Norrænt samstarf 2001

Fimmtudaginn 28. febrúar 2002, kl. 17:31:42 (5410)

2002-02-28 17:31:42# 127. lþ. 85.6 fundur 483. mál: #A norrænt samstarf 2001# skýrsl, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 127. lþ.

[17:31]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs fyrst og fremst til að ræða um norrænt samstarf og ætla ekki að hafa um það langt mál. Það er búið að ræða þær skýrslur sem liggja fyrir þinginu allítarlega. Í upphafi vildi ég aðeins segja örfá orð um þá umræðu sem hefur farið fram síðustu mínúturnar, um Palestínu. Ég vil lýsa stuðningi við að utanríkisráðherra Íslands fari í heimsókn til Palestínu og til Ísraelsríkis og láti þar rödd Íslands heyrast skýrt og afdráttarlaust í þágu friðar.

Það er alveg rétt sem fram kom í máli hæstv. utanrrh. að að sjálfsögu þarf að tala af varkárni. Það gera Evrópuríkin og hann talaði um það, hæstv. ráðherra, að Bandaríkin gerðu það einnig. Ég held að skýringin á þessu sé af tvennum toga, annars vegar vilja Evrópuríkin ekki styggja Bandaríkjastjórn, sem hefur að mínum dómi illu heilli hefur verið of ráðandi í mótun utanríkisstefnu vestrænna ríkja á undanförnum árum, þótt margt bendi til að þar sé að verða nokkur breyting á og Evrópuríkin að taka upp sjálfstæðari afstöðu eins og ummæli ýmissa ráðamanna í Evrópu síðustu daga og vikur benda til. Vísa ég þar t.d. í ummæli Solana sem fer með stjórn utanríkismála innan framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

Hins vegar er ekki undarlegt að þjóðir heimsins tali einum rómi í þessu máli. Svo skefjalaust og grímulaust er hernaðarofbeldið sem Ísraelsher hefur beitt vopnlaust fólk undanfarnar vikur og mánuði með hörmulegum afleiðingum. Að mér hefur sótt hugsunin um hvort heimurinn hefði ekki hrópað enn hærra en hann þó hefur gert væru Palestínumenn svartir á hörund, ef menn sæju hlutina í því samhengi. Síðan hefur ofbeldið kallað á ofbeldi og við höfum orðið vitni að víxlverkandi stigmögnun sem hefur bitnað á saklausu fólki, bæði í Palestínu og í Ísraelsríki.

Hin ástæðan fyrir því að menn vilja tala af varkárni er að sjálfsögðu sú að til að binda enda á stríðið og þessar deilur þarf tvo til. Til þess þarf bæði Palestínumenn og einnig Ísraelsríki. Auðvitað vilja menn beina þessari umræðu inn í uppbyggilegan farveg og af þeim sökum vilja menn nálgast þessi mál af varkárni.

En varðandi afskipti og afskiptaleysi Bandaríkjanna, sem aðeins var komið inn á í umræðunni, er það staðreynd að Bandaríkin hafa um mjög langt árabil haft mjög mikil afskipti af deilum fyrir botni Miðjarðarhafs og t.d. veitt óhemjustuðning til vopnakaupa fyrir Ísraelsríki. Án stuðnings Bandaríkjastjórnar væri Ísraelsríki ríki ekki eins vel vopnum búið og raun er á.

Hins vegar er það alveg rétt sem kom fram í greiningu hæstv. utanrrh. --- alla vega held ég að það sé rétt --- að það hefur komið mörgum á óvart að ekki yrði meiri stefnubreyting en raun bar vitni við valdatöku repúblikana. Demókratarnir hafa verið heldur hallari undir Ísraelsstjórn en repúblikanar hafa verið.

En ég vil lýsa ánægju minni og stuðningi við að hæstv. utanrrh. heimsæki þessi ríki fyrir botni Miðjarðarhafsins og leggi okkar lóð á vogarskálar friðarins.

Varðandi NATO-fundinn sem fyrirhugað er að halda er greinilega komin tilhlökkun í menn út af honum, þótt menn sjái að hann verði langur og strangur, fundahöld hefjist snemma á morgnana og standi langt fram á kvöld. Ég held að tilhlökkunin hjá íslenskum skattborgurum verði ekki eins mikil að þurfa að greiða fyrir þessi fundahöld en nóg um það að sinni.

Ég vil lýsa ánægju minni með þær skýrslur sem liggja fyrir þinginu um norrænt samstarf. Við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði erum mjög eindregið fylgjandi þessu samstarfi og höfum viljað styrkja það á allan hátt. Sú var tíðin, fyrir fáeinum árum, að menn spáðu norrænu samstarfi ekki langra lífdaga. Menn töldu að ekki yrði rúm fyrir norrænt samstarf í nýrri Evrópu þar sem Evrópusambandið yrði fyrirferðarmikið. Þessar raddir hljómuðu aldrei hátt á Íslandi. Ég held að margir hafi tekið undir, svona í hjarta sínu, með Einari Má Guðmundssyni rithöfundi í Háskólabíói á sínum tíma þegar hann sagði fyrir okkar hönd ,,Norden er i orden``. Hann mun hafa verið að taka við bókmenntaverðlaunum Norðurlandsráðs.

Menn hafa tekið sig á í að endurskipuleggja hið norræna samstarf. Eins og fram kemur í skýrslunni voru þær skipulagsbreytingar sem hér hafa verið tíundaðar samþykktar á þingi Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn í októbermánuði árið 2001, en þessi skýrsla tekur einmitt til þess árs.

Það er ekki bara í hinu formlega samstarfi á vegum Norðurlandaráðs sem ég held að við höfum ávinning af þessu starfi heldur einnig í þeim viðræðum sem fram fara í tengslum við Norðurlandaráð, svona svipað og vikið var að varðandi NATO-fundinn, þó ég sé ekki eins hrifinn af því kompaníi. Eins og hér hefur komið fram komu saman á vettvangi Norðurlandaráðs, í tengslum við fund forsætisnefndar ráðsins, utanríkisráðherrar Norðurlandanna til þess að ræða Palestínumálið, svo dæmi sé tekið. Í þetta norræna samstarf held ég að við getum sótt mikinn ávinning. Ég þekki þetta sjálfur vel af vettvangi verkalýðsbaráttu og verkalýðssamstarfs. Þar koma verkalýðssamtökin á Norðurlöndunum öllum saman í samtökum sem nefnast NFS, Norrænu verkalýðsamtökin. Þau fara líkt að og í Norðurlandaráði að þau skipuleggja sig m.a með tilliti til Evrópusambandsins. En á vegum Norðurlandaráðs hefur verið starfandi Evrópunefnd eins og hér kemur fram í skýrslunni, með leyfi forseta:

,,Hlutverk Evrópunefndar var að sinna samstarfi Norðurlanda og EES/ESB-ríkja og fjalla um stefnu norrænu ríkjanna í þeim málaflokki. Nefndin hefur einkum fjallað um atvinnumál, hagstjórnarmál, neytendamál og meðferð evrópskrar löggjafar á Norðurlöndum, auk þess að fjalla um starfsáætlanir formennskuríkja og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.``

Fulltrúi okkar í þessari nefnd og í þessu norræna samstarfi er hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon. Hann hefur einnig starfað á ýmsum öðrum sviðum á þessum vettvangi og má nefna að hann sat í stjórn norræna ráðsins um málefni fatlaðra, sem er málaflokkur sem hefur verið talsvert til umræðu og umfjöllunar í Norðurlandaráði.

Einu atriði vil ég sérstaklega vekja athygli á og lýsa ánægju með, þ.e. vinnuhópur sem hefur starfað að því að ræða aðgerðir til að fyrirbyggja átök og stjórnun hættu\-ástands, það sem á norrænni tungu er kallað ,,konfliktförebyggande och civil krishantering``, með leyfi forseta, en sá hópur var skipaður í nóvember árið 2000. Þetta er dæmi um starf á vegum Norðurlandaráðs sem gæti borið ávöxt. Við eigum að reyna að láta að okkur kveða í heiminum, bæði ein á báti en ekki síður í samstarfi við Norðurlandaþjóðir eða aðrar þjóðir til að hafa áhrif í þágu friðar.