Fangelsismálastofnun

Mánudaginn 04. mars 2002, kl. 15:13:08 (5433)

2002-03-04 15:13:08# 127. lþ. 86.91 fundur 368#B Fangelsismálastofnun# (aths. um störf þingsins), dómsmrh.
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 127. lþ.

[15:13]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Herra forseti. Ég vil taka skýrt fram að ég er alveg sammála hv. þingmönnum um að þetta er ekki nógu gott ástand og ég vil svo sannarlega að við fáum úrbætur í þessu máli. Það eru auðvitað ýmsar ástæður fyrir því að upp kemur slæm fjárhagsstaða hjá Fangelsismálastofnun akkúrat á þessum tíma. Því miður komu þær upplýsingar heldur seint fram. Vera má að skýringa sé að leita í því að ákveðin mannaskipti hafa orðið hjá stofnuninni og ýmsir reikningar komu seint fram. En það hefur átt sér stað m.a. fjölgun fanga, það er rétt, en það er ekki vegna þess að verið sé að herða refsingar heldur m.a. vegna þess að við höfum verið í vandræðum t.d. með gæsluvarðhaldsfanga. Ekki er enn þá búið að reisa nýtt fangelsi á höfuðborgarsvæðinu fyrir gæsluvarðhaldsfanga, því miður, þannig að þá verður að vista líka á Litla-Hrauni. Vart hefur orðið við aukinn fjölda útlendinga sem hingað koma í vafasömum tilgangi og því miður hafa þeir lagst í afbrot hér á landi þannig að ýmsar ástæður eru fyrir því að þessi kostnaður eykst svo verulega og fer fram úr fjárlögum.

Ég hef ekki bara óskað eftir viðræðum við hæstv. fjmrh. Ég hef þegar átt ítarlegan fund með honum og embættismönnum hans og embættismönnum úr dómsmrn. þannig að verið er að skoða þetta mál og fara yfir þessa hluti nákvæmlega.

Varðandi það sem hv. þm. Jón Bjarnason spurði um í sambandi við númeraplöturnar, þá held ég að allir séu sammála um að mjög mikilvægt sé að fangar hafi ákveðin verkefni og það hefur verið nokkuð erfitt að finna verkefni við hæfi. Þessi fyrirmynd var sótt erlendis frá. Mjög víða í fangelsum í Evrópu eru slík verkefni eins og að búa til númeraplötur og þess vegna var sú leið farin. Það eru bein fyrirmæli í fjárlögum um að afla skuli sértekna með þessu móti og auðvitað verður að bregðast við því.