Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 04. mars 2002, kl. 18:45:54 (5478)

2002-03-04 18:45:54# 127. lþ. 86.7 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv., SI (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 127. lþ.

[18:45]

Sigríður Ingvarsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Já, núna vilja fáir kannast við krógann. Það finnst mér ósköp eðlilegt. Varðandi spurninguna um hvað ég mundi vilja held ég að það hafi komið mjög skýrt fram hjá mér. Ég vil að sjávarútvegsfyrirtæki fái að sitja við sama borð og önnur fyrirtæki, þ.e. borgi skatta og skyldur eins og önnur fyrirtæki. Með góðum rekstri og auknum hagnaði borga þau að sjálfsögðu meira inn til þjóðarbúsins. Þegar vel árar hjá þeim eins og núna eykst áhugi þeirra á að fjárfesta í hliðargreinum við sjávarútveginn, og ég get tekið sem dæmi fiskeldi víða um land og kítosanverksmiðjuna á Siglufirði. Það er auðvitað eitthvað sem kemur okkur öllum til góða. Það er einmitt byggðastefna sem mun skila sér ef við búum vel að sjávarútveginum þannig að hann geti fjárfest til framtíðar.