Vísinda- og tækniráð

Fimmtudaginn 28. febrúar 2002, kl. 15:16:15 (5382)

2002-02-28 15:16:15# 127. lþ. 85.2 fundur 539. mál: #A Vísinda- og tækniráð# frv., 549. mál: #A opinber stuðningur við vísindarannsóknir# frv., 553. mál: #A opinber stuðningur við tækniþróun og nýsköpun# frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 127. lþ.

[15:16]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég er sammála hæstv. ráðherra um að mikil breyting hefur orðið í vísindasamfélaginu vegna þessa rannsóknatengda náms. Ég var einmitt í ríkisstjórninni sem hratt því af stað sem hæstv. ráðherra hefur síðan sinnt af miklum dugnaði. Nú búum við hins vegar við sérstakar aðstæður. Þær speglast m.a. í því að við sjáum fram á skort á langmenntuðum mönnum á sviði ákveðinna raunvísinda. Hann mun standa t.d. þróun lyfjaiðnaðar á Íslandi fyrir þrifum, sérstaklega þeirrar tegundar lyfjaiðnaðar sem tengist erfðafræði. Við munum þurfa að ráða bót á þessu. Við erum búin að kalla heim alla Íslendingana sem völ er á. Jú, við erum að flytja inn útlenda vísindamenn og það er mjög gott. En ég held að þróunin sé slík að við þurfum að ráðast til atlögu við þetta vandamál, og þá er tvennt til, herra forseti. Við þurfum e.t.v. í framtíðinni að beita styrkjum til að laða fólk í nám af þessu tagi eða í öðru lagi, herra forseti, getum við gert fyrirtækjunum kleift að ráða þetta fólk fyrir tiltölulega lágt verð með því að veita þeim skattaívilnanir. Það er leið sem ég bið hæstv. ráðherra að íhuga líka.

Að öðru leyti, herra forseti, er ég algjörlega sammála hæstv. ráðherra í því að alþjóðleiki hins íslenska vísindasamfélags er einn helsti styrkur þess og meginauðlind. Það vill svo til að Ísland er á mörkum tveggja heima og við höfum sótt nýjustu þekkingu, sökum smæðar okkar, bæði vestur og austur um haf og hér hefur verið ákveðinn suðupottur þessara tveggja vísindalegu menningarheima sem er mikill styrkur okkar. Þó að við förum þá leið sem ég sting upp á þýðir það samt ekki að úr því verði dregið. Þróunin er einfaldlega slík að við sem áður hleyptum heimdraganum og komum heim með doktorspróf erum ekki nema miðlungi menntuð í dag því það er frekara nám sem skiptir máli, það er hin ítarlega sérhæfing sem í dag skiptir allra mestu máli.