Vísinda- og tækniráð

Fimmtudaginn 28. febrúar 2002, kl. 14:32:50 (5373)

2002-02-28 14:32:50# 127. lþ. 85.2 fundur 539. mál: #A Vísinda- og tækniráð# frv., 549. mál: #A opinber stuðningur við vísindarannsóknir# frv., 553. mál: #A opinber stuðningur við tækniþróun og nýsköpun# frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 127. lþ.

[14:32]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Þessi umræða skiptir vissulega miklu máli. Hér erum við að fjalla um grundvöllinn sem við reisum vísindarannsóknir á. Við erum sammála um það, ég og hv. þm. Össur Skarphéðinsson, að það er mjög mikilvægt að styrkja grunnrannsóknir. Ég hef af því áhyggjur að þessi frv. og stefnubreytingin sem þau boða leiði til þess að grunnrannsóknir veikist þegar fram líða stundir.

Að sjálfsögðu er mikilvægt að grunnrannsóknir séu í markvissum farvegi. Ég held því hins vegar fram að til að tryggja markvissa vinnu verðum við að tryggja frelsi þeirra sem stunda þessa vinnu, hvort sem það eru stofnanir eða einstakir vísindamenn, til þess að fara sínu fram. Þá getur líka verið mikilvægt að frelsa þá undan oki markaðarins. Markaðurinn gerir þá kröfu að við sækjumst fyrst og fremst eftir hámarksarðsemi sem er síðan allt önnur blaðsíða. Það er varasamt sjónarmið og hefur ekki verið sá drifkraftur sem hefur fært okkur tækniframfarir 20. aldarinnar.