Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 04. mars 2002, kl. 18:43:53 (5477)

2002-03-04 18:43:53# 127. lþ. 86.7 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv., SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 127. lþ.

[18:43]

Svanfríður Jónasdóttir (andsvar):

Herra forseti. Það er óhjákvæmilegt að byrja á að leiðrétta hv. þm. þegar hún talar um að stjórnarandstaðan sé að tala um hærri skatta á sjávarútveginn. Ég kannast ekki við að minn flokkur hafi nokkurs staðar komið fram með þá hugmynd að sjávarútvegurinn ætti að greiða hærri skatta. Við lögðum t.d. ekki til hærra tryggingagjald á sjávarútveginn fyrir áramótin eins og flokkur hv. þm. heldur lögðumst við gegn slíkum álögum þannig að þarna hafa upplýsingar eitthvað runnið á skjön.

Síðan finnst mér líka full ástæða til þess að rifja það upp hér að íslenskar útgerðir greiða fyrir veiðirétt alls staðar annars staðar og finnst það sjálfsagt. Það er meira að segja þannig að íslenskar útgerðir greiða fyrir veiðirétt í úthafinu, veiðirétt sem íslenskar útgerðir hafa áunnið þessum flota. Það er því ekkert nýtt við það og menn þekkja það mjög vel að menn greiði fyrir veiðiréttinn fyrir utan þá löngu reynslu sem útgerðarmenn á Íslandsmiðum hafa af því að greiða hver öðrum fyrir veiðiréttinn og eru þá ekki mjög sínkir á upphæðirnar og er þá minna talað um það hversu erfitt þetta sé, enda er það svo að það er eftirsókn eftir því að gera út á Íslandsmiðum. Til þess þarf ekki að lokka menn með neinum hætti.

Aðeins, herra forseti, vegna þess að hv. þm. sagði að sér fyndist eðlilegt að útgerðin greiddi kostnaðargjöld, þá er það svo að menn telja að ef sjómannaafslátturinn er meðtalinn, þá séu kostnaðargjöldin a.m.k. 4,5 milljarðar. Með frv. er verið að tala um að á góðum degi geti þetta mest orðið rúmir tveir. Hvar finnst hv. þm. eðlilegt að stoppa við með kostnaðargjöldin? Vill hún fara með þau alveg upp í 4,5 eða finnst henni eðlilegt að skattgreiðendur haldi áfram að greiða hluta þess kostnaðar sem til fellur vegna útgerðar?