Norrænt samstarf 2001

Fimmtudaginn 28. febrúar 2002, kl. 17:09:04 (5404)

2002-02-28 17:09:04# 127. lþ. 85.6 fundur 483. mál: #A norrænt samstarf 2001# skýrsl, utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 127. lþ.

[17:09]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Það gefst tækifæri til þess að ræða um málefni Palestínu á ýmsum fundum. Til dæmis er fundur Eystrasaltsráðsins í Kaliningrad í næstu viku. Þar mun ég hitta ýmsa ráðherra og mun m.a. eiga sérstakan fund með utanríkisráðherra Rússlands. Þetta mál mun koma þar á dagskrá. Mjög margir ráðherrar hér á landi verða í tengslum við fund Atlantshafsbandalagsins í vor. Ljóst er að þessi mál verða þar á dagskrá með tvíhliða hætti milli margra ríkja og það liggur alveg ljóst fyrir að á þeim fundi munu Íslendingar eiga tvíhliða viðræður við mjög margar þjóðir, m.a. Bandaríkjamenn. En ég held að hv. þingmenn vanmeti það að mjög lítið sé fylgst með umræðum hér á landi. Hér eru mörg sendiráð. Þau taka vel eftir því hvað Íslendingar segja í þessu máli. Og því er komið skilmerkilega á framfæri við viðkomandi þjóðir.

Það er líka alveg ljóst að Ísraelsmenn fylgjast með þeirri umræðu sem á sér stað hér á landi. Ég held því að hv. þingmenn þurfi ekkert að óttast um það að bæði sjónarmið þeirra og íslenskra stjórnvalda komast fyllilega til skila.