Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 04. mars 2002, kl. 18:50:24 (5482)

2002-03-04 18:50:24# 127. lþ. 86.7 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv., SI (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 127. lþ.

[18:50]

Sigríður Ingvarsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég var ekki að væna alla um að vera þröngsýnir. Ég sagði að það gætti víða þröngsýni og ég stend alveg við þau orð. Hins vegar veit ég að auðvitað viljum við sjávarútvegsfyrirtækjunum sem og fyrirtækjunum öllum í landinu sem bestan hag. Það kemur þjóðinni allri til góða. Við erum hins vegar ósammála um þær leiðir sem á að fara.

Ég tel að með þessu hóflega veiðigjaldi sé skásta leiðin valin, ef á annað borð á að leggja gjald á sjávarútveginn og sé það gjald markað til framtíðar og hækki það ekki þannig að allir viti að hverju þeir ganga verði mikilvægt rekstraröryggi tryggt. Hins vegar er í mínum huga ekki hægt að segja það sama um fyrningarleiðina. Þar held ég að rekstraröryggið sé sett í uppnám og framkvæmdin verði ansi torveld.