Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 04. mars 2002, kl. 16:50:16 (5460)

2002-03-04 16:50:16# 127. lþ. 86.7 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv., ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 127. lþ.

[16:50]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson notaði drjúgan tíma af ræðutíma sínum í að lýsa viðhorfum manna í Framsfl. hvað varðar endurskoðun á fiskveiðistjórnarkerfinu. Nú er alveg ljóst að hér er á ferðinni frv. sem gerir engar stórkostlegar breytingar á því, heldur framkallast kannski enn þá verri gallar en hafa verið til þessa. Þess vegna leikur manni forvitni á að vita hvort hv. þm. getur stutt þetta frv. eins og það er núna. Eða megum við búast við því að í báðum stjórnarflokkunum þar sem uppi eru háværar raddir um að grundvallaruppstokkun þurfi að eiga sér stað, meti hann það svo að menn muni í báðum flokkunum bara lyppast gagnvart málinu? Þetta er verulegur hópur innan Framsfl. og ég tala nú ekki um innan Sjálfstfl. sem er í grundvallaratriðum gjörsamlega andvígur því kerfi sem við byggjum á. Ég hefði gaman af því að þingmaðurinn svaraði því eins og hv. þm. Jóhann Ársælsson spurði hann um, hvort hann gæti stutt frv. eins og það er núna eða með einhverjum minni háttar breytingum.