Evrópuráðsþingið 2001

Fimmtudaginn 28. febrúar 2002, kl. 19:08:04 (5425)

2002-02-28 19:08:04# 127. lþ. 85.16 fundur 556. mál: #A Evrópuráðsþingið 2001# skýrsl, MF
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 127. lþ.

[19:08]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég flyt hér skýrslu þeirra þingmanna sem sækja Evrópuráðsþingið þar sem hv. þm. Lára Margrét Ragnarsdóttir, formaður sendinefndarinnar, er erlendis og hv. þm. Ólafur Örn Haraldsson, varaformaður sendinefndarinnar, er einnig erlendis, bæði að störfum fyrir Evrópuráðið.

En skýrsla formanns hljóðar svo:

Sem kunnugt er er Evrópuráðsþingið þingræðislegur vettvangur 43 aðildarríkja Evrópuráðsins og gegnir veigamiklu hlutverki í starfsemi þess, enda hugmyndabanki stofnunarinnar. Á þinginu sitja nú 602 fulltrúar sem skiptast til helminga, í aðalmenn og varamenn. Aðalmenn Íslandsdeildarinnar á árinu voru hv. þingmenn Lára Margrét Ragnarsdóttir formaður, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Ólafur Örn Haraldsson varaformaður, þingflokki Framsóknarflokksins, og sú sem þetta flytur frá þingflokki Samfylkingarinnar. Varamenn voru hv. þm. Tómas Ingi Olrich, þingflokki Sjálfstæðisflokks, hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson, þingflokki Framsóknarflokks, og hv. þm. Bryndís Hlöðversdóttir, þingflokki Samfylkingarinnar. Hinn 3. október tók hv. þm. Kristján L. Möller, þingflokki Samfylkingarinnar, sæti hv. þm. Bryndísar Hlöðversdóttur sem varamaður Margrétar Frímannsdóttur.

Ritari Íslandsdeildarinnar er Andri Lúthersson.

Um þessar mundir gegnir Evrópuráðið m.a. því veigamikla hlutverki að styðja lýðræðis- og efnahagsuppbyggingu í nýfrjálsum ríkjum Mið- og Austur-Evrópu, meðal annars með laga- og tækniaðstoð og kosningaeftirliti. Aðildarríkjum ráðsins hefur fjölgað ört og eru þau nú 43 talsins, auk þess sem fjöldi ríkja hefur sótt um aðild. Pólitískt vægi Evrópuráðsþingsins hefur því aukist verulega undanfarin ár.

Átökin í Tsjetsjeníu bar hátt á dagskrá Evrópuráðsþingsins árið 2001, líkt og árið áður, og á fyrsta þingfundi Evrópuráðsins í janúar var efnt til sérstakrar umræðu um stöðu rússnesku sendinefndarinnar vegna stríðsins í Tsjetsjeníu. Var ákveðið að veita rússnesku sendinefndinni aftur atkvæðisrétt sinn á þinginu þrátt fyrir að ástand mála í Tsjetsjeníu væri langt frá því að vera ásættanlegt en Evrópuráðsþingið taldi að samvinna við rússnesku Dúmuna væri farsælust til að ná fram því markmiði þingsins að bæta stöðuna í héraðinu. Af lýðræðis- og réttarfarsmálum má nefna að staðan í Júgóslavíu, Úkraínu og Hvíta-Rússlandi var ofarlega á baugi á þinginu og samkundan hvatti ráðherraráð Evrópuráðsins til að nýta allar færar leiðir til að leysa úr þeim vanda sem skapast hefði í þessum ríkjum á undanförnum árum. Auk umræðunnar um átökin og ástand mála í Tsjetsjeníu kom hinn pólitíski órói sem einkenndi suðurhluta Balkanskaga mjög til umræðu á þinginu á árinu. Vopnuð átök albanskra skæruliðaafla í fyrrum Júgóslavíulýðveldinu Makedóníu og í suðurhluta Serbíu stefndu, framan af árinu, í voða þeim stöðugleika sem náðst hafði á svæðinu á undanförnum árum. Átökin fyrir botni Miðjarðarhafs hörðnuðu mjög verulega á seinni hluta ársins og var fjallað um þau sérstaklega á þinginu og ofbeldisverk öfgafullra afla meðal Ísraela og Palestínumanna harðlega fordæmd.

Evrópubúar fóru ekki varhluta af afleiðingum hryðjuverkaárásanna á Bandaríkin í septembermánuði. Efnt var til sérstakrar utandagskrárumræðu á Evrópuráðsþinginu um afleiðingar hryðjuverkanna á evrópskt samfélag og í ályktun þingsins og umræðum þingmanna var áhersla lögð á að hinni nýju ógn hryðjuverka þyrftu að fylgja breytt viðbrögð. Þingheimur sammæltist um að rík nauðsyn væri á því að þjóðir Evrópu tækju sig saman til að ráða niðurlögum alþjóðlegrar hryðjuverkastarfsemi en jafnframt að ráðast yrði að rótum vandans með auknum skilningi á félagslegum, efnahagslegum og trúarlegum forsendum hans. Aðildarríki Evrópuráðsins voru jafnframt hvött til þess að undirrita þá samninga sem taka til hryðjuverkastarfsemi og þegar væru til svo sem alþjóðlegan sáttmála um bann við fjármögnun hryðjuverkastarfsemi.

Hér á eftir fara svo ítarlegri upplýsingar um starfsemi Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins á árinu 2001.

Dagana 22.--26. apríl var fyrsti hluti þingfundar Evrópuráðsþingsins haldinn í Strassborg. Aðildarríkjum Evrópuráðsins fjölgaði um tvö 25. janúar þegar fáni Armeníu og Aserbaídjsan var dreginn að húni fyrir utan Evrópuráðshöllina í Strassborg. Ríkin urðu þar með 42. og 43. aðildarríki stofnunarinnar.

Málefni Júgóslavíu voru á meðal þess sem hæst bar á fundinum. Í ályktun stjórnmálanefndar var því fagnað að stjórnarandstöðuöflin í Serbíu hefðu unnið afgerandi sigur í þingkosningunum og stuðningi lýst yfir við lýðræðisöflin í landinu. Jafnframt var minnt á að uppbyggingarstarfið sem fram yrði að fara í landinu á næstunni væri gríðarlegt að umfangi og að alþjóðasamfélaginu bæri að sýna lýðræðisþróuninni í landinu stuðning sinn í verki.

Málefni Tsjetsjeníu voru tekin til umræðu og voru rússnesk stjórnvöld gagnrýnd fyrir að hafa ekki tekið nægjanlegt tillit til ályktana Evrópuráðsþingsins hvað varðar hernaðaraðgerðir rússneska hersins í héraðinu. Voru fyrri ályktanir ítrekaðar og rússnesk stjórnvöld eindregið hvött til að virða mannréttindi og alþjóðleg lög um vernd óbreyttra borgara á stríðstímum. Kjörbréf rússnesku sendinefndarinnar við Evrópuráðsþingið var tekið fyrir í tengslum við umræðuna um stöðu mála í Tsjetsjeníu og ályktaði þingið í þá veru að þrátt fyrir að staðan í Tsjetsjeníu væri afar alvarleg og litlar umbætur hefðu orðið í héraðinu þrátt fyrir tilmæli Evrópuráðsins ætti sendinefndin skilið að fá annað tækifæri til að sýna og sanna vilja sinn til að hafa áhrif á stjórnvöld í þá veru að bæta úr ástandi mannréttindamála í héraðinu. Ályktunin var samþykkt og tók rússneska sendinefndin því sæti sitt á þinginu að nýju eftir nokkurra missira hlé.

Að venju var kosið að nýju til embætta þingsins og málefnanefnda þess á fundinum og lét þar með Lára Margrét Ragnarsdóttir af embætti varaforseta þingsins. Lára Margrét var kjörin formaður félags-, heilbrigðis- og fjölskyldumálanefndar Evrópuráðsþingsins.

Ólafur Örn Haraldsson tók til máls í sameiginlegri umræðu um kosningaeftirlit á vegum Evrópuráðsins og í máli sínu vék hann að nýafstöðnum sveitarstjórnarkosningum í Kosovo-héraði og hrósaði íbúum héraðsins fyrir þátttöku þeirra. Lagði hann áherslu á að kosningarnar hefðu verið stórt skref í þekkingar- og þróunarferli því sem færi fram meðal íbúa héraðsins sem áratugum saman hefðu sætt kúgun stjórnvalda í Belgrad.

Lára Margrét Ragnarsdóttir tók til máls í umræðu þingsins um átökin í Tsjetsjeníu og sagðist harma hversu lítið hefði áunnist í því að koma mannréttindamálum til betri vegar. Í ræðu sinni hvatti hún rússnesk stjórnvöld til að leita tafarlaust allra leiða til að finna varanlega lausn mála í héraðinu.

[19:15]

Dagana 23.--27. apríl var annar hluti þingfundar Evrópuráðsþingsins haldinn í Strassborg. Meðal þess sem tekið var fyrir á þingfundinum var ástand mála í Kosovo-héraði og lýsti Evrópuráðsþingið yfir fullum stuðningi við varanlega pólitíska lausn á málefnum héraðsins og fordæmdi jafnframt þau ofbeldisverk sem höfðu verið unnin af fulltrúum öfgasinna í röðum þeirra þjóðernishópa sem héraðið byggja. Í málflutningi þingmanna var lýst yfir miklum áhyggjum af því að viðvarandi skærur og átök í Kosovo-héraði kynnu að breiðast út til grannríkisins Makedóníu.

Af öðrum málefnum sem tekin voru til umræðu á þinginu má nefna umræður um nauðsyn alþjóðlegrar samstöðu um Kyoto-bókunina. Í umræðum var afstaða Bandaríkjastjórnar til bókunarinnar harðlega gagnrýnd og í ályktun þingsins, sem var samþykkt samhljóða af þingheimi, var sagt að Bandaríkin vægju að Kyoto-áætluninni og bæru ábyrgð á því að fæla önnur ríki frá því að takast á hendur þær pólitísku skuldbindingar sem í bókuninni fælust. Var Bandaríkjastjórn hvött til að endurskoða afstöðu sína hið allra fyrsta og voru stjórnvöld aðildarríkja Evrópuráðsins enn fremur hvött til að þrýsta á Bandaríkjastjórn um að gangast við skuldbindingum sínum hvað Kyoto-bókunina varðar.

Þá má geta þess að ástandið fyrir botni Miðjarðarhafs var tekið til umræðu á þingfundinum og hvatt til þess að stríðandi fylkingar settust að samningaborði og að forustumenn Ísraelsstjórnar og Palestínumanna sýndu fulla ábyrgð í friðarumleitunum sínum. Var Ísraelsstjórn sérstaklega hvött til að losa um takmarkanir á ferðafrelsi Palestínumanna og að sama skapi var heimastjórn Palestínu hvött til að stemma stigu við hryðjuverkum harðlínuafla og fordæma slíkar aðgerðir.

Ólafur Örn Haraldsson tók til máls í umræðum um stöðu mála í Kosovo-héraði og grannríkjum þess og lýsti yfir miklum áhyggjum af ófriðvænlegu ástandi í héraðinu. Sagði hann að alþjóðasamfélagið hefði vaknað upp við vondan draum er hópar skæruliða ollu því að átök tóku að magnast í norðvesturhluta Makedóníu fyrr á árinu. Í því tilliti yrði að árétta að einn lykillinn að farsælli lausn mála væri að fulltrúar stjórnvalda í Júgóslavíu, Makedóníu og ábyrgir stjórnmálamenn í Kosovo-héraði hæfu viðræður þar eð stöðugleiki í Kosovo-héraði væri afar mikilvæg forsenda friðar í grannríkjunum.

Lára Margrét Ragnarsdóttir tók einnig til máls í umræðunni um þróun mála við Tsjernóbíl-kjarnorkuverið og sagði í ræðu sinni að greinilegt væri að lítið hefði þokast í framfaraátt á þeim átta árum sem liðin væru frá því að hún lagði fram skýrslu félags-, heilbrigðis- og fjölskyldumálanefndar þingsins um heilsufarsvandann sem fylgdi Tsjernóbíl-slysinu.

Á þinginu tók Lára Margrét Ragnarsdóttir sæti flokkahóps hægri manna í vinnuhópi Evrópuráðsþingsins um málefni Tsjetsjeníu. Vinnuhópurinn er skipaður fulltrúum allra flokkahópa innan Evrópuráðsþingsins og þingmönnum úr Dúmunni, neðri deild rússneska þingsins.

Dagana 25.--29. júní var þriðji hluti þingfundar Evrópuráðsþingsins haldinn í Strassborg. Á fundinum var m.a. mikil umræða um ástand mála í fyrrum Júgóslavíulýðveldinu Makedóníu þar sem stjórnarher og skæruliðasveitir skipaðar mönnum úr albanska minni hlutanum höfðu eldað saman grátt silfur á undangengnum vikum með þeim afleiðingum að tugir manna, þar á meðal saklausir borgarar, höfðu fallið í valinn.

Þá var tekin fyrir skýrsla jafnréttisnefndar þingsins, sem sú sem hér talar á sæti í, um heimilisþrældóm eða það sem nefndin nefnir nútímaþrældóm og birst hafi með ýmsum hætti í álfunni undanfarin ár og áratugi. Er þar átt við einstaklinga, oftlega flóttafólk frá ríkjum Afríku, Suðaustur-Evrópu eða Austurlöndum nær og fjær, sem gert er að starfa á heimilum efnaðs fólks án greiðslu. Samkvæmt rannsóknum viðgangist slík starfsemi í auknum mæli í stærri borgum álfunnar og ekki síst á heimilum stjórnarerindreka og embættismanna fjölþjóðastofnana. Ályktað var í þá veru að aðildarríki Evrópuráðsins ættu að skilgreina heimilisþrældóm sem glæp og að í slíkum tilfellum, sem skilgreindust sem einkamál tjónvalda, yrðu stjórnarerindrekar á erlendri grund sviptir friðhelgi.

Sú sem hér stendur á einnig sæti í laga- og mannréttindanefnd, en tekin var til umræðu skýrsla laga- og mannréttindanefndar Evrópuráðsþingsins um afnám dauðadóms í áheyrnaraðildarríkjum Evrópuráðsins. Mæltist þingið til þess að ráðherraráðið hæfi þegar í stað viðræður við stjórnvöld í Bandaríkjunum og Japan um úrbætur með það fyrir augum að í náinni framtíð verði dauðadómar afnumdir í báðum ríkjum. Þá mæltist þingið til þess að ráðherraráðið veitti aðeins þeim ríkjum áheyrnaraðild sem tækju í gildi tímabundið bann við fullnustu dauðadóma eða hefðu þegar afnumið dauðarefsingar. Skuldbindingar Tyrklands á vettvangi Evrópuráðsins voru teknar til umræðu á þingfundinum og fagnaði þingið þeim framförum sem orðið hefðu á undanförnum missirum hvað varðar m.a. stjórnarskrárbreytingar, bættar starfsaðferðir lögregluyfirvalda og aukin mannréttindi. Hins vegar var ályktað í þá veru að enn væri fjölmörgum endurbótum á stjórnkerfi landsins ólokið, þar með talið stjórnarskrárbreytingum sem gerðu ráð fyrir þingræðislegri stjórn á öryggisráði landsins, vernd lýðréttinda, svo sem tjáningarfrelsis, afnámi dauðarefsingar og að fullt félagafrelsi yrði tryggt, svo nokkuð sé nefnt. Mæltist Evrópuráðsþingið til þess við ráðherraráðið að það legði meiri áherslu á að aðstoða Tyrklandsstjórn við úrbætur sem enn hafa ekki komið til framkvæmda í landinu.

Hv. þm. Lára Margrét Ragnarsdóttir tók þátt í umræðum um stöðu mála í fyrrum Júgóslavíulýðveldinu Makedóníu og sagði í ræðu sinni að það væri hryggilegt að átök hefðu brotist út þar eð miklar vonir hefðu verið bundnar við að átök undangenginna ára á Balkanskaga næðu ekki að hrófla við friðnum í landinu. Sagði hún að stjórnvöld í landinu yrðu að gera sér grein fyrir nauðsyn þess að bæta úr stöðu albanska minni hlutans og fagnaði þess vegna myndun þjóðstjórnar með fulltrúum allra þjóðarbrotanna í landinu.

Hv. þm. Ólafur Örn Haraldsson sagði í innleggi sínu í sömu umræðu að alþjóðasamfélagið yrði að gera sér grein fyrir því að þrátt fyrir að það hefði látið mikið fé af hendi rakna til að treysta frið í landinu virtist margt benda til þess að sá friður kynni að vera úti. Sagði hann að þetta væri hryggileg þróun og jafnframt hættuleg þar eð mikil hætta væri á því að ófriður í Makedóníu breiddist út til grannsvæða. Hv. þm. Ólafur Örn Haraldsson sagði að félagslegur kostnaður slíkra átaka yrði mikill, ekki síst í ljósi þess að samfélagsgerðin öll mundi riðlast á skömmum tíma.

Þess má geta að fyrir fund fastanefndar var lögð tillaga að ályktun, að frumkvæði Láru Margrétar Ragnarsdóttur, um hjúkrunarmeðferð þeirra sem orðið hafa fyrir mænuskaða. Tillagan, sem var undirrituð af á sjötta tug þingmanna, þar á meðal annarra fulltrúa íslenska þingsins hjá Evrópuráðinu, var samþykkt á fundi fastanefndarinnar og verður tekin fyrir á vettvangi félags-, heilbrigðis- og fjölskyldumálanefndar Evrópuráðsþingsins á næsta ári, en þar er hv. þm. Lára Margrét Ragnarsdóttir, eins og áður sagði, formaður.

Dagana 24.--28. september var fjórði hluti þingfundar Evrópuráðsþingsins haldinn í Strassborg. Þingfundurinn í Strassborg var að þessu sinni haldinn í skugga hryðjuverkanna í New York og Washington D.C. í Bandaríkjunum og settu þessir atburðir sitt mark á fundinn. Ákveðið hafði verið, nokkrum dögum fyrir þingfundinn, að taka umræðu um hryðjuverk á málefnadagskrá fundarins. Í ályktunardrögunum var megináherslan lögð á það að hinni nýju ógn hryðjuverka þyrftu að fylgja ný viðbrögð þar eð hætturnar sem stafa af einbeittum hryðjuverkahópum þekki engin landamæri. Nauðsyn væri því á alþjóðlegum viðbrögðum og ætti eitt markmiða alþjóðasamfélagsins að vera að ráðast að rótum vandans með auknum skilningi á félagslegum, efnahagslegum og trúarlegum forsendum hans. Í ályktunardrögunum var hvatt til þess að komið yrði á alþjóðlegum sáttmála um leiðir til að berjast gegn hryðjuverkastarfsemi þar sem alþjóðleg hryðjuverkastarfsemi yrði jafnframt skýrt skilgreind og kveðið yrði á um tilteknar skuldbindingar ríkja til að koma í veg fyrir hryðjuverk. Aðildarríki Evrópuráðsins voru jafnframt hvött til þess að undirrita þá samninga sem taka til hryðjuverkastarfsemi og þegar væru til svo sem alþjóðlegan sáttmála um bann við fjármögnun hryðjuverkastarfsemi. Ályktunin og tilmæliin voru samþykkt samhljóða.

Í innleggi hv. þm. Láru Margrétar Ragnarsdóttur um ógnina sem lýðræðisríkjum stafar af hryðjuverkastarfsemi kom fram að þrátt fyrir þá reiði og angist sem ríki eftir árásirnar og framdar hefðu verið af huglausum mönnum mætti ekki ráðast í skjótar aðgerðir nema að vel yfirlögðu ráði. Ræddi hv. þm. Lára Margrét Ragnarsdóttur um þróun öryggishugtaksins á undangengnum árum og áratugum og nauðsyn þess að endurskilgreina það með tilliti til hryðjuverkanna. Taldi hún að aðeins með samstilltu átaki á alþjóðavettvangi tækist að koma í veg fyrir þá ógn sem stafar af hryðjuverkastarfsemi. Í máli hennar kom fram að í allt of mörgum tilfellum sprytti hryðjuverkastarfsemi upp í jarðvegi fátæktar, eymdar og óréttlætis og bæri alþjóðasamfélaginu að takast á við slíkan vanda. Þá lagði Lára Margrét áherslu á að ekki bæri að líta á baráttuna gegn alþjóðlegri hryðjuverkastarfsemi sem árekstur tveggja menningarheima og jafnframt hvatti hún ríki heims til þess að leggjast á eitt og sameinast um að sporna við þessari nútímaógn.

Utan reglulegra þinga halda nefndir Evrópuráðsþingsins nokkra fundi árlega, ýmist í Strassborg eða París eða einhverju aðildarríkja ráðsins. Alls tók Íslandsdeildin þátt í hátt á annan tug slíkra funda á árinu 2001 og var það einungis lítið brot af þeim fundum sem haldnir voru. Alls stjórnaði hv. þm. Lára Margrét Ragnarsdóttir sex fundum félags-, heilbrigðis- og fjölskyldumálanefndarinnar á árinu. Þá sótti hún þrjá fundi í stjórnmálanefnd þingsins og tvo fundi stjórnarnefndar. Þá stýrði hún, sem formaður félagsmálanefndarinnar, fundum á ráðstefnu umhverfis- og landbúnaðarnefndarinnar um lífshætti á nýju árþúsundi, sem haldin var á grísku eyjunni Santorini. Auk þessa var hv. þm. Láru Margréti Ragnarsdóttir boðið í heimsókn til Króatíu í júní sem formaður félagsmálanefndarinnar. Sérlegur starfshópur Evrópuráðsþingsins í málefnum Tsjetsjeníu hélt í tvígang til Rússlands eftir að hv. þm. Lára Margrét Ragnarsdóttir tók sæti í honum, í september og í desember. Auk ferðanna tveggja var efnt til þriggja samráðsfunda með fulltrúum Tsjetsjena í Strassborg og Prag.

Hv. þm. Ólafur Örn Haraldsson sótti einn fund í eftirlitsnefnd Evrópuráðsþingsins sem haldinn var í Strassborg í nóvember. Þá sótti hann einnig ráðstefnu umhverfis- og landbúnaðarnefndarinnar um lífshætti á nýju árþúsundi sem haldin var á Santorini.

Sú sem hér stendur sótti einn fund í laga- og mannréttindanefnd Evrópuráðsþingsins sem fram fór í París í marsmánuði. Þá tók ég þátt í tveimur fundum jafnréttisnefndarinnar sem báðir voru haldnir í París. Einnig sat ég fundi flóttamannanefndar þingsins í Genf í septembermánuði. Samhliða nefndarfundinum heimsóttu fulltrúar nefndarinnar skrifstofur alþjóðaráðs Rauða krossins og Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna.

Að lokum vil ég minnast á að á undanförnum árum hefur tekist afar farsælt samstarf með fulltrúum Íslandsdeildarinnar og fastanefndar Íslands við Evrópuráðið og vill Íslandsdeildin koma á framfæri þökkum sínum fyrir samstarfið, aukinheldur hið mikilvæga starf sem fulltrúar utanríkisþjónustunnar inna daglega af hendi í Strassborg. Fastanefndinni undir dyggri stjórn Sveins Björnssonar og reyndar í samstarfi við hans ágætu konu, Sigríði Hrafnhildi Jónsdóttur, fórst verk sitt afar vel úr hendi í formennskutíð Íslands í Evrópuráðinu og jók það mjög veg landsins og virðingu á alþjóðavettvangi. Farsælt framhald hefur orðið á þeirri þróun undir forustu nýs sendiherra, Harðar Bjarnasonar. Það er lítilli þjóð eins og Íslandi algjörlega ómetanlegt að eiga jafnhæft starfsfólk á alþjóðavettvangi og það sem valist hefur til starfa í Strassborg.

Ég vil einnig fyrir hönd fastanefndarinnar þakka frábært starf starfsmanns nefndarinnar, Andra Lútherssonar, og samskiptin við alþjóðadeildina. Ég vil einnig ljúka þessu með því að skila þakklæti frá formanni fastanefndarinnar til annarra nefndarmanna og starfsmanna alþjóðaskrifstofunnar fyrir samstarfið.

Virðulegi forseti. Vegna þess að ég hafði ekki búið mig undir að flytja hér skýrslu formanns eða varaformanns fastanefndarinnar í Strassborg eða nefndar þingsins í Strassborg þá langar mig aðeins til þess í framhaldi af þessu að ítreka það sem ég hef áður sagt við umræðu um skýrslur að það er alveg forkastanlegt að þær skuli ekki hafa meiri sess í störfum þingmanna en raun ber vitni. Er þar ekki við stjórnendur þingsins að sakast, sem setja skýrslurnar hér á dagskrá, heldur fyrst og fremst okkur sjálf sem sinnum þessari umræðu ekki meira en raun ber vitni.

Ég hefði gjarnan viljað taka hér til umræðu hvað gert er við þau tilmæli og þær ályktanir sem eru samþykktar í Evrópuráðinu, hver sé meðferðin og hver sé skylda okkar við að koma þeim á framfæri á Alþingi Íslendinga en jafnframt hvernig utanrrn. fari með þau tilmæli sem koma frá Evrópuráðinu. Því miður er sú umræða í sjálfu sér dauð þar sem sá ræðumaður sem hér stendur talar að mestu leyti við sjálfa sig. Ég get auðvitað rætt þetta við hv. þm. Ögmund Jónasson og forseta þingsins og yfir þeim ágæta starfsmanni utanrrn. sem hér situr í hliðarherbergi og öðrum starfsmönnum þingsins. En það hefur kannski ekki mikinn tilgang.

Það skiptir miklu máli hvernig við stöndum að verki í alþjóðlegu samstarfi. Það skiptir mjög miklu máli vegna þess að samfélag þjóðanna hefur breyst mjög mikið á undanförnum árum. Þess vegna verðum við að leggja ríkari áherslu en við höfum gert hingað til á þetta alþjóðlega samstarf. Þingið mun á næstu árum þurfa að setja í það meira fjármagn til þess að við getum sinnt því betur. Ég er til að mynda í þremur nefndum Evrópuráðsins. Það er algjörlega útilokað fyrir mig að sækja nema fjóra til sex nefndarfundi á hverju ári vegna þeirrar fjárveitingar sem Evrópuráðssamstarfið hefur og það þýðir að engin samfella verður í starfi einstakra þingmanna. Aðeins formaður okkar hefur sótt fleiri fundi en aðrir hv. þm., þ.e. hv. þm. Ólafur Örn Haraldsson og ég.

En það skiptir líka máli hvað verður um þær samþykktir og ályktanir sem frá Evrópuráðinu koma. Ekki síður en aðrir sem hér hafa talað fyrir hönd þeirra hópa sem starfa á alþjóðavettvangi á vegum þingsins þá höfum við verið með í nefndarstarfi með mjög mikilvæg málefni, ekki bara í umræðu á þinginu þar sem haldnar eru venjubundnar fimm mínútna ræður. Það hafa verið unnar mjög merkilegar skýrslur þar sem beint er tilmælum til aðildarþjóða sem við þyrftum svo sannarlega að taka meira til umræðu hér en við höfum gert.

En ég hefði líka gjarnan viljað lýsa skoðun minni á því að Rússarnir fengu að sitja áfram í Evrópuráðinu þrátt fyrir þau mannréttindabrot sem þar eru framin. Þrátt fyrir ítrekuð tilmæli Evrópuráðsins hafa þeir sýnt mjög litlar framfarir. Ég hefði líka gjarnan viljað ræða hér viðhorf íslenskra þingmanna til þess að þetta þing mannréttindanna, Evrópuráðið sjálft sem á að vera merkisberi mannréttinda, tekur inn 42. og 43. aðildarríkið, Armeníu og Aserbaídjsan. Ég hefði gjarnan viljað heyra viðhorf þingmanna almennt til þess og hvernig við gætum lagt okkar af mörkum til þess að styrkja Evrópuráðið í því sem hlýtur að vera meginmarkmiðið, þ.e. að standa vörð um mannréttindi. Það er mín skoðun að það verði ekki gert nema að það fari að beita aukinni hörku gagnvart aðildarríkjum sínum og þá strangari skilyrðum gagnvart þeim ríkjum sem eru tekin inn.

Virðulegi forseti. Ég vil að lokum íterka þakkir okkar fyrir það samstarf sem við höfum átt við starfsmenn utanrrn. sem hefur verið hreint alveg frábært. Við sáum það svo vel hvað það skiptir miklu máli að búa vel að hinu mikilvæga starfi utanríkisþjónustunnar. Áður en við tókum við formennsku í Evrópuráðinu, áður en hæstv. utanrrh. gegndi formennskuhlutverki hjá Evrópuráðinu, bjó fastanefnd okkar eða þeir starfsmenn utanríkisþjónustunnar við afar léleg kjör þarna úti og höfðu mjög takmarkaða möguleika til þess að efla veg Íslands á þessum vettvangi. Það breyttist þegar við fórum með formennskuna og meiri áhersla var af hálfu utanríkisþjónustunnar lögð á starfið sem fram fer í Strassborg. Þá kom til starfa Sveinn Björnsson sendiherra og kona hans, Sigríður Hrafnhildur Jónsdóttir. Við sem vorum þarna þau fjögur ár sem þau störfuðu horfðum á þá jákvæðu breytingu sem varð gagnvart Íslandi og þeim viðhorfum sem við stöndum fyrir í Evrópuráðinu. Ekki bara stóð hæstv. utanrrh. sig mjög vel í formennsku sinni heldur og ekki síður stóðu sendiherrann, starfsmenn utanríkisþjónustunnar og aðrir sem tóku þátt í þessari vinnu sig frábærlega vel og öfluðu landi og þjóð virðingar sem við munum búa að áfram í starfi þarna. Ég vil bara ítreka þakkir okkar til þessa starfsfólks alls þar sem þannig fór að síðasta skýrsla var aldrei flutt, aðeins lögð fram. Umræða fór ekki fram á þinginu. Það hefði kannski, virðulegi forseti, mátt gera það eins núna. En þetta er þó alla vega tilraun okkar til þess að vekja athygli á því mikilvæga starfi sem þarna er unnið.