Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 04. mars 2002, kl. 15:56:48 (5450)

2002-03-04 15:56:48# 127. lþ. 86.7 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 127. lþ.

[15:56]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Mig langar að spyrja hæstv. sjútvrh. aðeins út í 4. gr. frv. sem varðar úthlutun 1.500 lesta byggðakvóta til aðila úti á landi og á að úthluta í samráði við Byggðastofnun.

Það er kunnara en frá þurfi að segja að úthlutun byggðakvótans sem úthlutað hefur verið af hálfu Byggðastofnunar hefur gengið afskaplega illa og sveitarfélögin sem hafa fengið þennan kvóta hafa logað stafna á milli í deilum um það hvernig honum hafi verið úthlutað, hverjir hafi fengið ráðstöfun og hvernig. Þegar farið er að úthluta 1.500 tonnum af þessum 12 þús. tonna kvóta sem verið hefur í höndum ráðherrans velti ég því fyrir mér hvort það sé byrjunin á því að þessi 12 þús. tonn verði einhver byggðapottur sem smám saman verði alfarið til ráðstöfunar til byggðarlaga úti um allt land og sjútvrn. muni sjá um það.

Mig langaði til að fá að vita hvaða hugmyndir væru þarna á bak við og einnig hvort hæstv. ráðherra gæti þá upplýst um það hvernig þessum 12 þús. tonnum hefði verið varið, t.d. á síðasta ári. Eftir því sem ég veit best hefur fram að þessu ekki miklu verið úthlutað af þessum heimildum og því er spurningin hvort þetta sé ný stefna sem farin er í sambandi við ráðstöfum á þessum potti.