Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 04. mars 2002, kl. 16:53:17 (5462)

2002-03-04 16:53:17# 127. lþ. 86.7 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv., ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 127. lþ.

[16:53]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni hefur verið tíðrætt um byggðakvóta í ræðu sinni. Ég vil því spyrja hv. þm. af því hann er einnig stjórnarformaður í Byggðastofnun, hvort hann telji byggðakvóta sem slíkan, sem úthlutað er miðstýrt úr ráðuneyti vænlegan kost eða góðan kost fyrir þau byggðarlög sem standa illa. Tillögur hafa komið fram um byggðatengingu sem væri þá tenging á grundvallarréttindum til þess að afla fiskjar frá sjávarplássum landsins. Er það ekki að mati þingmannsins heppilegri leið en að vera með kvótaúthlutun sem byggir á því að slökkva elda þegar vandræðin koma fram vegna sölu á kvóta frá byggðarlögum o.s.frv.? Þetta er í sjálfu sér mjög mikið mál í frv. vegna þess að það stefnir í að menn ætli að beita þessu tæki meira en verið hefur og hér er um verulegar veiðiheimildir eða möguleika að ræða. Ég held að gott væri fyrir umræðuna að hv. þm. gerði svolitla grein fyrir skoðun sinni á þeim málum.

Hvað varðar sjávarbyggðirnar, þá er það mat flestra að það sé öryggisleysið sem fær fólk til þess að flýja, jafnvel frá stöðum þar sem um stundarsakir er ágætisatvinnuástand. Það sanna tölur sem sýna manni ásókn fyrirtækja í að fá erlent vinnuafl, að fólk hefur hreinlega farið af stöðunum, Íslendingar, og flutt vegna þess að þeir hafa ekki talið grundvöllinn nógu tryggan og notað fyrsta tækifæri til þess að flytja búferlum.