Norrænt samstarf 2001

Fimmtudaginn 28. febrúar 2002, kl. 16:33:34 (5397)

2002-02-28 16:33:34# 127. lþ. 85.6 fundur 483. mál: #A norrænt samstarf 2001# skýrsl, SAÞ
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 127. lþ.

[16:33]

Sigríður A. Þórðardóttir:

Herra forseti. Eins og fram kom í ræðu hv. þm. Ísólfs Gylfa Pálmasonar einkenndist norrænt samstarf af miklum breytingum starfsárið 2001. Sérstakur vinnuhópur á vegum forsætisnefndar Norðurlandaráðs, stefnumótunarhópurinn, vann tillögur um nýtt skipulag Norðurlandaráðs og voru þær samþykktar á 53. þingi ráðsins sem haldið var í Kaupmannahöfn dagana 29.--31. okt. sl. Í stuttu máli sagt fólust breytingarnar í uppstokkun á nefndaskipulagi Norðurlandaráðs þar sem horfið var frá þremur svæðisnefndum og þess í stað tekið upp skipulag með fimm málefnanefndum auk forsætisnefndar. Vil ég nú gera grein fyrir bakgrunni þessara breytinga.

Forsætisnefnd Norðurlandaráðs setti á laggirnar stefnumótunarhóp um framtíðarskipulag norræns samstarfs í ársbyrjun 2001. Stefnumótunarhópnum var falið að undirbúa umfjöllun forsætisnefndar um skipulag norræns samstarfs og leggja fyrir forsætisnefnd tillögur um væntanlegar breytingar á störfum Norðurlandaráðs, m.a. varðandi skipulag og tengsl við aðildarríkin. Markmið stefnumótunarhópsins var að móta nýtt skipulag Norðurlandaráðs sem væri í betra samræmi við skipulag norrænu ráðherranefndarinnar og væri skiljanlegt utanaðkomandi aðilum, svo sem öðrum alþjóðlegum stofnunum. Jafnframt var lögð áhersla á að nýtt skipulag tryggði sveigjanleika og möguleika til að fjalla um þverfagleg efni og til að veita sérstökum málum flýtimeðferð. Sú sem hér talar átti þar sæti fyrir flokkahóp hægri manna.

Í álitsgerð stefnumótunarhópsins með tillögum að breyttu nefndakerfi kemur m.a. fram að gömlu svæðisnefndirnar þrjár, Evrópunefnd, Norðurlandanefnd og nærsvæðanefnd, hafi gegnt mikilvægu hlutverki við að gera þrískiptingu norræns samstarfs sýnilega en hinar þrjár stoðir samstarfsins eru samvinna innan Norðurlanda, samvinna Norðurlanda og Evrópu auk samvinnu Norðurlanda og nærsvæða. Hins vegar hafi skapast vandamál varðandi samstarf við nefndir þjóðþinganna og norrænu ráðherranefndina. Markmið hins nýja nefndakerfis fimm málefnanefnda og forsætisnefndar er að tryggja betra samspil við norrænu ráðherranefndina, þjóðþingin og alþjóðastofnanir, segir í álitsgerðinni. Þetta er gert til að skýrara sé hvar einstök málefnasvið eru vistuð þannig að samskiptin við t.d. nefndir þjóðþinga verði gagnsærri. Þrátt fyrir að vikið sé frá svæðisbundnum nefndum er lögð áhersla á að svæðisbundnu stoðirnar verði áfram þáttur í starfi málefnanefndanna en þeim ber að fjalla um mál frá sjónarhóli Norðurlanda, Evrópu og nærsvæða.

Í hinu nýja nefndakerfi annast forsætisnefnd víðtæk pólitísk og stjórnunarleg málefni, m.a. fjárhagsáætlun Norðurlandaráðs og norrænu ráðherranefndarinnar. Hún ber jafnframt ábyrgð á utanríkis- og öryggismálum sem eru á síðustu árum orðinn mikilvægur þáttur í starfi Norðurlandaráðs. Málefni sem nú eru ofarlega á baugi eru friðargæsla og málefni hinnar norðlægu víddar ESB. Þá sér forsætisnefnd um tengsl við svæðisbundnar og alþjóðlegar stofnanir þó að einstakar fagnefndir komi inn í það samstarf þar sem við á.

Ég vil geta sérstaklega um fyrirvara flokkahóps hægri manna varðandi nýju nefndaskipunina, en hægri menn telja að skynsamlegra hefði verið að búa til sérstaka utanríkis- og öryggismálanefnd og það hefði þá mátt gera með þeim hætti að sameina verkefni borgara- og neytendanefndar og velferðarnefndina þannig að fagnefndirnar yrðu þá fimm en ein af þeim yrði þá sérstök utanríkis- og öryggismálanefnd.

Niðurstaðan varð hins vegar sú að fagnefndirnar fimm eru: Menningar- og menntamálanefnd, velferðarnefnd, borgara- og neytendanefnd, umhverfis- og náttúruauðlindanefnd og efnahags- og viðskiptanefnd, en utanríkis- og öryggismálin eru, eins og ég nefndi hér fyrr, hjá forsætisnefndinni. Til viðbótar eru síðan sérstök eftirlitsnefnd og kjörnefnd.

Tengsl Norðurlandaráðs við aðildarríkin voru mikið til umræðu í stefnumótunarhópnum og var sérstök áhersla lögð á að hinar nýju málefnanefndir Norðurlandaráðs ættu samstarf við hliðstæðar nefndir þjóðþinganna. Tengslin við ríkin byggjast á mörgum þáttum en stefnumótunarhópurinn nefndi eftirfarandi samverkandi þætti, þ.e. samræmi á milli sérsviðs þingmanna í þjóðþingum og nefndarsetu þeirra í Norðurlandaráði, að dagskrá Norðurlandaráðs endurspegli aðkallandi málefni í aðildarríkjunum og ESB, að ríkisstjórnir geri þjóðþingunum grein fyrir því hvernig tilmælum Norðurlandaráðs er fylgt eftir, gagnkvæmt upplýsingastreymi á milli ritara landsdeilda og nefndaritara Norðurlandaráðs um störf ráðsins og störf þjóðþinganna.

Stefnumótunarhópurinn fjallaði um hvort Norðurlandaráð skyldi halda eitt eða fleiri þing árlega. Niðurstaðan varð sú að Norðurlandaráð héldi eitt þing árlega en hægt væri að boða til aukaþings ef sérstök ástæða þætti til.

Stefnumótunarhópurinn ræddi ekki um breytingar á flokkahópsfyrirkomulaginu sem komið var á 1995. Það var almenn ánægja með það fyrirkomulag. Áður komu fulltrúar Norðurlandaráðs til funda fyrst og fremst sem fulltrúar sinna landsdeilda en eftir að flokkahópunum var komið á hafa fulltrúarnir í auknum mæli undirbúið sig fyrir fundi í Norðurlandaráði í flokkahópunum. Stefnumótunarhópurinn lýsti yfir ánægju með flokkahópsfyrirkomulagið og telur að aukið vægi flokkahópanna í frumkvæði, undirbúningi og meðferð mála hafi átt þátt í því að gera innra starf Norðurlandaráðs þróttmeira. Eftir sem áður munu flokkahóparnir sjá um tilnefningar við nefndakjör á Norðurlandaráðsþingum.

Herra forseti. Norðurlandaráð byrjaði að starfa eftir nýja nefndakerfinu nú um áramótin þannig að lítil reynsla er enn þá komin á það. Ég held hins vegar að þetta nýja fyrirkomulag verði til mikilla bóta fyrir starfsemi ráðsins. Það er auðvitað mikil vinna fram undan við að treysta grundvöll hinna nýju nefnda og tryggja skilvirkt samstarf við ráðherrana. Sú vinna er öll á réttri leið og það er enginn efi í mínum huga að Norðurlandaráð mun standa sterkara eftir þessar breytingar en áður.