Fangelsismálastofnun

Mánudaginn 04. mars 2002, kl. 15:07:48 (5430)

2002-03-04 15:07:48# 127. lþ. 86.91 fundur 368#B Fangelsismálastofnun# (aths. um störf þingsins), JB
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 127. lþ.

[15:07]

Jón Bjarnason:

Virðulegi forseti. Vissulega er alvarleg staða uppi varðandi Fangelsismálastofnun eins og við heyrðum í hádegisfréttum í dag. Fjármagn skortir til að halda úti eðlilegri starfsemi þar og ef endar eiga að ná saman fjárhagslega hjá stofnuninni á þessu ári verður hún að loka í 3--4 mánuði yfir sumartímann.

Fjárhagsvandi Fangelsismálastofnunar var ljós í haust og var einmitt ræddur þá. Það kom fram á fundi fjárln. þannig að það þarf í sjálfu sér ekki að koma neitt á óvart. Bæði ber stofnunin skuldir frá fyrri árum og auk þess er rekstur hennar m.a. háður rekstrartekjum eins og hér hefur komið fram.

Það hlýtur, herra forseti, að vera óeðlilegt að stofnun sem gegnir svo veigamiklu hlutverki og á að vinna á samfelldan hátt sé í sjálfu sér háð rekstrartekjum. Það er afar eðlilegt að reynt sé að skapa sem fjölbreyttust störf á þessum stofnunum fyrir þá sem þar þurfa að dvelja, afar eðlilegt, brýnt og nauðsynlegt, en jafnfáránlegt er það að starfsemi hennar sem slík skuli vera háð þessum rekstrartekjum og sveiflast þar, eins og gerð hefur verið grein fyrir, eftir bílainnflutningi eða hversu oft bátar fara á sjó.

Ég leyfi mér að spyrja hæstv. dómsmrh. hvort hún hafi ekki í hyggju í fyrsta lagi að slíta í sundur þau tengsl sem þarna eru og tryggja þar með samfelldan rekstur Fangelsismálastofnunar, og hvernig er ætlunin að taka á þeim skuldabagga sem stofnunin ber og hefði átt að leysa úr á sl. ári.