Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 04. mars 2002, kl. 18:11:30 (5475)

2002-03-04 18:11:30# 127. lþ. 86.7 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv., SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 127. lþ.

[18:11]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Í þessari umræðu eru ýmis mál þegar byrjuð að skýrast nokkuð. Þó vil ég þegar gera eitt að umræðuefni og það er orðanotkun, vegna þess að það skiptir máli hvaða orð menn nota þegar verið er að fjalla um þessa hluti.

Hæstv. sjútvrh. og ríkisstjórnin hafa kosið að nota orðið veiðigjald yfir þau gjöld sem fyrirhugað er að leggja á samkvæmt þessu frv. Áður hefur í þessari umræðu verið talað um auðlindagjöld. Talað hefur verið um veiðileyfagjöld og það hefur verið talað um kostnaðargjöld. Það má kannski virða venjulegu fólki sem ekki er á kafi í þessari umræðu það til vorkunnar þó það kannski átti sig ekki alveg á því hvað hér sé á ferðinni. Ég hef litið svo á að þetta skiptist annars vegar í kostnaðargjöld, þ.e. gjöld sem útgerðin, eins og annar atvinnurekstur, greiðir fyrir skilgreindan kostnað sem fellur til vegna atvinnugreinarinnar. Þannig hef ég litið á þau gjöld sem þegar eru greidd. Það er sama hvort það er veiðileyfagjaldið eða gjöld fyrir veiðileyfi, að baki því hlýtur að liggja ákveðin skilgreining kostnaðar við það að gefa út leyfið. Það sama á við um veiðieftirlitsgjaldið, þessar 250 millj. Það kom fram nú fyrir jólin þegar því gjaldi var breytt að þar töldu menn sig hafa ákveðnar forsendur, ákveðinn útreikning, að baki.

Hvað varðar hins vegar þróunarsjóðsgjaldið þá er skilgreindur tilgangur með því. Hann er reyndar ekki sá sami og hann var upphaflega. En það er skilgreindur tilgangur og það er eðlilegt að flokka það gjald sem kostnaðargjald eða þátttöku útvegsins í hafrannsóknum við Ísland þar sem um er að ræða nú fyrst og fremst greiðslur vegna smíða á nýju hafrannsóknaskipi.

Svo hafa menn hins vegar verið að ræða um skilgreinda greiðslu fyrir afnot af sameiginlegri auðlind. Þar erum við komin í annan fasa. Þar erum við að tala um gjöld sem einungis mundu leggjast á þær atvinnugreinar sem fá að nýta þær náttúruauðlindir sem hafa verið skilgreindar með einhverjum hætti sem sameiginleg eign þjóðarinnar.

Það er alveg ljóst að fiskstofnarnir við landið eru með ákveðnum hætti viðurkenndir sem sameign í 1. gr. laganna um stjórn fiskveiða. Sömuleiðis gera þjóðlendulögin ljóst með ákveðnum hætti að þær náttúruauðlindir sem eru í þjóðlendum eru sameign þjóðarinnar. Í þjóðlendufrv. kemur fram að það þurfi í rauninni að semja um afnot og greiðslu vegna nýtingar þeirra auðlinda. Hins vegar sjáum við því miður að ekki er um samræmda auðlindastefnu að ræða vegna þess að ef menn bera saman löggjöf og tillögur sem fyrir liggja, allar um nýtingu sameiginlegra auðlinda, þá er þetta dálítið út og suður. Og það er bagalegt, herra forseti, í þessari umræðu að ekki skuli liggja fyrir skilgreind stefna sem einstakir ráðherrar geta þá stutt sig við þegar verið er að leggja fram tillögur um nýtingu auðlinda og greiðslu fyrir slíka nýtingu. Þegar við erum að tala um gjöld, ég tala ekki um ef menn vilja eins og hæstv. sjútvrh. í þessu tilfelli að horft sé til gjaldsins sem gjalds fyrir nýtingu auðlindarinnar, þá er mjög nauðsynlegt, herra forseti, að menn líti til þess ákvæðis sem var meginniðurstaða auðlindanefndarinnar og kveður á um að sett verði nýtt stjórnarskrárákvæði sem fjalli um sameiginlegar auðlindir þar sem hugtakið þjóðareign verði skilgreint, vegna þess að í rauninni vantar okkur hugtak sem gæti rímað við það sem sumar aðrar þjóðir eru með og kallast ,,public trust`` á ensku, þ.e. auðlindir í forsjá þjóðarinnar með einhverjum hætti sem menn fá að nýta eftir því hvernig á stendur. Í tilfelli okkar gerði auðlindanefndin tillögu um að menn fengju að nýta slíkar auðlindir gegn gjaldi.

[18:15]

Ég held að þetta sé mjög mikilvægt, herra forseti. Mér finnst bagalegt að þegar fyrir þingið kemur frv. eins og frv. um virkjun við Kárahnjúka sé hvorki minnst á gjald fyrir nýtingu auðlindarinnar né gjald fyrir nýtingu þess lands sem fellur undir áhrifasvæði þeirrar virkjunar. Það er reyndar svo í tilfellum orkufyrirtækjanna að þau greiða að stærstum hluta fyrir þær rannsóknir sem fara fram. Það eru háar upphæðir eins og við þekkjum. Það er slæmt, ég hef látið það koma fram bæði í umræðu og blaðagreinum sem ég hef skrifað og á öðrum vettvangi, þ.e. galli á málatilbúnaði ríkisstjórnarinnar að menn skuli ekki hafa samræmda stefnu í þessum málum og að ekki skuli tekið á málunum eins og lagt hefur verið til og nokkur vinna var lögð í, að móta vinnubrögð þannig að hér gæti á endanum ríkt eins konar sátt um auðlindastefnu.

Herra forseti. Þetta er afar mikilvægt fyrir þjóð sem lifir af nýtingu náttúruauðlinda í þeim mæli sem Íslendingar gera. Það eru ekki margar þjóðir sem nýta náttúruauðlindir sem svo stóran hlut af framleiðslu sinni, ef svo má orða það, og við gerum. Þess vegna skiptir kannski meira máli hvernig við förum í þessi mál en margur annar.

Herra forseti. Meginefni þessa frv. er, eins og kannski segir skýrast í fskj. sem geymir umsögn fjmrn., að leggja á gjald fyrir veiðiheimildir sem veiddar eru á grundvelli laga um stjórn fiskveiða. Það kemur fram í grg. með frv. hvernig menn hafa hugsað sér að skipta þessu gjaldi, til hvaða þátta. Þetta eru bæði kostnaðargreiðslur og annað ef marka má greinargerðina.

Ég hef haldið því fram að hér væri fyrst og fremst um nafnabreytingu að ræða, þ.e. hið nýja í málinu væri að menn væru búnir að finna upp reikniaðferð sem hægt væri að nota á bak við þær tölur sem nú eru lögbundnar og menn greiða og þeir væru síðan að teygja þetta út yfir greiðslu fyrir afnot af auðlind. Það hef ég kannski fyrst og fremst gert, herra forseti, vegna þess að mér finnst númer eitt að við fullnægjum þeirri kröfu að kostnaðargjöldin séu greidd að fullu og svo sé það annað mál hvernig við látum útveginn eða útgerðina greiða fyrir aðgang sinn að auðlind. En hæstv. ríkisstjórn hefur kosið að fara þessa leið. Eins og fram hefur komið er ég andvíg henni. Þar tala ég líka fyrir flokk minn. Við teljum að það eigi að fara með öðrum hætti í að láta menn greiða fyrir afnot af sameiginlegri auðlind.

Umræður um gjald fyrir afnot af auðlind hafa staðið mjög lengi á Íslandi. Fyrir nokkrum áratugum komu fram hugmyndir um að nýta greiðslur, svokallaða auðlindaskatta eins og þeir voru kallaðir á þeim tíma, beinlínis til að stýra hér aðgangi að auðlindinni. Síðan hefur orðið ákveðin þróun í þessari umræðu. Sú þróun sem orðið hefur í umræðunni hefur átt sér stað í samræðum stjórnmálamanna, þeirra sem starfa í sjávarútvegi og fólksins í landinu. Inn í þetta hafa síðan spilað hæstaréttardómar sem hér hafa þegar verið nefndir. Það skiptir t.d. miklu máli fyrir umræðuna og hafði veruleg áhrif á hvaða stefnu hún tók að svokallaður Valdimarsdómur gerði meiri kröfu til þess að menn litu til jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar en verið hafði. Sérfræðinganefnd sem ríkisstjórnin setti í málið komst að þeirri niðurstöðu að jafnræðinu yrði fullnægt með því að afnema flotastýringarákvæði fiskveiðistjórnarlaganna, þ.e. jafnræðið mundi felast í að allir mættu kaupa sér skip, allir gætu fengið veiðileyfi og síðan yrðu menn að kaupa sér aflaheimildir.

Síðan féll svokallaður Vatneyrardómur. Segja má að hann hafi enn skerpt á umræðunni vegna þess að með þeim dómi er sérstaklega undirstrikað hver óvissa fylgir óbreyttu ástandi, því ástandi sem hæstv. ráðherra ætlar að framlengja með frv. sínu. Því ástandi fylgir óvissa vegna þess að þar komast menn að þeirri niðurstöðu að löggjafinn geti á hverjum tíma breytt grundvelli fiskveiðistjórnarlaganna, breytt þeim úthlutunarreglum sem farið er eftir ellegar geti þau kallað eftir frekara gjaldi í samræmi við þær hugmyndir sem uppi hafa verið meðal þjóðarinnar.

Herra forseti. Þetta vil ég nefna vegna þess að sú ákvörðun sem hér liggur fyrir af hálfu hæstv. ríkisstjórnar er ekki bara afurð einhverra nefnda þar sem sú meginniðurstaða lá fyrir að taka bæri gjald fyrir afnot auðlinda heldur er þetta miklu lengra ferli þar sem ýmis atvik, bæði dómar, umræða og svo þær hugmyndir sem menn hafa kastað á milli sín, hafa leitt til tiltekinnar niðurstöðu.

Fyrir síðustu alþingiskosningar setti Samfylkingin fram í kosningastefnuskrá sinni að það bæri að fara í einhvers konar fyrningu. Segja má að þar hafi hugmyndin verið mörkuð með tilteknum hætti án þess að hún væri mjög útfærð. Á þeim tíma vildum við með þeim hætti segja hvaða hugmyndir væru að gerjast með okkur og á stofnfundi Samfylkingarinnar var síðan samþykkt að flokkurinn teldi rétt að fara svokallaða fyrningarleið. Þar erum við í raun bæði að svara spurningunni um hvernig við teljum að gjald fyrir afnot af auðlindinni eigi að koma og sömuleiðis hvernig eigi að taka á stærsta deilumálinu, þ.e. hvernig veiðiréttinum er úhtlutað.

Í stuttu máli er okkar hugmynd sú að úthlutun veiðiheimilda án endurgjalds verði afnumin í jöfnum áföngum en að útgerðum fiskiskipa verði þess í stað gefinn kostur á aflahlutdeildarsamningi á markaði þar sem öllum útgerðum sambærilegra fiskiskipa er fenginn jafn réttur. Ég undirstrika þetta með aflahlutdeildarsamninginn. Það er mjög mikilvægt að þeir sem fá úthlutað veiðiheimildum og hafa greitt fyrir þær hafi ákveðið öryggi.

Menn tala svolítið um óöryggi. Ég tók eftir því að hv. þm. Einar K. Guðfinnsson, formaður sjútvn., talaði mikið um það óöryggi sem fylgdi fyrningarleiðinni. Hv. þm. hefur ekki kynnt sér málið nægjanlega fyrst hann talar svona vegna þess að hann horfir þá algerlega fram hjá því hvernig lögin sem við búum við í dag eru. Í fyrsta lagi er veiðirétturinn einungis til árs í senn. Honum er úthlutað til árs í senn og ekki til lengri tíma. Hann er ekki varanlegur í neinum skilningi og Vatneyrardómurinn undirstrikar í raun þetta óöryggi.

Í öðru lagi hefur fyrningarleiðin þann stóra kost í för með sér að þegar menn kaupa til sín veiðiréttinn eftir þeirri aðferð eru þeir að tryggja sig til einhverra ára. Hversu mörg þau ár eiga að vera getur að sjálfsögðu orðið samkomulagsatriði, herra forseti, og mun að sjálfsögðu fara eftir því hvernig ástandið er í samfélagi okkar þegar að því kemur og við hvaða stöðu útvegurinn býr. En það held ég að menn hljóti að gera sér ljóst ef þeir horfa á þessar tvær aðferðir og til þess ástands sem við búum við í dag að fyrningarleiðinni fylgir ótvírætt meira öryggi fyrir handhafa veiðiheimildanna.

Herra forseti. Mér finnst menn líka skauta nokkuð léttilega fram hjá því að í raun er hægt að fá allar veiðiheimildir á Íslandsmiðum keyptar. Framsal er leyfilegt þó að ákveðnar hömlur séu á aflamarki. Það eru engar hömlur á kaupum og sölum á aflahlutdeild. Menn hafa þannig nánast getað keypt og selt að vild. Menn hafa talið að í því fælist ákveðið óöryggi líka þannig að við skulum ekki tala eins og við búum við pottþétt öryggisástand, hvort sem er fyrir útgerðina, fyrir byggðarlögin eða fyrir einstaklingana. Við skulum bara tala um hlutina eins og þeir eru og vega það síðan og meta. Það varð niðurstaða okkar í Samfylkingunni, eftir að við vorum búnin að vega þetta mál og meta, að sú fyrningarleið sem auðlindanefnd gerir tillögu um í áliti sínu og við útfærum með okkar hætti væri í rauninni vel fær. Þannig ætti að vera ljóst, herra forseti, hvernig við höfum litið á málin.

Vandinn við frv. ráðherra, svo ég komi aftur að því, er sá að það framlengir í sjálfu sér eingöngu núverandi ástand. Með því er engri óvissu eytt og ekki verið að mæta þeim ágreiningsatriðum sem uppi hafa verið þannig að hægt sé að tala um sátt.

Óöryggið sem menn hafa kannski fyrst og fremst horft til hefur verið pólitískt óöryggi. Umræðan úti í samfélaginu og þrýstingurinn á stjórnmálamennina, umræðan á Alþingi, þeir varnaglar sem menn hafa sett við hverja þá umræðu sem haldin hefur verið um sjávarútvegsmál, hafa gefið útgerðarmönnum tilefni til að álykta sem svo að ekkert öryggi sé í því kerfi sem er við lýði, enda er svo ekki. Það verður að segjast, herra forseti, að ýmislegt af því sem menn hafa verið að gera á undanförnum árum hefur ekki orðið til að létta á þeirri spennu eða tappa af með neinum marktækum hætti. Þess vegna endurtek ég það álit okkar í Samfylkingunni að þetta frv. losi ekki um þessa spennu vegna þess að það tekst ekki á við þá megingagnrýni sem uppi hefur verið sem í grundvallaratriðum felst í því hvernig úthlutað er.

Ég hef tekið eftir því í skoðanakönnunum að menn eru ekki að mótmæla aflamarkskerfinu sem slíku. Menn geta haft á því ýmsar skoðanir eins og margoft hefur komið fram, m.a. hafa menn velt því fyrir sér hvers lags tæki til fiskverndar það kerfi er. Ég hef ekki tekið mikinn þátt í þeirri umræðu vegna þess að ég hef aldrei litið svo á að aflamarkskerfið væri sérstakt fiskverndarkerfi. Ég hef litið svo á að það væri fyrst og fremst kerfi sem tryggt gæti ákveðinn stöðugleika og hefði hagfræðilegan bakgrunn. Þjóðin hefur í sjálfu sér ekki verið að mótmæla því kerfi ef marka má skoðanakannanir. Ágreiningspunkturinn hefur fyrst og fremst verið úthlutunin.

Gjaldið sem hér á að leggja á og ég sagði áðan að væri kannski fyrst og fremst útreikniaðferð bak við þær greiðslur sem í grófum dráttum hafa verið inntar af hendi hingað til er í sjálfu sér ekki hátt, miðað við þær upphæðir sem nefndar hafa verið um virði auðlindarinnar, þ.e. upphæðir sem fram hafa komið varðandi kaup og sölu á þessum aðangi að auðlindinni. Þær eru slíkar, jafnvel upphæðir sem menn tala um að einungis leiga á aflamarki færi handhöfum þess, að við erum ekki að tala um háa upphæð í þessu tilviki.

Það sem meira er, hæstv. ríkisstjórn er í þessu frv. að tala um að þetta sé trappað inn með tilteknum hætti frá árinu 2004 til ársins 2009. Þá fyrst á gjaldið að geta náð fullri virkni. En þá, herra forseti, með þeim fyrirvörum hversu vel hefur árað, hvert verð á olíu hefur verið á Rotterdam-markaði og útreiknuðu verði á kostnaði. Þannig tekur gjaldið kannski ekki nægilegt tillit til þess ef framleiðniaukning verður í sjávarútvegi. Þarna eru ákveðnar frosnar stoðir sem eiga að halda utan um þetta. Þetta eru mál sem við hljótum að þurfa að skoða mjög vandlega í sjútvn. ásamt öðrum þeim leiðum sem færar eru til breytinga á málinu.