Vísinda- og tækniráð

Fimmtudaginn 28. febrúar 2002, kl. 15:25:46 (5386)

2002-02-28 15:25:46# 127. lþ. 85.2 fundur 539. mál: #A Vísinda- og tækniráð# frv., 549. mál: #A opinber stuðningur við vísindarannsóknir# frv., 553. mál: #A opinber stuðningur við tækniþróun og nýsköpun# frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 127. lþ.

[15:25]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Auðvitað er það fagnaðarefni að fyrirtæki á borð við Íslenska erfðagreiningu skuli hasla sér völl þótt ég hafi verið mjög ósammála þeim grunni sem fyrirtækið er að hluta til reist á, þ.e. upplýsingagrunninum úr heilbrigðiskerfi Íslendinga. Það er önnur saga. Hitt er náttúrlega staðreynd, og menn eiga að geta rætt það alveg reiðilaust og fordómalaust, að auðvitað hafa þessir peningar verið teknir út úr íslensku atvinnulífi. Hvaðan heldur annars hv. þm. að peningarnir hafi komið sem keyptu amerísku áhættufjárfestana út þar sem Búnaðarbankinn hafði forgöngu og aðrir bankar? Þetta eru bara staðreyndir sem blasa við, að við ráðstöfum að sjálfsögðu peningum úr íslensku atvinnulífi. (Gripið fram í: Tóm vitleysa.) Tóm vitleysa, segir einhver. Við skulum fara í saumana á þessum málum. Þetta eru bara staðreyndir sem fram hafa komið. Ég vísa t.d. í skýrslu Byggðastofnunar þar sem þetta er rækilega tíundað.

Okkur greinir á um grundvallarstefnu í skattamálum og á hvern hátt eigi að styðja við rannsóknir og vísindastarf. Ég tel mjög mikilvægt að við styðjum dyggilega við bakið á þeim stofnunum sem hafa með mjög góðum árangri stundað hér ýmsar grunnrannsóknir í hjartasjúkdómum, svo ég nefni bara dæmi. Það var vísað í Keldur. Það er hægt að vísa í fjölmargar aðrar og síðan höfum við smíðað okkur sjóði og þar erum við með Rannís sem veitir fjármagn til rannsóknarverkefna, bæði á markaði og á vegum opinberra aðila. Ég tel heppilegri leið að styrkja þessar stofnanir heldur en að fara skattalækkunarleiðina. Ég held að hin muni hins vegar gagnast atvinnulífinu og að sjálfsögðu vil ég búa svo um hnútana að vísindarannsóknir komi að notum í atvinnulífinu. Ég vona að enginn sé að reyna að snúa út úr orðum mínum á þann veg.