Vísinda- og tækniráð

Fimmtudaginn 28. febrúar 2002, kl. 14:29:41 (5371)

2002-02-28 14:29:41# 127. lþ. 85.2 fundur 539. mál: #A Vísinda- og tækniráð# frv., 549. mál: #A opinber stuðningur við vísindarannsóknir# frv., 553. mál: #A opinber stuðningur við tækniþróun og nýsköpun# frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 127. lþ.

[14:29]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg rétt hjá hv. þm. Maður þarf að gæta að sér í orðavalinu þegar sagt er að uppgötvanir verði til fyrir tilviljun. Þannig held ég að það hafi nú reyndar oft verið. En ég bætti því við, eins og hv. þm. gerði reyndar einnig, að ég talaði um kröftugt rannsóknarumhverfi. Auðvitað eru menn ekki í einhverju hugsunarleysi í sinni vinnu. Menn eru ekki bara að þjóna markaði, þeir eru að sækja fram, leita inn á ný svið upplýsinga og tækni til þess að bæta heiminn, bæta samfélagið, sækja fram í lækningum o.s.frv. Það er ekki bara markaðurinn sem þarna stýrir för. Ég held að það hafi verið styrkur vísindasamfélagsins á síðustu öld hve þessi heimur var í rauninni óháður markaðnum. Það er ekki þar með sagt að menn séu ekki markvisst að sækja fram til framfara.