Vísinda- og tækniráð

Fimmtudaginn 28. febrúar 2002, kl. 14:55:58 (5376)

2002-02-28 14:55:58# 127. lþ. 85.2 fundur 539. mál: #A Vísinda- og tækniráð# frv., 549. mál: #A opinber stuðningur við vísindarannsóknir# frv., 553. mál: #A opinber stuðningur við tækniþróun og nýsköpun# frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 127. lþ.

[14:55]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Fleira en hjörtunum svipar saman í Súdan og Grímsnesinu. Öllum mannslíkamanum svipar saman á þessum tveimur ólíku slóðum.

Ég dreg í efa að þeir sjúkdómar sem landlægir eru í Afríku og Asíu séu mjög frábrugðnir þeim sem hrjá okkur á Vesturlöndum. Hvaða sjúkdómar eru efst á baugi í þessum álfum? Eyðni, svipað og hjá okkur. Lyfjaiðnaðurinn er alltaf að framleiða nýja þekkingu sem gagnast þessum löndum líka. En það er að vísu rétt að hann hefur sett upp hátt verð og skapað þannig kínamúra sem hafa komið í veg fyrir að lyfin nýtist sem skyldi.

Ég vísa þá til þess hvað brasilíska ríkisstjórnin gerði og til þess sem við jafnaðarmenn allra flokka, allra landa erum að berjast fyrir, þ.e. að þessir alþjóðlegu lyfjarisar verði knúnir til þess að láta af höndum lyf á skaplegu verði.

Það vill svo til að ég þekki örlítið til lyfjaiðnaðar í einu vanþróuðu landi í Suður-Ameríku. Ég varð þess áskynja þar --- ég þekki menn sem starfa þar við framleiðslu --- að framleiðslukostnaðurinn er ótrúlega lítill þar þannig að verðið er ótrúlegt. Tengslin milli ólíkra rannsóknarsviða geta hins vegar verið ótrúlega rík.

Sá kimi vísindasamfélagsins í dag sem fleygir hvað örast fram er erfðafræði og erfðatækni. Það er hins vegar ómögulegt að brjóta út jaðar þeirra í hagnýtum tilgangi nema að þróa um leið gerólíka vísindagrein sem er siðfræði. Þarna eru tvær algjörlega ólíkar vísindagreinar sem nánast verða að ganga hönd í hönd. Við getum ekki leyft ákveðna hluta innan erfðafræðinnar nema vera búin að kanna hinar siðfræðilegu afleiðingar. Það gerum við með því að efla grunnrannsóknir á sviði siðfræði.