Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 04. mars 2002, kl. 15:52:21 (5446)

2002-03-04 15:52:21# 127. lþ. 86.7 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv., RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 127. lþ.

[15:52]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra hefur vísað í störf þeirra nefnda sem hafa fjallað um sjávarútvegsmál og leitað sátta, auðlindanefndarinnar og nefndar um stjórn fiskveiða. Það er ekki annað að skilja á hæstv. ráðherra en að hann sé að fara að því sem hann álítur ásættanlega niðurstöðu þessa nefndarstarfs en það er umdeilt og um það verður rætt í þessari umræðu. Hins vegar taldi auðlindanefndin það meginhlutverk sitt að leggja til hvernig skýra mætti réttindi þjóðarinnar, eigandans, til auðlindanna og notendanna og taldi það mikilvægan lið í að sættir gætu náðst milli þjóðarinnar og notenda auðlinda að nýtt stjórnarskrárákvæði yrði sett, svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Náttúruauðlindir og landsréttindi sem ekki eru háð einkaeignarrétti eru þjóðareign eftir því sem nánar er ákveðið í lögum. Handhafar löggjafar- og framkvæmdarvalds fara með forsjá, vörslu og ráðstöfunarrétt þessara auðlinda og réttinda í umboði þjóðarinnar.``

Herra forseti. Það þýðir hvorki að vísa til prenttækninnar, uppfinningar hennar, né mismunandi skilnings fólks á niðurstöðum auðlindanefndar varðandi þetta ákvæði. Þetta ákvæði er skýrt. Þetta er niðurstaða nefndarinnar en það hefur ekki bólað á því að tillaga væri sett fram um að festa þetta ákvæði í stjórnarskrá. Nú spyr ég hæstv. sjútvrh.: Hvað líður framkvæmd þessa ákvæðis? Má vænta stjórnartillögu á grundvelli þessarar meginniðurstöðu auðlindanefndarinnar?