Vísinda- og tækniráð

Fimmtudaginn 28. febrúar 2002, kl. 15:37:25 (5392)

2002-02-28 15:37:25# 127. lþ. 85.2 fundur 539. mál: #A Vísinda- og tækniráð# frv., 549. mál: #A opinber stuðningur við vísindarannsóknir# frv., 553. mál: #A opinber stuðningur við tækniþróun og nýsköpun# frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 127. lþ.

[15:37]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Það er ekkert nýtt, herra forseti, að ríkisstjórnin vilji ekki teygja sig í skynsemisátt og í átt til sanngirni. Það er ekki nýtt. En það er alveg rétt hjá hæstv. menntmrh., að ég er hlynntur háum og miklum sköttum. Ég vil hins vegar réttláta skatta. Ég er ekki hlynntur stefnu ríkisstjórnarinnar í skattamálum sem hefur lækkað skatta á aflögufær fyrirtæki og þá einstaklinga sem hafa mestar tekjur í þjóðfélaginu en aukið skattaálögur á hina sem standa höllum fæti, hvort sem það eru einstaklingar eða fyrirtæki. Ég er því ekki hlynntur þessari ríkisstjórnarstefnu í skattamálum.

En minnisvarðarnir um þessa ríkisstjórn standa m.a. í Vatnsmýrinni. Ég vísaði til hálfkaraðs Náttúrufræðihúss sem hefur staðið lengi í fjársvelti og ekki verið hægt að ljúka því. Ég vísaði til Rannís og fjármuna sem varið er til rannsókna hér á landi, hve mjög þær eru af skornum skammti.

Hvað hin faglegu sjónarmið varðar, sem þessi ríkisstjórnarfrumvörp eru sögð hvíla á, eru þau nú ekki faglegri en svo að stefna ríkisstjórnarinnar sem nú situr er að ráða vísindarannsóknum á Íslandi. Og ég hef miklar efasemdir um að sú stefna sé hyggileg, en fagleg er hún alla vega ekki.