Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 04. mars 2002, kl. 15:58:58 (5451)

2002-03-04 15:58:58# 127. lþ. 86.7 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv., sjútvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 127. lþ.

[15:58]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (andsvar):

Herra forseti. Tólf þúsund tonnin í 9. gr. eru að mínu mati afskaplega mikilvæg til að geta brugðist við því þegar uppi eru breyttar aðstæður. Sem betur fer hefur á undanförnum árum ekki þurft að nota stóran hluta af þessum 12 þús. tonnum. Frá því að ég kom í sjútvrn. hefur árlega verið úthlutað ríflega 2 þús. tonnum vegna brests í innfjarðarrækju. Vegna þeirrar umræðu sem uppi hefur verið um erfiðleika byggðanna og vegna þeirra erfiðleika sem gætu verið fyrirsjáanlegir vegna breytinga í sjávarútvegi og jafnvel erfiðleika sem tengdust því að lagt væri á veiðigjald eða veiðileyfagjald taldi ég nauðsynlegt að rýmka það svið sem heimilt væri að bregðast við með þessum 12 þús. tonnum og að hluta þeirra væri heimilt að nota til að bregðast við vanda byggðanna vegna breytinga í sjávarútvegi.

Eðli málsins samkvæmt hefur þessi grein ekki verið samþykkt og ekki hafa verið mótaðar neinar reglur um hana. Engar fyrirætlanir eru uppi um það að breyta eðli allra þessara 12 þús. tonna í þessa veru, einungis hluta þeirra. Það sem þá stendur eftir yrði eftir sem áður byggt á þeim grundvelli sem þegar er getið um í 9. gr.