Norrænt samstarf 2001

Fimmtudaginn 28. febrúar 2002, kl. 16:14:50 (5396)

2002-02-28 16:14:50# 127. lþ. 85.6 fundur 483. mál: #A norrænt samstarf 2001# skýrsl, ÍGP (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 127. lþ.

[16:14]

Ísólfur Gylfi Pálmason:

Herra forseti. Í upphafi þakka ég hæstv. samstarfsráðherra, Siv Friðleifsdóttur, fyrir hennar góðu skýrslu og það öfluga starf sem hún hefur beitt sér fyrir í norrænu samstarfi. Reyndar þakka ég líka hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur fyrir umræðuna áðan en Rannveig er einmitt fulltrúi Íslands í Norræna menningarsjóðnum. En ég kynni hér sem formaður Íslandsdeildar Norðurlandaráðs útdrátt úr skýrslu Íslandsdeildar Norðurlandaráðs um norrænt samstarf árið 2001. Að öðru leyti vísa ég til skýrslunnar sem í heild birtist á þskj. 767 sem er 483. mál. Þar er annars vegar fjallað um störf Íslandsdeildar og hins vegar er farið stuttlega yfir störf fagnefnda Norðurlandaráðs í heild.

[16:15]

Helstu einkenni starfsársins 2001 voru miklar skipulagsbreytingar. Sérstakur vinnuhópur á vegum forsætisnefndar Norðurlandaráðs, stefnumótunarhópurinn, vann tillögur um nýtt skipulag Norðurlandaráðs sem samþykkt var á 53. þingi ráðsins í Kaupmannahöfn sem haldið var 29.--31. október sl. Horfið var frá þremur svæðisnefndum sem voru Norðurlandanefnd, Evrópunefnd og nærsvæðanefnd, en í stað tekið upp skipulag með fimm málefnanefndum auk forsætisnefndar, þ.e. menningar- og menntamálanefnd, velferðarnefnd, borgara- og neytendanefnd, umhverfis- og náttúruverndarnefnd og efnahags- og viðskiptanefnd.

Árið 1999 setti Norræna ráðherranefndin á fót sérstaka nefnd til að fara ofan í saumana á norrænu samstarfi, svokallaða aldamótanefnd, undir forustu Jóns Sigurðssonar, forstjóra NIB, eða Norræna fjárfestingarbankans, en hann var einnig fyrrverandi ráðherra og þingmaður hér á Íslandi. Nefndin skilaði gagnmerkri skýrslu, ,,Norðurlönd 2000 -- umleikin vindum veraldar``, en skýrslan var kynnt og rædd á 52. þingi Norðurlandaráðs í Reykjavík, en það þing þótti takast einstaklega vel. Niðurstöður birtust í sameiginlegri skýrslu þessara aðila undir nafninu ,,Ný norræn dagskrá -- svar við skýrslu aldamótanefndar``. Einnig lagði stefnumótunarhópurinn fram forsætisnefndartillögu um breytingar á vinnutilhögun Norðurlandsráðs. Þær tillögur voru einnig samþykktar á 53. þingi Norðurlandsráðs. Hv. þm. Sigríður Anna Þórðardóttir, sem er fyrrverandi forseti Norðurlandaráðs, mun segja nánar frá starfi stefnumótunarhópsins.

Næst vík ég að starfsemi Íslandsdeildar Norðurlandaráðs. Alls voru haldnir tíu formlegir fundir deildarinnar. Að venju var þátttaka í þemaráðstefnu og þingi Norðurlandaráðs undirbúin. Skipulagsbreytingar Norðurlandaráðs voru í brennidepli. Meðlimum Íslandsdeildar var umhugað um að tryggja þátttöku sem flestra í hinum nýju nefndum. Málefni eins og sjálfbær þróun og gagnkvæm upplýsingatækni, voru ofarlega á baugi. Einnig hófst og stendur nú yfir undirbúningur að þemaráðstefnu sem haldin verður í Reykjavík 14.--16. apríl nk. um lýðræði.

Í upphafi árs skipuðu Íslandsdeildina þau Ísólfur Gylfi Pálmason, formaður, Sigríður Jóhannesdóttir, varaformaður, Sigríður A. Þórðardóttir, Sighvatur Björgvinsson, Arnbjörg Sveinsdóttir, Hjálmar Jónsson og Steingrímur J. Sigfússon. Varamenn voru Árni Johnsen, Rannveig Guðmundsdóttir, Drífa Hjartardóttir, Hjálmar Árnason, Ásta R. Jóhannesdóttir, Ásta Möller og Þuríður Backman. Þegar Sighvatur Björgvinsson lét af þingmennsku 13. febrúar 2001 tók Rannveig Guðmundsdóttir sæti hans í Norðurlandaráði og varð Guðrún Ögmundsdóttir nýr varamaður. Hinn 1. október 2001 voru þingmennirnir endurkjörnir til setu í Norðurlandaráði, þó með þeirri breytingu að Drífa Hjartardóttir var kjörin aðalmaður í stað Hjálmars Jónssonar sem skömmu áður hvarf af þingi. Í laus varamannasæti Drífu Hjartardóttur og Árna Johnsens voru valin þau Kjartan Ólafsson og Katrín Fjeldsted. Á fyrsta fundi Íslandsdeildar hinn 8. október var Ísólfur Gylfi Pálmason endurkjörinn formaður og Sigríður Jóhannesdóttir varaformaður.

Á 52. þingi Norðurlandaráðs í Reykjavík 6.--8. nóvember 2000 var Sighvatur Björgvinsson kjörinn til setu í forsætisnefnd, Sigríður A. Þórðardóttir, Sigríður Jóhannesdóttir og Ísólfur Gylfi Pálmason í Norðurlandanefnd en Sigríður A. Þórðardóttir var jafnframt kjörin varaformaður nefndarinnar. Hjálmar Jónsson var kjörinn í nærsvæðanefnd og kjörnefnd, Arnbjörg Sveinsdóttir í Evrópunefnd og eftirlitsnefnd, og Steingrímur J. Sigfússon í Evrópunefnd. Þessi nefndaskipan hélst út starfsárið 2001 nema Rannveig Guðmundsdóttir tók sæti Sighvats Björgvinssonar í forsætisnefnd, Drífa Hjartardóttir tók við af Hjálmari Jónssyni í nærsvæðanefnd og Sigríður A. Þórðardóttir tók sæti Hjálmars í kjörnefnd.

Auk nefndarsetu sátu meðlimir Íslandsdeildar í vinnuhópum á vegum Norðurlandaráðs, auk þess sem þeir sátu í stjórnum stofnana og ráða tilnefndir af Norðurlandaráði. Sigríður A. Þórðardóttir sat í stefnumótunarhópnum sem mótaði tillögur um framtíð norræns samstarfs og nýtt skipulag Norðurlandaráðs. Sighvatur Björgvinsson sat í vinnuhópi um friðargæslu og aðgerðir til að koma í veg fyrir átök en Rannveig Guðmundsdóttir tók síðar sæti hans. Steingrímur J. Sigfússon sat í vinnuhópi um byggðastefnu Evrópusambandsins á vegum Evrópunefndar og Arnbjörg Sveinsdóttir var í vinnuhópi um matvælaöryggi. Steingrímur J. Sigfússon gegndi stöðu áheyrnarfulltrúa Norðurlandaráðs hjá þingmannanefnd um norðurskautsmál og sat í stjórn Norræna ráðsins um málefni fatlaðra. Ísólfur Gylfi Pálmason átti sæti í eftirlitsnefnd Norræna fjárfestingarbankans og Rannveig Guðmundsdóttir í stjórn Norræna menningarsjóðsins.

Íslandsdeildin hélt tvo fundi með Siv Friðleifsdóttur, samstarfsráðherra Norðurlanda. Skipst var á skoðunum um helstu mál er snerta starfsemi Norðurlandaráðs, m.a. sjálfbæra umhverfisstefnu, þing Norðurlandaráðs, framtíð norrænnar samvinnu og margt fleira bar á góma.

Íslandsdeild þáði boð Norðurlandaráðs um að senda þingmenn á ýmsar alþjóðaráðstefnur sem tengjast starfsemi ráðsins. Um þær ráðstefnur verður nánar fjallað síðar í skýrslunni.

Fréttamannastyrkir Norðurlandaráðs að upphæð 90.000 danskra kr. voru veittir á fundi Íslandsdeildar 25. júní sl. Eftirfarandi fréttamenn hlutu styrki: Sigríður Hagalín Björnsdóttir hlaut 26.000 danskar kr., Hjálmar Jónsson og Björn Ingi Hrafnsson 21.000 danskar kr. hvor, og Óðinn Jónsson og Haukur Holm 11.000 danskrar kr. hvor.

Í byrjun maí tók Stígur Stefánsson við starfi ritara Íslandsdeildar Norðurlandaráðs af Einari Farestveit. Belinda Theriault, forstöðumaður alþjóðasviðs, hafði þó yfirumsjón með rekstri Íslandsdeildar og sinnti málefnum forsætisnefndar. Þessu góða fólki eru þökkuð góð störf í þágu Norðurlandaráðs. Stígur Stefánsson er boðinn velkominn til starfa um leið og við þökkum Einari Farestveit fyrir farsælt starf.

Herra forseti. Næst vík ég að starfsemi Norðurlandaráðs og einstakra nefnda en viðkomandi þingmenn munu fjalla ítarlegar um störf nefndanna. Sighvatur Björgvinsson sat í forsætisnefnd en Rannveig Guðmundsdóttir, sem er gamalreyndur nordisti, tók við starfi hans. Daninn Sven Erik Hovmand, núverandi skattamálaráðherra Danmerkur, tók við embætti forseta Norðurlandaráðs af Sigríði Önnu Þórðardóttur, en bæði gegndu þau því starfi með stakri prýði. Finninn Outi Ojala tók við starfi forseta ráðsins eftir kosningar í Danmörku nú í nóvember.

Forsætisnefnd er skipuð forseta og tólf fulltrúum sem kosnir eru á þingi Norðurlandaráðs. Rannveig Guðmundsdóttir mun á eftir fara yfir störf nefndarinnar.

Eins og ég gerði grein fyrir í upphafi ræðu minnar var settur á fót sérstakur stefnumótunarhópur um framtíðarskipan norræns samstarfs. Sighvatur Björgvinsson sat í vinnuhópnum fyrir hönd jafnaðarmanna en þegar hann hætti í febrúar 2001 urðu breytingar á skipan hópsins. Í kjölfar þeirra breytinga tók Sigríður Anna Þórðardóttir sæti í hópnum sem fulltrúi hægri manna. Sigríður Anna Þórðardóttir mun segja frá starfi nefndarinnar hér á eftir.

Norðurlandanefnd var skipuð þremur fulltrúum Íslandsdeildar, þeim Ísólfi Gylfa Pálmasyni, Sigríði Jóhannesdóttur og Sigríði Önnu Þórðardóttur, sem jafnframt var varaformaður nefndarinnar. Sigríður Jóhannesdóttir er varaformaður Íslandsdeildar og mun segja frá starfi nefndarinnar hér á eftir.

Í nærsvæðanefnd var Hjálmar Jónsson en síðar Drífa Hjartardóttir. Hún tók í raun við starfi Hjálmars er hann hætti á þingi.

Fulltrúar Íslands í Evrópunefnd voru Arnbjörg Sveinsdóttir og Steingrímur J. Sigfússon. Hlutverk nefndarinnar er að sinna starfsemi Norðurlanda og EES/ESB-ríkja.

Arnbjörg Sveinsdóttir sat í eftirlitsnefnd sem kannaði m.a. aðgang erlendra ríkisborgara sem búsettir eru á Norðurlöndum að hinum ýmsu stofnunum Norðurlanda. Einnig kannaði nefndin hvernig styrkir til rannsókna á verkefnum norrænu ráðherranefndarinnar hefðu nýst.

Þá vík ég að verðlaunum sem úthlutað er á vegum Norðurlandaráðs. Verðlaun Norðurlandaráðs eru þrenn: bókmenntaverðlaun, tónlistarverðlaun og náttúru- og umhverfisverðlaun. Bókmennta- og tónlistarverðlaunum Norðurlandaráðs var úthlutað í tengslum við þemaráðstefnu Norðurlandaráðs sem haldin var í Ósló í apríl. Umhverfisverðlaunin voru hins vegar afhent í tengslum við Norðurlandaráðsþingið í Kaupmannahöfn í lok október.

Bókmenntaverðlaunum Norðurlandaráðs hefur verið úthlutað á hverju ári frá 1962 og eru veitt fyrir bókmenntaverk á norrænu tungumáli. Markmið verðlaunanna er að auka áhuga á norrænum bókmenntum. Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs árið 2001 hlaut norska skáldið Jan Kjærstad fyrir skáldsögu sína Oppdageren.

Tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs voru fyrst veitt árið 1965. Fram til ársins 1988 voru þau einungis afhent annað hvert ár. Frá 1990 hafa þau hins vegar verið veitt á ári hverju, annað árið til tónskálda og hitt árið til tónlistarflytjenda. Tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs árið 2001 komu í hlut danska trompetleikarans, hljómsveitarstjórans og tónskáldsins Palle Mikkelborg.

Á þingi Norðurlandaráðs í Reykjavík árið 1995 voru samþykkt tilmæli um að Norðurlandaráð veitti árlega náttúru- og umhverfisverðlaun. Verðlaunin á að veita einstaklingi sem hefur sett mark sitt á náttúru- og umhverfisvernd á Norðurlöndum eða hópi fólks, samtökum, fjölmiðlum, fyrirtækjum eða stofnunum sem hafa í störfum sínum tekist að sýna náttúrunni aðdáunarverða tillitssemi. Náttúru- og umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs árið 2001 voru afhent á þingi Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn og hlaut Svíinn Mats Segenstram verðlaunin. Verðlaun Norðurlandaráðs nema 350 þúsund dönskum krónum.

Herra forseti. Þá vík ég næst að ráðstefnum og þingum á vegum Norðurlandaráðs.

Þemaráðstefna Norðurlandaráðs 2001 fór fram í Ósló dagana 2.--3. apríl. Yfirskrift ráðstefnunnar var ,,Sjálfbær þróun -- ný stefna fyrir Norðurlönd``.

Norræna áætlunin tekur til þriggja sviða. Í fyrsta lagi þverfagleg viðfangsefni eins og loftslagsbreytingar, líffræðilegur fjölbreytileiki, hafið, efni og efnavörur, og matvælaöryggi. Í öðru lagi orkumál, samgöngur, landbúnað, atvinnulíf og framleiðsluvörur, fiskveiðar, veiðar á sjávarspendýrum og nýting skóga. Í þriðja lagi þróun þekkingargrunns, stjórntækja og hagkvæmrar nýtingar náttúruauðlinda.

Þriðji sameiginlegi fundur Norðurlandaráðs og Eystrasaltsríkjanna var haldinn 31. maí og 1. júní sl. Rætt var um stækkun ESB til austurs. Þá var rætt um svæðisbundna samvinnu. Einnig var rætt um þátttöku þingmanna í hinni norrænu vídd. Þá var og mikil umræða um stækkun NATO.

6. aukaþing Norðurlandsráðs var haldið dagana 25.--26. júní í Kungälv í Svíþjóð. Til þingsins var boðað til þess að afgreiða tvær tillögur Norrænu ráðherranefndarinnar um norræna umhverfisáætlun annars vegar og hins vegar um norræna áætlun um sjálfbæra þróun.

53. þing Norðurlandaráðs var haldið í Kaupmannahöfn dagana 29.--31. október sl.

Tveir málaflokkar voru sérstaklega í brennidepli á þinginu. Annars vegar framtíð norrænnar samvinnu og hins vegar utanríkismál, en atburðir í Bandaríkjunum þann 11. september voru mönnum eðlilega ofarlega í huga. Þá var einnig fjallað um Evrópu og grannsvæðin. Fjallað var um kynþáttafordóma, samstarf þvert á landamæri og margt fleira.

[16:30]

Eins og ég greindi frá í upphafi ræðu minnar var ákveðið að hverfa frá landfræðilegri skiptingu í þrjár nefndir eins og Norðurlandaráð hafði áður starfað frá 1995, þ.e. að hverfa frá því að vera með nærsvæðanefnd, Evrópunefnd og Norðurlandanefnd. Á þinginu var samþykkt að taka upp skipulag með fimm málefnanefndir auk forsætisnefndar, þ.e. menningar- og menntamálanefnd, velferðarnefnd, borgara- og neytendanefnd, umhverfis- og náttúruauðlindanefnd og efnahags- og viðskiptanefnd.

Miðvikudaginn 31. október fóru fram kosningar í nefndir og kjör forseta Norðurlandaráðs. Forseti var kjörin finnski þingmaðurinn Outi Ojala og tók hún formlega við embætti 1. janúar 2002 en hún hafði verið starfandi forseti í þrjár vikur eftir að Sven Erik Hovmand fráfarandi forseti sagði af sér til að taka við ráðherradómi. Outi Ojala er fyrsti forseti í sögu Norðurlandaráðs sem kemur úr flokkahópi vinstri sósíalista. Eftir kosningar til hinna nýju nefnda Norðurlandaráðs er nefndaseta Íslandsdeildar sem hér segir: Rannveig Guðmundsdóttir heldur sæti sínu í forsætisnefnd. Í menningar- og menntamálanefnd sitja Sigríður Jóhannesdóttir og Ísólfur Gylfi Pálmason sem jafnframt er varaformaður nefndarinnar. Í efnahags- og viðskiptanefnd sitja Sigríður A. Þórðardóttir sem formaður og Steingrímur J. Sigfússon sem varaformaður. Arnbjörg Sveinsdóttir var kosin í borgara- og neytendanefnd en flutti sig um set yfir í umhverfis- og náttúruauðlindanefnd í lok janúar 2002. Jafnframt heldur Arnbjörg sæti sínu í eftirlitsnefnd. Drífa Hjartardóttir situr í velferðarnefnd.

Næsta þing Norðurlandaráðs, sem jafnframt er 50 ára afmælisþing, verður haldið í Helsingfors 29.--31. október 2002.

Í lokin vil ég þakka nefndarmönnum fyrir afar gott samstarf, bæði því reynda Norðurlandaráðsfólki sem hefur setið um árabil í Norðurlandaráði og er þar afar virkt og einnig þeim sem eru að stíga sín fyrstu skref í norrænu samstarfi. Samstarfsráðherra Norðurlanda, Siv Friðleifsdóttur, þakka ég fyrir hönd Íslandsdeildar mjög gott samstarf og því góða starfsfólki sem við höfum hér í hinu norræna samstarfi.

Fram undan er 50 ára afmæli Norðurlandaráðs og verður þeirra tímamóta minnst við hæfi. Ég tek undir orð samstarfsráðherra hér áðan um að norrænt samstarf er mjög frjósamt og starfsamt.