Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 04. mars 2002, kl. 16:44:28 (5457)

2002-03-04 16:44:28# 127. lþ. 86.7 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 127. lþ.

[16:44]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég tel að mér sé bæði rétt og skylt að vinna að því að uppfylla þau sjónarmið sem minn flokkur hefur sett fram í þessu máli. Það er eins og ég hef rakið einkum þrennt. Í fyrsta lagi að það verði magntengt veiðigjald en menn voru ekki sammála um að hafa það afkomutengt. Í öðru lagi að auka við byggðakvóta. Í þriðja lagi að fá ákvæði í stjórnarskrána um þjóðareign fiskstofna.

Það liggur fyrir að verulega hefur verið komið til móts við sjónarmið okkar um magntengt veiðigjald. Ég álít að það sé þannig mjög nærri þeim viðhorfum sem miðstjórn Framsfl. setti fram.

Það er líka gengið til móts við þessi sjónarmið í auknum byggðakvóta með því að taka upp sérstakan byggðakvóta í smábátaútgerðum upp á 2.300 tonn og örlítið í þessu frv., um 1.500 tonn til sjútvrh., sem þýðir þá a.m.k. að á næstu tveim fiskveiðiárum verða 3.000 tonn í byggðakvóta. Ég tel hins vegar að mjög skammt sé gengið í þeim efnum og vil vinna að því að það verði aukið, hvort sem það verður með beinum tillögum eins og er í frv. um byggðakvóta eða með því að ívilna línuveiðum eins og við þekkjum frá fyrri tíð. Út af fyrir sig hefur það, hvað mig varðar, sömu áhrif og sömu þýðingu. Í þriðja lagi verður auðvitað gengið eftir því að vinna fylgi við það sjónarmið að setja í stjórnarskrá það ákvæði að fiskstofnarnir verði þjóðareign. Ég vek athygli á að niðurstaða auðlindanefndar var að svo skyldi gert.