Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 04. mars 2002, kl. 16:55:13 (5463)

2002-03-04 16:55:13# 127. lþ. 86.7 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 127. lþ.

[16:55]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Meðan menn styðjast við núverandi kerfi með þeim göllum sem á því eru, sem m.a. leiða til mikillar samþjöppunar aflaheimilda og vandamála sem því fylgja í ýmsum byggðarlögum sem verða fyrir því að kvóti fer þaðan, þá tel ég nauðsynlegt að menn taki frá úthlutuðum aflaheimildum ákveðinn hluta til þess að geta ráðstafað til þeirra sömu byggðarlaga til að tryggja ákveðinn atvinnulegan grunn. Ég hef sett fram þau sjónarmið að í þessu skyni mundi þurfa svo vel væri u.þ.b. 5% af úthlutuðum aflaheimildum. Miðað við að úthlutaðar aflaheimildir séu um 400 þúsund þorskígildi, þá mætti reikna út að þetta þyrftu að vera um 20 þúsund tonn árlega, fyrst og fremst í botnfiski, sem væru til ráðstöfunar aðilum í útgerð í þeim tilgreindu byggðarlögum sem féllu undir það mál.

Úthlutun getur auðvitað verið með ýmsum hætti. Byggðastofnun hefur spreytt sig á því verkefni að ráðstafa 1.500 tonnum og hafði í leiðarvísi ákveðin markmið sem menn skyldu setja sér, annars vegar að tryggja atvinnu og hins vegar að byggja upp ný fyrirtæki. Segja má að reynslan sem þegar liggur fyrir af því fyrirkomulagi sé að vel sé hægt að gera þetta með almennum og skilgreindum hætti. Það hefur að mörgu leyti tekist vel til, sérstaklega það að tryggja atvinnu. Sú reynsla á ekkert að fæla menn frá í þeim efnum. Ég tel hins vegar ekki endilega nauðsynlegt að það sé Byggðastofnun eða ráðuneytið sem úthluti, heldur geti menn sett almennar reglur sem hægt er að styðjast við í ráðstöfun veiðiheimilda.