Umræðuefni undir þessum lið

Mánudaginn 04. mars 2002, kl. 15:22:20 (5438)

2002-03-04 15:22:20# 127. lþ. 86.98 fundur 407#B umræðuefni undir þessum lið# (aths. um störf þingsins), GAK
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 127. lþ.

[15:22]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Ég tek undir orð hv. þm. Ögmundar Jónassonar frá því áðan, að í dag stendur til að við ræðum hér um stjórn fiskveiða, svokallaða sáttaleið. Ég hefði talið eðlilegt að tekin hefði verið til umræðu tillaga sem formenn stjórnarandstöðuflokkanna lögðu fram, um að hugsanlega væri hægt að leita frekari leiða til að ná sátt með stjórn og stjórnarandstöðu í þessu máli. Það var því miður ekki gert.

Ég veit ekki alveg hvernig á að skilja þau ummæli hæstv. forsrh. í fréttum nýverið að hlutverk sjútvrh. sé m.a. að leita sátta við eigin flokk og reyndar stjórnarflokkana báða en jafnframt við stjórnarandstöðuna.

Ég hefði talið að þessi tillaga sem flutt var af formönnum þingflokka hefði verið útrétt hönd til að reyna að finna flöt á þessu máli. Ég harma að það skuli ekki hafa verið reynt.