Vísinda- og tækniráð

Fimmtudaginn 28. febrúar 2002, kl. 14:17:22 (5369)

2002-02-28 14:17:22# 127. lþ. 85.2 fundur 539. mál: #A Vísinda- og tækniráð# frv., 549. mál: #A opinber stuðningur við vísindarannsóknir# frv., 553. mál: #A opinber stuðningur við tækniþróun og nýsköpun# frv., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 127. lþ.

[14:17]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Hér er fjallað um þrjú frv. í senn sem kveða á um nýskipan á sviði vísindarannsókna. Eins og fram hefur komið við umræðuna eru allir sammála því að mjög mikilvægt er að búa vel að vísindarannsóknum í landinu þannig að þær gagnist samfélaginu sem best og þar með atvinnuvegunum.

Með þessum frv. er verið að samtvinna vísindin hagsmunum atvinnulífsins í ríkari mæli en verið hefur áður, en ekki nóg með það, það á ekki að samtvinna þau atvinnuvegunum eins og þeir þróast heldur eins og ríkisstjórnin vill þróa atvinnuvegina því að í athugasemdum með þessum lagafrv. segir eftirfarandi, með leyfi forseta:

,,Eitt helsta inntak þessarar nýskipunar er að stefnumótun í vísindarannsóknum og tækniþróun byggist á stefnu ríkisstjórnarinnar í efnahags- og atvinnumálum á hverjum tíma.``

Á síðustu öld urðu geysilegar framfarir á nánast öllum sviðum samfélagsins. Þessar framfarir áttu fyrst og fremst grunn í samfélagslegu átaki. Í nánast öllum löndum heims sem höfðu einhverja efnahagslega burði var lögð áhersla á kröftugar grunnrannsóknir. Þessar grunnrannsóknir skiluðu sér til samfélagsins á tvennan hátt, annars vegar í beinum uppgötvunum á sviði lækninga, lyfja og á ýmsum sviðum tækninnar. Hins vegar skiluðu þær sér út í atvinnulífið í vel menntuðu fólki sem var fært um að takast á við verkefni sem þar buðust. Hvernig þróuðust þessar rannsóknir sem skiluðu eins miklum framförum og dæmin sanna? Hver var sá farvegur sem stjórnvöld mótuðu? En það er einmitt slíkur farvegur sem er til umfjöllunar í þessum þremur frv. ríkisstjórnarinnar. Við erum að fjalla þar um stefnu stjórnvalda í þessum málum.

Farvegurinn, þ.e. hin opinbera stefna, byggði á einu grundvallaratriði, frelsi. Hún byggði á frelsi, frelsi vísindamanna, frelsi akademískra stofnana. Þetta hefur verið grundvallaratriðið.

Menn hafa oft tekist á um það að hvaða marki sé rétt að takmarka frelsi vísindanna. Á sínum tíma, fyrir ekki mjög mörgum árum, var um það rætt hvort við ættum að innleiða þann sið hér að tryggja fólki atvinnuleysisbætur sem ekki fengi störf við sitt hæfi eins og það var kallað. Slíkt fyrirkomulag viðgekkst alla vega erlendis, á Norðurlöndunum einhvers staðar, þ.e. að fengirðu ekki starf í þínu takmarkaða, afmarkaða fagi þá ættirðu rétt til atvinnuleysisbóta.

Ég hafði alltaf miklar efasemdir um þetta, mjög miklar efasemdir. Hvers vegna? Ég hafði áhyggjur af því að þetta mundi leiða til takmörkunar á frelsi. Ef ríkið eða hið opinbera væri gert ábyrgt fyrir einstaklingnum að loknu námi þá væri sú hætta fyrir hendi að ríkið vildi líka ráða hvað hver og einn tæki sér fyrir hendur í sínu námi. Þetta er varasamt sjónarmið, mjög varasamt sjónarmið. Hér eigum við að treysta á frjálsar akademískar stofnanir og frelsi einstaklingsins til að velja og til að vera leitandi og leyfa sér að vera leitandi. Það er í þessu andrúmi sem framfarirnar hafa orðið. Það er hér sem ríkisstjórnarfrumvörpin koma við sögu því að nú er gert ráð fyrir að fara inn á nýjar brautir, að takmarka frelsið og samtvinna stefnu í vísindarannsóknum hagsmunum atvinnulífsins. Ég hef miklar efasemdir um það þó að ég vilji að vísindarannsóknir komi atvinnulífinu að gagni. Að sjálfsögðu vil ég það. Ég er sammála því. En ég tel þetta ekki heppilega leið til slíks. Það er alveg rétt sem segir í fylgigögnum með þessu frv. að það blása nýir vindar. Hverjir eru þessir nýju vindar? Mjög víða --- menn vísa hér í reynslu erlendis frá, því miður ekki alltaf góð fordæmi --- er verið að draga úr grunnrannsóknum og setja þær út á markaðinn sem hefur fyrst og fremst gegnt svokölluðum hagnýtum rannsóknum. Það var ágætlega sagt hér áðan í ræðu hv. þm. Svanfríðar Jónasdóttur að línan þarna á milli, milli hagnýtra og grunnrannsókna, væri oft óglögg. Hæstv. menntmrh. kom reyndar að því líka í sínu máli. Ein skilgreining heldur þó og hún er sú að markaðurinn fæst fyrst og fremst við svokallaðar hagnýtar rannsóknir eðli máls samkvæmt, rannsóknir sem er talið fyrirsjáanlegt að muni skila gróða og hagnaði.

Þegar hins vegar litið er á framfarirnar og sögu vísindanna kemur í ljós að margar merkustu uppgötvanir, t.d. í læknavísindum og í ýmsum öðrum rannsóknum, hafa orðið til nánast fyrir tilviljun í kröftugu rannsóknarumhverfi að vísu. Þær byggja á því að búa við kröftugt rannsóknarumhverfi. Mér finnst að við eigum frekar að fara inn á slíka braut og efla þá braut, frjálsræði og frelsi akademískra stofnana og búa betur að þeim aðilum sem hafa séð um styrkveitingar til þessa vegna þess að vandinn hefur ekki verið skipulagslegur fyrst og fremst. Hann er fjárhagslegur. Rannís hefur einfaldlega ekki haft nægilega fjármuni til að ráðast í rannsóknir. Menn horfa nú til fyrirtækja t.d. í líftækniiðnaði. Menn horfa til Íslenskrar erfðagreiningar. Bent var á að ekki hefði verið nægur mannafli ef ekki hefðu verið grunnrannsóknir bæði hér á landi og annars staðar til að sjá fyrir vinnuafli. Menn skyldu ekki halda að þeir peningar sem þar eru til hagnýtra rannsókna komi af himnum ofan. Auðvitað eru þeir teknir út úr íslensku atvinnulífi og þar erum við að tala um milljarða. Þessir aðilar, fyrirtæki á markaði, hafa milljarða að spila úr á sama tíma og kreppt hefur verið að öðrum grunnrannsóknum í landinu. Þetta er mergurinn málsins. Á Íslandi hafa verið stundaðar mjög merkilegar rannsóknir á ýmsum sviðum í mörgum stofnunum um áratugaskeið. Ég hef stundum furðað mig á, þó ég dáist í bland að því, að hógværð íslenskra vísindamanna yfir sínum afrekum og sem hafa oft verið unnin í kyrrþey á þessum vísindastofnunum. Við eigum að hlúa að þessu. Við eigum hlúa að og styrkja þennan grunn. En sú stefna að gera tvennt í senn, að færa rannsóknir út á markaðinn og njörva rannsóknirnar síðan undir pólitískt fagráð meira og minna --- þeir ætla sér að sitja þarna fjórir hæstv. ráðherrar --- tel ég mjög vafasama og tel að þetta muni ekki þjóna þeim göfugu markmiðum sem menn kveðast vissulega vera að reyna að ná í sínum skýrslugerðum sem fylgja þessum frv. Ég hvet því mjög eindregið til þess að þetta verði skoðað mjög rækilega og leitað mjög víða fanga áður en ákvarðanir verða teknar.

Ég studdi það að þessi frv. væru rædd öll saman vegna þess að þau eru að sjálfsögðu nátengd. Öll þessi frv. eru nátengd. En þannig eiga þau líka að fylgjast að í frekari vinnslu í þinginu. Þau þurfa öll að fara inn í menntmn. og eiga öll að skoðast af hverri nefnd og helst fleiri nefndum einnig.

Þetta voru þær megináherslur sem ég vildi að kæmu fram í mínu máli við 1. umr. málsins.