Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 04. mars 2002, kl. 18:07:32 (5473)

2002-03-04 18:07:32# 127. lþ. 86.7 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 127. lþ.

[18:07]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er alfarið rekstur viðkomandi fyrirtækis sem ræður hvaða veiðileyfi það fær á markaðnum miðað við þær tillögur sem við höfum verið að leggja til. Það er alveg fráleitt að halda því fram að þetta valdi einhverri samþjöppun og valdi því að þeir sem eru að koma nýir inn verði í meiri vanda. Þvert á móti er alveg augljóst að ef veiðiheimildir koma inn á markaðinn eins og við erum að lýsa þá mun það auðvelda nýjum aðilum að koma inn í greinina. Þetta finnst mér liggja í augum uppi.

Mig langar til þess að hverfa að öðru atriði úr því að ég hef tíma til. Ýmislegt breytist í sjálfu sér með því sem kemur hérna fram. Auðvitað má segja það. Eina eðlisbreytingu tel ég að menn þurfi að ræða í þessari umræðu og mig langar til þess að spyrja hv. þm. um hana. Hvernig lítur hann á það þegar ríkið tekur ákvörðun um að fara að úthluta veiðiheimildum gegn gjaldi? Þrátt fyrir að ekki sé um hátt gjald að ræða þarna þá felst samt ákvörðun í því um að fara að úthluta veiðiheimildum gegn tilteknu gjaldi fyrir afnot af veiðirétti.

Hvað má segja um jafnræðisregluna þegar sumir hafa aðgang að því að fá úthlutað gegn gjaldi? Mun það breyta einhverju, að mati hv. þm., gagnvart jafnræði annarra sem munu koma og vilja fá að kaupa veiðiheimildir gegn gjaldi eins og þessir menn sem nú er verið að gera samninga við? Áður hefur ekki verið úthlutað gegn gjaldi eins og þarna er fyrirhugað. Menn hljóta að þurfa að svara því hvort þessi breyting hafi einhver áhrif á rétt annarra til þess að fá tækifæri til þess að eiga viðskipti við ríkið um veiðiheimildir.