórunn Sveinbjarnardóttir:

Hæstv. forseti. Ég kveð mér hljóðs um frv. þrjú sem hér eru til umræðu einungis til þess að hnykkja á nokkrum atriðum sem flest hafa þegar komið fram í málflutningi hv. þingmanna Samfylkingarinnar. Hér er um mjög mikilvægt mál að ræða eins og ég hygg að allir hafi sagt við þessa umræðu og ekki síst vegna þess að stefnumótun í þeim efnum skiptir okkur miklu máli hér á landi um langa framtíð.

Því skiptir miklu að ákveðin skilaboð fylgi inn í nefndirnar sem eiga að fjalla um málin og ég leyfi mér að byrja á því, herra forseti, að gera nokkrar athugasemdir við það hvernig sú umfjöllun verður eða lítur út fyrir að verða verði þessum frv. vísað til hv. allshn., iðnn. og menntmn., hvort í þessu máli, eins og kannski öðrum stórmálum af þessum toga, sé ekki nær að grípa til þess að nefndirnar reyni með einhverjum ráðum að funda saman og halda sameiginlega fundi og kveðja til sín fólk og fá umsagnir sameiginlega.

Ég leyfi mér einnig að benda á í þessu máli eins og reyndar í öðru sem var til umræðu um daginn og varðaði frv. til laga um Kárahnjúkavirkjun, að slík stórmál í samfélaginu þyrftu auðvitað að ræðast á opnum nefndarfundum og mættum við að því leyti taka aðrar þjóðir okkur til fyrirmyndar þannig að sem flestir eigi þar aðgang að og geti hlýtt á mál manna og þær athugasemdir sem fram koma. En ég geri mér grein fyrir því, herra forseti, að vinnulagið er auðvitað í höndum meiri hlutans og forsn. og nefndarformannanna, en ég vildi koma þessu á framfæri í byrjun.

Hvað fyrsta frv. varðar, frv. til laga um Vísinda- og tækniráð sem hefur kannski hlotið mesta umfjöllun hér, þá vil ég taka undir með hv. þm. Sigríði Jóhannesdóttur um hverjir verði tilnefndir af ráðherrunum, þ.e. hér er verið að ræða um sex fulltrúa sem eru tilnefndir af sex ráðherrum í Vísinda- og tækniráðið og svo sitja þar einnig fjórir hæstv. ráðherrar samkvæmt þessari tillögu, átta manns koma frá Alþýðusambandinu og samstarfsnefnd háskólastigsins, fjórir og fjórir. Það liggur alveg fyrir að hér er um að ræða meiri hluta í nefndinni sem skipaður er af þeim meiri hluta sem ræður á Alþingi hverju sinni, verði þetta frv. samþykkt og gert að lögum. Ég hygg að það skipti mjög miklu máli að einhver skilyrði séu sett um það hverjir fulltrúar ráðherranna séu, þ.e. hvers konar menntun þeir hafi, hvers konar bakgrunn hvort heldur er í vísindasamfélaginu, atvinnulífinu eða annars staðar. Ég er þeirrar skoðunar, herra forseti, að við blasi að hér hljóti að vera um vísindamenn að ræða, við hljótum að leita þangað þar sem þekkingin býr í hverjum málaflokki og í þessu ráði.

Mér skilst einnig, herra forseti, að hér sé farið að erlendri fyrirmynd að einhverju leyti, finnskri, um það hvernig svona ráð eru upp sett og því hefur verið haldið fram að það auki mjög pólitíska þyngd málaflokksins að ráðherrar séu í Vísinda- og tækniráði og ég ætla ekki að mæla því mót. En það eykur auðvitað líka, herra forseti, hið beina pólitíska vald yfir vísindasamfélaginu. Við komumst ekkert fram hjá því. Þetta er þannig uppbyggt mál. Því hlýtur maður líka að benda á að það skiptir mjög miklu máli að Vísinda- og tækniráð, svo og þeir einstaklingar sem í því sitja hafi vinnureglur og temji sér starfshætti sem eru að sjálfsögðu í takt við góða stjórnsýslu, en að starfsreglur ráðsins liggi fyrir og þær séu mótaðar nú þegar, að það sé ekki látið fylgja einhvern tíma síðar. Það er nokkuð sem þarf að halda til haga í umræðunni.

Herra forseti. Frv. til laga um Vísinda- og tækniráð fylgir fylgiskjal frá fjárlagaskrifstofu fjmrn. Þar eru leiddar líkur að því eða gengið er út frá því að í heildina hafi breytingin, þ.e. fyrirhuguð breyting sem lögð var fram í frv., ekki áhrif á útgjöld ríkisins þótt þau muni augljóslega skiptast öðruvísi en nú hefur verið, þ.e. útgjöldin.

Hinum frv. tveimur fylgja álíka klásúlur frá fjmrn., frv. til laga um opinberan stuðning við vísindarannsóknir, sem hæstv. menntmrh. mælti fyrir. Þar er tekið fram að það geti leitt til lægri stjórnsýslukostnaðar, verði frv. að lögum, en þó liggi ekki nægar upplýsingar fyrir til að meta fjárhæðir í því sambandi.

Síðan rak ég augun í eitt, herra forseti, að það muni leiða til 28,5 millj. kr. sparnaðar árlega eftir að stöður rannsóknarprófessora hafi verið lagðar niður. Nú er mér ekki kunnugt, herra forseti, hversu margar stöður rannsóknarprófessora eru við háskólann en ég hygg að þær séu allnokkrar og væri fróðlegt að fá við því svör hvort eitthvað eigi að koma á móti eða hvort hér sé beinlínis um niðurlagningu þessara prófessorsstaðna að ræða.

Í þriðja og síðasta lagi, hæstv. forseti, segir í frv. til laga um opinberan stuðning við tækniþróun og nýsköpun í þágu atvinnulífsins, sem hæstv. iðnrh. mælti fyrir, með leyfi forseta: ,,Verði frumvarpið óbreytt að lögum er ekki séð að það hafi áhrif á kostnað ríkissjóðs.``

Ég geri mér fulla grein fyrir því að hér er auðvitað ekki verið að leggja fram frv. til laga um fjárlög, að sjálfsögðu ekki. Hins vegar hafa þessar tillögur ekki þá þyngd sem þær þurfa að hafa í umræðunni ef engin loforð eða fyrirheit um stóraukið fjármagn til rannsókna fylgir. Það er til lítils að breyta skipaninni með svo gagngerum hætti og hér er lagt til ef ekki fylgja peningarnir. Að sjálfsögðu reiknar maður með því, herra forseti, að peningarnir fylgi en maður skyldi samt ekki alveg gera ráð fyrir því að þeir komi sisvona, herra forseti, og sérstaklega ekki, eins og komið hefur fram í máli flutningsmanna, að hér er verið að tengja vísindastefnuna í raun og veru, stefnumótun í rannsóknum og vísindum á Íslandi, við stefnu ríkisstjórnar á hverjum tíma í efnahags- og atvinnumálum. Og taki hv. þingmenn og hæstv. forseti eftir því að ekki er verið að tengja þetta stefnu ríkisstjórnar á hverjum tíma í vísindum og rannsóknum, heldur í efnahags- og atvinnumálum. Þetta tvennt þarf ekkert endilega alltaf að fara saman. Það eru, eins og fram hefur komið áður, grunnrannsóknir, rannsóknir sem kannski skila ekki árangri fyrr en eftir ár eða jafnvel áratugi. Það getur oft reynst mjög erfitt að fá fé til slíkra rannsókna og það hlýtur þá að vera undir stefnumörkun stjórnvalda komið hvernig fé er veitt til slíkra rannsókna. Sé það vilji stjórnvalda að styrkja grunnrannsóknir af öllu tagi þá hlýtur að þurfa að marka stefnu þar um en ekki segja berum orðum eins og hér kemur fram að á hverjum tíma skuli rannsóknir tengdar efnahags- og atvinnumálum. Það þýðir ekkert annað en það, herra forseti, að svokallaðar hagnýtar rannsóknir hafa alltaf forgang, eitthvað sem skilar árangri fljótt og vel, eitthvað sem markaðurinn er tilbúinn til þess að styðja, eins og hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir benti á í upphafi umræðunnar.

Ég ætla að láta máli mínu lokið, herra forseti, við 1. umr. um þessi þrjú frv. en ítreka að það er til lítils að ganga í stórkostlegar breytingar af þessu tagi á starfsumhverfi íslenskra vísindamanna og rannsóknarmanna ef ekki er algerlega tryggt að þeim fylgi fjárhæðir sem duga.