Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 04. mars 2002, kl. 17:37:35 (5466)

2002-03-04 17:37:35# 127. lþ. 86.7 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv., EKG
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 127. lþ.

[17:37]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Frumvarp það sem við ræðum snýst í meginatriðum um þann lagaramma sem verið er að setja um veiðigjaldið. Ég held að mjög mikilvægt sé að menn átti sig á því að þetta er kjarni þess frv. sem við ræðum nú og þó að það gefi í sjálfu sér tilefni til almennrar umræðu, þá er þetta auðvitað meginefni frv.

Menn hafa spurt á síðustu dögum og vikum: Hvernig má það vera að þegar lagt er fram frv. sem átti að hafa það að leiðarljósi að auka sættir í sjávarútvegi og auka sættir almennt meðal þjóðarinnar um þetta mikilvæga mál, að útkoman er sú að menn hafa gagnrýnt niðurstöðu hæstv. sjútvrh.? Í raun held ég að ekki hafi verið við öðru að búast vegna þess að málið er einfaldlega þannig vaxið. Við erum að fjalla um hugmyndafræði, um að leggja álögur á sjávarútveginn í einu eða öðru formi. Til þess eru í rauninni tvær leiðir eins og ég mun koma að á eftir. Og auðvitað var við því að búast að niðurstaðan í sjálfu sér kallaði á ágreining milli annars vegar þeirra sem telja í meginatriðum að rangt sé að leggja gjöld eða aðrar álögur sérstaklega á sjávarútveginn, hvort sem farin er veiðigjaldsleið eða fyrningarleið og hins vegar þeirra sem hafa verið hörðustu talsmenn slíkrar leiðar ekki bara árum saman heldur jafnvel áratugum saman og hafa verið að tala fyrir því að ganga mjög langt í að leggja með einum eða öðrum hætti sérstök gjöld á sjávarútveginn í því skyni, að sagt hefur verið, að auka í senn réttlætið í þjóðfélaginu og skilvirkni sjávarútvegsins. Þegar niðurstaðan er sú að setja sérstaka gjaldtöku á sjávarútveginn án þess að ganga það langt að það ógni tilverugrundvelli greinarinnar, þá er ekki við öðru að búast en þeir sem annars vegar hafa verið á móti þessari gjaldtöku í einu eða öðru formi í prinsippinu og hins vegar þeir sem hafa viljað ganga mjög langt verði ekki ýkja hrifnir. Þetta er samt sem áður málamiðlun milli tveggja mjög ólíkra póla og það út af fyrir sig gerir það ekki að verkum að þeir sem lengst hafa viljað ganga í hvora áttina sem er séu yfir sig hrifnir. En þetta er hins vegar málamiðlunarleið í eðli sínu sem fetar þetta þrönga einstigi.

Glögglega kemur fram bæði í skjölum auðlindanefndar og eins í niðurstöðum þeirrar nefndar sem fjallað hefur um endurskoðun laga um stjórn fiskveiða að í raun eru til tvær aðferðir að því marki að innheimta auðlindagjald af sjávarútveginum. Annars vegar sú leið sem kölluð hefur verið veiðileyfaleiðin eða sú leið sem við erum að fara, þ.e. veiðigjaldsleiðin, og hins vegar fyrningarleiðin.

Virðulegi forseti. Mig langar aðeins að fara yfir seinni leiðina í ljósi þess að ekki er niðurstaða hvorki meiri hluta endurskoðunarnefndarinnar né stjórnarmeirihlutans að fara þá leið. Því langar mig að fara yfir það mál vegna þess að ég held að það verðskuldi að við fjöllum efnislega um þá hugmynd um fyrningarleiðina.

Í fyrsta lagi tel ég mikinn galla á þeirri leið að augljóst er að hún tekur ekki á þeim ólíku aðstæðum sem kunna að vera uppi í rekstri einstakra fyrirtækja. Fyrirtæki eru ung eða eldri og eru að vaxa. Önnur fyrirtæki eru kannski að draga saman seglin og þess vegna er það frá þeirra sjónarhóli kannski ekki svo alvarleg staða þó að menn standi frammi fyrir því að veiðirétturinn sé á einhvern hátt rýrður með fyrningu. Hins vegar er þetta alveg augljóslega leið sem kemur harðar niður á þeim sem vilja auka veiðirétt sinn með t.d. kaupum á aflakvótum o.s.frv. Það er alveg augljóst að sú leið er þeim mun verri fyrir þá sem eru að reyna að efla sig í greininni og það út af fyrir sig finnst mér vera alvarlegur vankantur vegna þess að í eðli sínu hljótum við að reyna að hafa fyrirkomulag sem leiðir til þess að sjávarútvegurinn og sjávarútvegsfyrirtækin geti frekar stækkað, dafnað og eflst.

Einnig er ljóst þegar við fjöllum um þessi mál að við verðum að átta okkur á þeim veruleika sem sjávarútvegurinn hefur staðið frammi fyrir alltaf og ævinlega að miklar sveiflur eru í afkomu sjávarútvegsins. Sjávarútvegurinn er í eðli sínu sveiflukennd grein vegna þess að starfsumhverfið er slíkt. Það eru sveiflur í aflabrögðum. Það eru sveiflur í mögulegum veiðum. Það eru sveiflur á ytri mörkuðum o.s.frv. Efnahagslífið tekur líka sveiflur. Þetta verður að hafa í huga þegar á einhvern hátt er verið annaðhvort að fyrna aflaheimildir eða leggja sérstök gjöld á.

Ég tel líka að ef menn fara þá leið, þ.e. hreinræktaða fyrningarleið, má segja, með uppboði eins og sérstaklega talsmenn Samfylkingarinnar hafa talað mjög fyrir, þá er augljóst að það mun leiða til aukinnar samþjöppunar. Ég tek að vísu eftir því í plöggunum um endurskoðun laganna um stjórn fiskveiða að Samfylkingin, sem hefur gagnrýnt frv. sjútvrh., treystir sér ekki til að fara tæra uppboðsleið. Þeir tala að vísu mjög fyrir uppboðsleiðinni en þegar til kastanna kemur kjósa þeir samt sem áður að segja sem svo: Við verðum að mæta ýmsum sérþörfum, þörfum byggðanna, þörfum einstakra útgerðarflokka eða einhvers annars og fara síðan einhverja mixleið eftir að búið er að festa inni meginprinsipp um uppboðin. Það er líka mjög eftirtektarvert, ef maður les til að mynda álit talsmanns Vinstri grænna í þessari umræðu, að þar, eins og reyndar kom skýrlega fram í máli hans áðan, eru þeir alls ekki að tala um neina uppboðsleið í þessum efnum. Þeir tala um fyrningu á veiðirétti. En þeir vilja ganga mjög langt í því síðan að stýra handvirkt án afskipta markaðarins nákvæmlega hvernig eigi að ráðstafa þessum heimildum. Við sjáum af þessu að jafnvel talsmenn fyrningarleiðarinnar sem hafa verið að stilla málunum upp þannig að þetta sé fyrning á móti veiðigjaldi, eru með mjög skiptar skoðanir um hvernig eigi að fara í málið. Manni sýnist því þegar vel er skoðað og farið er yfir plöggin að talsmenn fyrningarleiðarinnar eigi fátt annað sameiginlegt nema nafnið því að ráðstöfun fyrningarréttarins er meginatriðið. Það skiptir a.m.k. miklu máli getum við örugglega sagt, hvernig menn ætla að fara að því að ráðstafa því sem losnar um í gegnum fyrninguna. Það er vegna þess að menn eru búnir að átta sig á því þegar farið er ofan í málið að venjulegt uppboð á aflaheimildum, á veiðirétti, á þessum fyrningum, mundi auðvitað hafa ýmsa aðra vankanta í för með sér.

[17:45]

Ég tel t.d. að uppboð og útboð af öllu tagi geti verið mjög skynsamlegt til skilgreindra þarfa en þar með er ekki sagt að það sé eina leiðin sem komi til greina á öllum sviðum þótt menn fallist á það á einu sviði. Ef við erum þeirrar skoðunar að það þjóni ekki okkar fjöldamörgu markmiðum um fiskveiðistjórn, bæði varðandi útgerðarflokkana og byggðirnar, enn fremur við uppbyggingu fiskstofna --- ef við erum þeirrar skoðunar að uppboð á veiðigjaldi eða á fyrningarrétti sé ekki líklegt til að þjóna öllum þessum fjöldamörgu markmiðum getum við auðvitað ekki fallist á það. Það sýnist mér reyndar vera þá hin eiginlega niðurstaða þeirra sem hafa gert fyrningarleiðina að sínu máli, að þeir treysta sér ekki til að fara uppboðsleiðina hreina og tæra heldur einhverja aðra leið, eins konar mixleið.

Það er líka athyglisvert og alveg augljóst mál þegar maður veltir því fyrir sér að uppboð af einhverju tagi sem menn hafa verið að tala fyrir, með hálfum huga þó eins og ég hef verið að rekja, mun auðvitað til lengri og skemmri tíma valda óvissu. Í auðlindagjaldsniðurstöðunni --- þó að ég hafi ekki setið fundi nefndarinnar held ég að ég verði a.m.k. að treysta á hið prentaða mál þar --- komast menn að þeirri niðurstöðu að óvissan sé mjög skaðleg, hvort sem menn fari veiðigjalds- eða fyrningarleiðina og að mikilvægt sé að draga úr óvissunni. Á bls. 41 segir um arð af gjaldtöku, með leyfi virðulegs forseta:

,,Hve mikill sá arður verður er þó m.a. háð því hve varanlegar og öruggar aflaheimildirnar eru.``

Það sem menn eru einfaldlega að segja er að ef að breyttu breytanda allt annað er eins er leiðin sem felur í sér meiri óvissu líklegri til að leiða til minni tekna hins opinbera af gjaldheimtunni. Það þýðir að ef farin er óvissuleiðin sem ég vil færa rök fyrir að fyrningarleiðin sé fremur en veiðigjaldsleiðin koma minni peningar í kassann.

Virðulegi forseti. Ég vildi aðeins koma almennt inn á þetta við 1. umr. Það er tilefni og ágætistóm til þess.

Menn hafa verið að tala um að litlar breytingar séu í sjálfu sér með þessari hugmynd um veiðigjald. Það fer eftir því hvernig menn skoða málið. Í fyrsta lagi verð ég að vekja athygli á því að á undanförnum árum hefur orðið ansi mikil breyting þegar við skoðum málin. Það er ekki mjög langt síðan við tókum upp veiðigjaldið og við höfum á undanförnum árum stigið mjög stór skref í því að hækka þetta gjald. Ég fletti upp í fjárlögunum áðan. Á árinu 1999 voru veiðieftirlitsgjöld af hvaða tagi sem er tæplega 200 millj. kr. en eru áætluð á þessu ári 315 millj. kr. Eins og menn muna ákváðum við að hækka þau um 50 millj. milli 2. og 3. umr. við afgreiðslu fjárlaga fyrir þetta ár. Hér er um að ræða 50% hækkun á aðeins þremur árum þannig að það er auðvitað ljóst að hugmyndafræðin sem liggur þessu til grundvallar hefur smám saman verið að festa sig í sessi. Það er auðvitað ljóst að ef við skoðum þetta í þessu samhengi er það alls ekki rétt sem menn hafa verið að halda fram, að þessi gjaldtaka sé eitthvað sem ekki munar um og ekki muni neinu breyta. Það er auðvitað ljóst mál að þetta mun ýmsu breyta.

Virðulegi forseti. Ég ætla aðeins að fá að koma inn á tvö önnur mál sem eru álitamál í mínum huga og eru í þessu frv. þó að ég, eins og ég sagði áðan, telji þau ekki þungamiðju þess. Það er í fyrsta lagi um stækkun smábáta. Ég vil segja það sem mína skoðun að ég tel eðlilegt að þróunin feli í sér að bátarnir séu stækkaðir frá því sem núna er. Ég væri út af fyrir sig sjálfur til í að taka skrefið aðeins lengra.

Ég tók eftir því í fjölmiðlum að menn veltu fyrir sér hvaða áhrif þetta hefði á hagsmunasamtökin. Ég tel alveg einsýnt að fari menn þá leið sem mörkuð er í frv., að stækka þessa báta, ber að tryggja að það raski ekki tekjugrundvelli hagsmunasamtakanna. Það er auðvitað ekki markmiðið með þessum breytingum. Ég tel alveg augljóst mál að menn yrðu auðvitað að afmarka tekjugrundvöllinn þannig að krókaaflamarkið tilheyrði þá Landssambandi smábátaeigenda og annað einhverjum öðrum. Þetta er auðvitað mál sem enginn vandi er að vinna út frá ef menn vilja það.

Ég tel einfaldlega að í ljósi þeirra breytinga sem gerðar hafa verið á smábátakerfinu, þ.e. að hverfa frá gamla þorskaflahámarkinu og taka upp þetta krókaaflamark og auka um leið veiðirétt smábátanna frá því sem ella hefði orðið við gildandi lög frá árinu 1999, sé það lógískt í sjálfu sér að gefa mönnum kost á að þróa þennan útgerðarflokk áfram. Í þessum útgerðarflokki er róið við ysta haf, oft við mjög erfiðar aðstæður og það er mjög eðlilegt að heimildir séu opnaðar fyrir menn til að stækka bátana sína þannig að menn geti róið með tiltölulega öruggum og skynsamlegri hætti, farið betur með hráefni o.s.frv. Það eru til hundrað rök fyrir því.

Í öðru lagi vil ég gera að umtalsefni þetta ákvæði varðandi stærð fyrirtækjanna. Ég sat á sínum tíma í nefndinni sem samdi frv. sem var til grundvallar þegar ákveðið var að setja svokallað kvótaþak í fiskveiðistjórnarlögin. Ég tel að þetta hafi almennt talað virkað vel. Það voru að vísu miklar hrakspár uppi þegar þetta frv. fór fram á sínum tíma og menn gerðu mikið grín að því að útgerðarmenn mundu fljótlega snúa á þessa vitlausu þingmenn sem væru að reyna að setja þessi lög. Annað kom á daginn. Lögin höfðu þann tilgang að tryggja tiltekna dreifingu og sá tilgangur hefur náðst.

Ég get hins vegar vel fallist á að skoða þurfi þessi mál aðeins upp á nýtt vegna þess að ýmis ákvæði í gildandi lögum eru úrelt, t.d. að gerður er greinarmunur á einhverju sem menn kalla dreifingu eignaraðildar innan fyrirtækjanna. Það held ég að sé að mestu leyti úrelt. Stóru fyrirtækin sem eru að ráði í þeirri stöðu að nálgast kvótaþakið eru yfirleitt í eigu mjög margra aðila. Þau eru í fjármagnsfrekum rekstri og hafa þess vegna orðið að kalla eftir fjármagni víða að. Þá breytir í raun engu hvort þetta ákvæði er þarna inni eins og það er í gildandi lögum þannig að mér finnst eðlilegt að hafa þetta eina prósent hvort sem menn eru að tala um einhverja tiltekna samsetningu eignaraðildar eða ekki.

Í annan stað tel ég út af fyrir sig nægjanlegt að hafa ákvæði um heildarkvótaþak í einstökum tegundum. Í raun hefði ég verið tilbúinn til að fallast á að afnema heildarkvótaþakið. Ég held hins vegar að of langt hafi verið gengið í því að fara upp í 50% í nokkrum tegundum eins og ýsu, grálúðu, karfa og einhverjum fleiri tegundum sem kemur fram í þessu frv. Ég tel að þar hafi menn einfaldlega gengið of langt, það sé ekki viðunandi að tvær útgerðir geti í teoríunni átt allan ýsukvótann eða allan karfakvótann. Þetta er mál sem ég held að við í sjútvn. Alþingis verðum sérstaklega að íhuga.

Það eru ákveðin rök fyrir ákvæðum um dreifða eignaraðild, sérstaklega í þessum sjávarútvegsbálki. Í fyrsta lagi eðlis málsins vegna, þetta er takmörkuð auðlind og takmarka þarf aðganginn að henni með einhverjum hætti. Út af fyrir sig þýðir það að aðgangur manna að viðkomandi atvinnugrein er ekki eins frjáls og í öðrum atvinnugreinum. Þess vegna er eðlilegt að við höfum einhver lög sem tryggja dreifingu. Við vitum að þegar aðgangurinn er ekki beinn og óheftur leiðir það til þess að lokum --- það segja fræðin okkur --- að um meiri söfnun valds verði að ræða. Í öðru lagi hefur tíminn einfaldlega leitt í ljós --- við vitum það sem erum komin á þann aldur að geta horft til baka --- að hin mikla fjölbreytni sjávarútvegsins hefur verið styrkur hans. Sagan segir og sýnir að það er þessi mikla fjölbreytni sem hefur haldið lífinu í greininni þegar á hefur bjátað. Það er kannski ekki við hæfi að vitna í Mao Zedong í þessari ræðu en hann sagði einhvern tíma að það væri gott að láta þúsund blóm spretta. Ég held satt að segja að það eigi við í þessari umræðu, virðulegi forseti, að gott sé að hafa þúsundir blóma í þessari atvinnugrein eins og svo mörgum öðrum.

Virðulegi forseti. Út af fyrir sig er við þessa umræðu ekki tilefni til að fara nánar ofan í málið. Mig langaði aðeins í upphafi hennar að fara yfir nokkur álitamál sem ég hef verið að velta fyrir mér á undanförnum mánuðum í tengslum við þessa sjávarútvegsumræðu. Ég vil láta í ljósi skoðanir mínar á þeim málum sem hafa risið hæst í umræðunni. Það er ekki þar með sagt að ég telji þau mál skipta mestu máli. Það er allt önnur saga. Þetta er hins vegar kjarni þessarar umræðu, kjarni þessa frv., og þess vegna fannst mér ástæða til að fara yfir þau atriði sem hafa verið áberandi í umræðunni.