Vísinda- og tækniráð

Fimmtudaginn 28. febrúar 2002, kl. 15:31:13 (5389)

2002-02-28 15:31:13# 127. lþ. 85.2 fundur 539. mál: #A Vísinda- og tækniráð# frv., 549. mál: #A opinber stuðningur við vísindarannsóknir# frv., 553. mál: #A opinber stuðningur við tækniþróun og nýsköpun# frv., menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 127. lþ.

[15:31]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekki að blanda mér í skattadeilur þeirra hv. þm. sem hér skiptust á skoðunum. Hins vegar vil ég segja að ég skil ekki almennilega það sjónarmið hv. þm. Ögmundar Jónassonar að styrkja beri stofnanir þegar við erum að fjalla um stuðning við vísindamenn og eflingu vísindanna. Við eigum að sjálfsögðu að halda þannig á málum að styrkirnir renni til vísindamanna, að lagt sé vísindalegt, faglegt mat á hvernig þetta fé er nýtt og vísindamennirnir fái styrkina en ekki stofnanirnar.

Ég skil heldur ekki að hv. þm. telji annars vegar að hann geti ekki samþykkt þessi frv. vegna þess að það sé gert ráð fyrir því að ráðherrar komi að því að móta meginstefnu í vísindamálum en talar hins vegar um nauðsyn þess að hækka skatta til að meira fé komi í ríkissjóð til að verja til stofnana sem starfa að vísindum. Hann mælir gegn því að öflug einkafyrirtæki fái þróast hér á landi á sviði vísinda og rannsókna og talar eins og að Íslensk erfðagreining sé ekki hluti af íslenska efnahagskerfinu heldur einhver aðskotahlutur í þjóðfélaginu sem ekki beri að líta til þegar við tölum um efnahagsþróun í landinu.

Mér finnast öll þessi sjónarmið þingmannsins mjög einkennileg og bera þess vott, eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson hefur bent á, að hann er á róli í þessu máli sem stangast á við almenna þróun í þjóðfélaginu hér og annars staðar. Það kemur mér ekki á óvart þegar Vinstri grænir eiga í hlut. Þeir virðast vera á móti hvort sem það eru einkafyrirtæki sem starfa að þróun og rannsóknum og vísindum eða opinber fyrirtæki sem sinna orkuöflun. Allt sem tilheyrir nútímanum í huga okkar flestra virðist stangast á við hugmyndafræði þeirra. Mér finnst að þetta sjónarmið, að það eigi að hækka skatta á einkafyrirtæki til þess að auka styrki til opinberra stofnana, mjög gamaldags viðhorf sem stangast á við það sem verið er að leggja til með þessum frv. sem við erum að fjalla um hér í dag.