Umræðuefni undir þessum lið

Mánudaginn 04. mars 2002, kl. 15:19:11 (5436)

2002-03-04 15:19:11# 127. lþ. 86.98 fundur 407#B umræðuefni undir þessum lið# (aths. um störf þingsins), SAÞ
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 127. lþ.

[15:19]

Sigríður A. Þórðardóttir:

Herra forseti. Í 50. gr. þingskapa segir m.a., með leyfi forseta:

,,Í upphafi fundar, áður en gengið er til dagskrár, geta þingmenn gert athugasemdir er varða störf þingsins.``

Mér finnst það mikið umhugsunarefni hvernig þessi ákvæði þingskapanna eru nýtt hér í þinginu af stjórnarandstöðunni. Mér fannst alveg einstaklega glöggt dæmi um það í upphafi þessa fundar þegar fyrirspurnum var beint til dómsmrh. Þær áttu ekki heima undir þessum lið þingskapa. Þarna var um fyrirspurnir að ræða til ráðherra sem annaðhvort hefði átt að svara í óundirbúnum fyrirspurnum eða í fyrirspurnatíma, þ.e. skriflegri fyrirspurn.

Af þessu tilefni verð ég að segja að það er engu líkara en að sumir hv. þm. lesi blöðin á morgnana og nefni síðan það sem þar er í fréttum hér undir liðnum athugasemdir um störf þingsins. Það er afskaplega mikið umhugsunarefni. Ég verð að viðurkenna að mér finnst menn vera komnir út fyrir öll mörk varðandi hvað hægt er að ræða undir liðnum athugasemdir um störf þingsins.