Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 04. mars 2002, kl. 18:47:09 (5479)

2002-03-04 18:47:09# 127. lþ. 86.7 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv., SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 127. lþ.

[18:47]

Svanfríður Jónasdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég er sammála einum af þingmönnum Sjálfstfl., hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni, um að besta byggðastefnan fælist kannski í að gengið fengi að vera rétt skráð. Svo held ég að það væri gott að sjávarútvegurinn sæti við sama borð og aðrar atvinnugreinar. Það þýðir að hann greiðir fyrir öll aðföng. Það gera aðrar atvinnugreinar. Það að greiða fyrir aðgang að auðlindinni er að greiða fyrir aðföng. Það er ekki þannig með aðrar atvinnugreinar að þær fái ókeypis hluta sinna aðfanga. Þær greiða fyrir það allt.

Við erum að tala um, herra forseti, að sjávarútvegsfyrirtækin sitji við sama borð og aðrir. Þar með viljum við líka að óvissunni sé aflétt, ófriðnum linni, það verði meiri sátt um útveginn. Þegar upp er staðið er það hin ágætasta byggðastefna sem ég veit að mörg okkar berum fyrir brjósti þó við séum ekki tilbúin að fara sömu leiðina. Hins vegar er ekki örgrannt um að ég treysti mér til að geta talað hv. þm. nær okkar sjónarmiðum en mér heyrist hún vera nú.